Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar. Meðlag. Innheimtukostnaður. Svör við erindum.

(Mál nr. 12020/2023)

Kvartað var yfir svörum Innheimtustofnunar sveitarfélaga við erindum sem lutu að innheimtu á meðlagsskuld og verklagi við undirbúning svaranna.  

Af gögnum málsins, svari stjórnarformanns stofnunarinnar og með hliðsjón af fyrirhuguðum breytingum á innheimtu meðlaga taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við svör Innheimtustofnunar eða verklag í þessu tilviki. Hvað snerti athugasemdir vegna þóknunar vegna innheimtu meðlagskrafna hjá launagreiðendum meðlagsgreiðenda var horft til þess að stofnunin hafði lýst því yfir að hún myndi leiðrétta ofteknar greiðslur að þessu leyti í kjölfar nýlegs álits Lagastofnunar Háskóla Íslands.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. apríl 2023.

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar yfir svörum Innheimtustofnunar sveitarfélaga við erindum yðar til stjórnar stofnunarinnar 17. og 27. desember sl. sem lutu að innheimtu á meðlagsskuld A og því verklagi sem stofnunin viðhafði við undirbúning svaranna.

Í tilefni af kvörtun yðar var stjórn stofnunarinnar ritað bréf 8. febrúar sl. þar sem þess var óskað að hún veitti skýringar í tengslum við svör hennar við fyrirspurnum yðar að því leyti sem þær beindust að þóknun sem B, lögmaður, reiknaði sér vegna innheimtu meðlagsskuldar A. Jafnframt var þess óskað að stjórnin veitti upplýsingar um það verklag sem viðhaft er við móttöku og afgreiðslu erinda sem henni berast og þá einkum við mat á því hvort tiltekin erindi verði borið undir stjórnina sjálfa eða afgreiðsla þeirra falin öðrum starfsmönnum stofnunarinnar.

Í svari formanns stjórnar við fyrirspurn umboðsmanns 28. febrúar sl. er þeirri afstöðu lýst að fyrirspurnum yðar um innheimtu á meðlagsskuld A 17. og 27. desember sl. hafi verið svarað í tölvubréfi C, lögmanns hjá stofnuninni, 12. janúar sl. Auk þess er í svarinu gerð grein fyrir verklagi stofnunarinnar við móttöku erinda.

     

II

Þér hafið áður leitað til mín með kvörtun fyrir hönd A sem hlaut númerið 11391/2021 í málaskrá embættisins vegna stjórnsýslu Innheimtustofnunar við innheimtu meðlagsskulda sem lokið var með bréfi 17. desember 2021. Þar kom m.a. fram að ekki væri nægilegt tilefni til að aðhafast frekar vegna almennra athugasemda yðar við starfsemi stofnunarinnar sem lutu m.a. að samskiptum og upplýsingagjöf til þeirra sem til hennar leita. Var að því leyti horft til þess að unnið væri að almennri úttekt á verkefnum og starfsemi stofnunarinnar af hálfu Ríkisendurskoðunar en tilefni þeirrar úttektar mun m.a. hafa verið fyrirhugaðar breytingar á þeim lagagrundvelli sem stofnunin starfar samkvæmt og tilfærslu verkefna hennar til ríkisins.

Líkt og átti við um þær athugsemdir sem þér gerðuð við starfsemi innheimtustofnunar í fyrri kvörtun yðar, sem lutu einkum að samskiptum stofnunarinnar við þá sem til hennar leita og upplýsingagjöf af hennar hálfu, hef ég að hluta skilið sjónarmið yðar nú sem almennar athugasemdir við störf stofnunarinnar. Í þessu sambandi bendi ég á að innviðaráðherra hefur nú lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Verði frumvarpið að lögum munu verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga flytjast alfarið til ríkisins. Um markmið frumvarpsins segir m.a. í athugasemdum í greinargerð þess:

Tilgangur frumvarpsins er að mæla fyrir um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að færa verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga frá sveitarfélögum til ríkisins. Markmiðið með tilfærslunni er að skapa trausta umgjörð um innheimtu meðlaga og annarra framfærsluframlaga samkvæmt ákvæðum barnalaga, nr. 76/2003, eða á grundvelli þjóðréttarlegra samninga um innheimtu krafna, einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, stuðla að jákvæðri þróun starfseminnar og bæta þjónustu við meðlagsgreiðendur. (896. mál, 153. löggjafarþing 2022-2023).

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, þ. á m. svar formanns stjórnar stofnunarinnar og með hliðsjón af þeim breytingum sem gert er ráð fyrir að verði á innheimtu meðlaga tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við svör stofnunarinnar við erindum yðar eða það verklag sem stofnunin viðhafði við það tilefni. Í því sambandi tek ég fram að ég fæ ekki betur séð af svari stofnunarinnar til yðar 12. janúar sl. en að spurningum yðar sem þér færðuð fram í erindum 17. og 27. desember sl. hafi verið svarað efnislega. Er þá einnig höfð hliðsjón af 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, en þar segir að kvörtun skuli bera fram við umboðsmann innan árs frá því er stjórnsýslu­gerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að ekki verður annað ráðið en að samskipti yðar við stofnunina lúti að mestu leyti að samþykktum stjórnarinnar um meðlagsgreiðslur A og kröfur um að vinnuveitandi hans héldi eftir hluta af kaupi hans á árinu 2021. Hvað snertir athugasemdir í erindum yðar til innheimtustofnunar viðvíkjandi þóknun við innheimtu meðlagskrafna hjá launagreiðendum meðlagsgreiðenda hef ég jafnframt horft til þess að stofnunin hefur lýst því yfir að hún muni leiðrétta ofteknar greiðslur að þessu leyti í kjölfar nýlegs álits Lagastofnunar Háskóla Íslands.

   

III

Með hliðsjón af framangreindu læt ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.