Skipulags- og byggingarmál. Byggingarleyfi. Afturköllun.

(Mál nr. 12070/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferð Reykjanesbæjar í tengslum við húsbyggingu og stöðvun framkvæmda.  

Þar sem erindið hafði ekki verið borið undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um málið. Hann taldi þó tilefni til að spyrja sveitarfélagið sérstaklega út í tiltekin atriði við meðferð málsins og óska skýringa á þeim.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 26. febrúar sl. vegna málsmeðferðar Reykjanesbæjar í tengslum við byggingu á tvílyftu íbúðarhúsi við [...] í Reykjanesbæ og stöðvun framkvæmda við byggingu hússins.

Kvörtuninni fylgdu tilkynningar byggingarfulltrúa sveitar-félagsins 9. desember og 3. mars sl. um fyrirhugaða afturköllun byggingarleyfis vegna byggingar hússins. Jafnframt barst frá yður afrit af bréfi byggingarfulltrúans til yðar 11. apríl sl. þar sem yður var tilkynnt um að leyfið hefði verið fellt úr gildi með vísan til 4. mgr. 14. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Þá kemur fram í kvörtuninni að samningaviðræður hafi átt sér stað á milli yðar og bæjarlögmanns svo og bæjarstjóra sveitarfélagsins áður en leyfið var fellt niður. Kvörtuninni fylgdi að því leyti m.a. afrit af tölvubréfi bæjarlögmanns til lögmanns yðar 12. janúar sl. þar sem hann greindi frá tillögum sínum að mögulegri lausn málsins.

Í tilefni af kvörtuninni var sveitarfélaginu ritað bréf 6. mars sl. þar sem þess var óskað að umboðsmanni yrðu afhent afrit allra gagna sem vörðuðu samningsumleitanir um mögulegar lyktir málsins á milli fulltrúa sveitarfélagsins og yðar. Svör sveitarfélagsins og umbeðin gögn bárust með bréfi 20. mars sl.

Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 sætir ákvörðun byggingarfulltrúa um niðurfellingu byggingarleyfis á grundvelli 4. mgr. 14. gr. laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun byggingarfulltrúa.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fjallað um ákvörðun byggingarfulltrúa um niðurfellingu leyfisins eru ekki skilyrði að lögum að svo stöddu til þess að umboðsmaður fjalli um málið að því leyti á grundvelli kvörtunar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar. Fari svo að þér berið ákvörðun byggingar-fulltrúa um niðurfellingu byggingarleyfisins undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Hins vegar tel ég rétt að upplýsa yður um að athugun mín á málinu hefur orðið mér tilefni til að rita bæjarstjórn Reykjanesbæjar hjálagt bréf.

   

  


    

Bréf umboðsmanns til Reykjanesbæjar 28. apríl 2023.

   

Vísað er til fyrri samskipta vegna kvörtunar A, [...] í Reykjanesbæ, yfir málsmeðferð Reykjanesbæjar í tengslum við byggingu á tvílyftu íbúðarhúsi við [...] í Reykjanesbæ, og stöðvun framkvæmda við byggingu hússins.

Nú liggur fyrir að byggingarfulltrúi sveitarfélagsins hefur fellt byggingarleyfið niður. Með vísan til þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur ekki fjallað um þá ákvörðun hefur umboðsmaður lokið athugun sinni vegna kvörtunar A á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sbr. bréf sem honum hefur verið ritað og fylgir hjálagt í ljósriti.

