Bótaábyrgð ríkisins. Sanngirnisbætur.

(Mál nr. 12136/2023)

Óskað var eftir áliti umboðsmanns á rétti viðkomandi til sanngirnisbóta vegna slæms aðbúnaðar í barnæsku.  

Þar sem það er ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum voru ekki skilyrði til að taka kvörtunina til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 21. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 4. apríl sl. þar sem þess er óskað að umboðsmaður veiti álit sitt á rétti yðar til sanngirnisbóta vegna þess slæma aðbúnaðar sem yður var búinn í barnæsku.

Um störf umboðsmanns Alþingis gilda samnefnd lög nr. 85/1997. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalds kvartað af því tilefni til umboðsmanns Alþingis. Í þessu ákvæði felst að almennt verður ekki kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin snerti tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds, sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum um tiltekin málefni eða réttarsvið án þess að um tiltekna athöfn sé að ræða.

Eins og rakið er í kvörtun yðar er ljóst að þau atvik sem þar er fjallað um skipta yður miklu. Hins vegar verður ekki séð að fyrir liggi tiltekin ákvörðun eða athöfn tilgreinds stjórnvalds í málinu heldur felst í kvörtun yðar fremur ósk um leiðbeiningar varðandi mögulegan rétt til sanngirnisbóta. Í ljósi þess hvernig hlutverk umboðsmanns er afmarkað með lögum er mér þar af leiðandi ekki unnt að taka kvörtunina til meðferðar eins og hún er úr garði gerð.

Vegna þess hvernig kvörtun yðar er sett fram tel ég þó rétt að víkja nokkrum orðum að gildandi löggjöf um sanngirnisbætur. Þar er mælt fyrir um greiðslu sanngirnisbóta úr ríkissjóði til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum fyrir fötluð börn sem starfræktar voru á vegum hins opinbera og þar sem börn voru vistuð sólarhringsvistun, sbr. 1. málslið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum fyrir fötluð börn. Ljóst er að samkvæmt gildandi lögum er greiðsla sanngirnisbóta bundin við þá sem sættu vistun á nánar tilgreindum stofnunum á vegum hins opinbera auk þess sem þær eru bundnar nánar tilgreindum skilyrðum, sbr. 2. og 3. gr. laganna. 

Ég læt þess þó einnig getið að í samráðsgátt íslenskra stjórnvalda er að finna drög að frumvarpi um sanngirnisbætur sem birt voru 2. desember 2022. Þar kemur fram að fyrirhugað sé að setja heildarlög um sanngirnisbætur þar sem einstaklingar sem orðið hafa fyrir varanlegum skaða sem ekki fæst bættur á annan hátt vegna illrar meðferðar eða ofbeldis sem þeir hafa orðið fyrir vegna athafna eða athafnaleysis opinberra aðila hjá stofnunum ríkisins eða sveitarfélaga eða af hálfu einkaaðila á grundvelli ákvörðunar eða samnings við opinberan aðila eða samkvæmt opinberu leyfi samkvæmt lögum eiga rétt til greiðslu sanngirnisbóta. Umrætt frumvarp hefur ekki verið lagt fyrir Alþingi en drög að því má nálgast á vefslóðinni www.samradsgatt.island.is.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.