Við athugun umboðsmanns á málinu varð hann var við tiltekin álitaefni sem hann telur tilefni til að kanna nánar. Þannig kom fram í kvörtuninni að samningsviðræður hefðu átt sér stað á milli A og bæjarlögmanns svo og bæjarstjóra sveitarfélagsins um lyktir þess máls sem lýtur að byggingarleyfi sem útgefið var vegna byggingar hússins. Kvörtuninni fylgdi að því leyti m.a. afrit af tölvubréfi bæjarlögmanns til lögmanns A 12. janúar sl. þar sem hann greindi frá hugmyndum sínum um mögulega lausn málsins. Í tillögu bæjarlögmannsins um lausn þess og samkomulag þar að lútandi við A var m.a. gert ráð fyrir því að byggingu hússins yrði lokið eins og það stæði eftir að uppfærðum skipulags- og hönnunargögnum hefði verið skilað, eftir atvikum þannig að útgefið byggingarleyfi yrði uppfært eða nýtt leyfi útgefið, og stöðvun framkvæmda við húsið aflétt. Gerðu tillögurnar jafnframt ráð fyrir því að A og sveitarfélagið lýstu því yfir að málarekstri vegna byggingar hússins væri lokið og aðilar bæru sinn kostnað vegna hans. Teldist málinu í heild sinni þá lokið að öllu leyti og engar frekari kröfur yrðu hafðar uppi. Verður ekki annað ráðið en að tillögurnar hafi að þessu leyti falið í sér að A myndi ekki hafa uppi bótakröfur vegna málsins síðar, þ. á m. vegna tjóns sem hann teldi sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætrar stöðvunar framkvæmda.

Í tilefni af kvörtuninni var sveitarfélaginu ritað bréf 6. mars sl. þar sem þess var óskað að umboðsmanni yrðu afhent afrit allra gagna sem vörðuðu samningaumleitanir um mögulegar lyktir málsins á milli fulltrúa sveitarfélagsins og yðar. Svarbréf sveitarfélagsins, undirritað af bæjarlögmanni, og umbeðin gögn bárust 20. mars sl.

Í svarinu kemur fram að viðræður hafi staðið yfir milli A og fulltrúa sveitarfélagsins, með nokkrum hléum, frá því að framkvæmdir við húsið voru stöðvaðar í lok árs 2019. Viðræðurnar hafi þó sætt þeim takmörkunum sem skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar setja sveitarfélaginu. Jafnframt hafi þær verið háðar þeim fyrirvara að afla yrði samþykkis til þess bærra aðila innan sveitarfélagsins eftir lögboðna málsmeðferð. Verður ráðið að það hafi fyrst verið á fundi bæjarráðs 12. janúar sl., að A og lögmanni hans viðstöddum, sem bæjarlögmaður hafi farið yfir tillögurnar að umræddu samkomulagi. Í fundargerð hafi verið bókað að bæjarráð fæli bæjarlögmanni að vinna áfram að málinu.

Með vísan til framangreinds er þess óskað, sbr. 5. og 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsi afstöðu sinni til þeirra samningsviðræðna sem starfsfólk sveitarfélagsins hefur átt í við A og aðra þá sem hafa komið fram fyrir hans hönd um lyktir málsins, þ.m.t. tillagna bæjarlögmannsins frá 12. janúar sl. Þess er sérstaklega óskað að bæjarstjórnin láti umboðsmanni í té upplýsingar og skýringar varðandi eftirfarandi atriði:  

  1. Þess er óskað að bæjarstjórn skýri nánar heimildir bæjarlögmanns til að ganga til samningsviðræðna við A um lyktir málsins og þá í ljósi þess að samhliða þeim viðræðum var til meðferðar hjá sveitarfélaginu stjórnsýslumál sem laut að hugsanlegri niðurfellingu leyfis til byggingar hússins.  
  1. Þess er óskað að fram komi hvort og þá hvernig sveitarfélagið taldi það samrýmast lögum að leiða málið til lykta með gerð samkomulags með þeim hætti sem fyrrgreind tillaga bæjarlögmanns gerði ráð fyrir. Er þá sérstaklega hafður í huga sá þáttur tillögunnar sem fól í sér að A afsalaði sér rétti til að hafa uppi bótakröfu fyrir dómstólum vegna stöðvunar byggingarframkvæmda.

Þess er óskað að svör berist umboðsmanni eigi síðar en 18. maí nk.