Jafnréttismál. Styrkveitingar. Jafnræðisreglur.

(Mál nr. 12074/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun félags- og vinnumarkaðsráðuneytis að synja samtökum um styrk.  

Í ljósi þess hvernig erindi samtakanna var sett fram sá umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þann farveg sem ráðuneytið lagði styrkbeiðnina í, þ.e. á grundvelli fjárlagaliðsins „ráðstöfunarfé ráðherra“. Ekki varð betur séð en heildstætt mat hefði verið lagt á beiðnina og byggt hefði verið á málefnalegum sjónarmiðum og því ekki forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun ráðuneytisins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. apríl 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 27. febrúar sl. yfir ákvörðun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins 4. maí 2022 þess efnis að synja beiðni [samtakanna X] um styrk. Í kvörtuninni er því haldið fram  að félaginu hafi með synjuninni verið mismunað þar sem samtökin, sem veiti þjónustu við karlmenn sem þolendur ofbeldis, hljóti ekki styrki af hálfu ríkisins á meðan hið gagnstæða eigi við um sambærileg samtök fyrir konur.

Gögn málsins bárust frá ráðuneytinu 23. mars sl. samkvæmt beiðni þar um, ásamt upplýsingum um hvernig umsókn félagsins var metin og hvaða sjónarmiðum var fylgt við afgreiðslu hennar.

  

II

Í svörum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins 23. mars sl. kom fram að ráðuneytið veiti árlega styrki af safnliðum fjárlaga til verkefna og starfsemi sem heyri undir málefnasvið sitt. Styrkirnir séu auglýstir í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og á vefsíðu ráðuneytisins. Um þá gildi reglur nr. 1133/2022, um úthlutun styrkja sem félags- og vinnumarkaðsráðherra veiti samkvæmt safnliðum fjárlaga hverju sinni. Samtök um karlaathvarf hafi hins vegar ekki sent inn umsókn um styrk af safnliðum fjárlaga heldur hafi þau með erindi 25. apríl 2021 óskað eftir fjárstuðningi frá ráðuneytinu. 

Af framangreindum svörum ráðuneytisins er ljóst að samtökin sóttu ekki um styrk í kjölfar auglýsingar og fór því ekki um meðferð umsóknar þeirra eftir reglum þar að lútandi eða eftir atvikum öðrum reglum sem gilda um úthlutun styrkja samkvæmt 42. gr. laga nr. 125/2015, um opinber fjármál. Eru því ekki efni til að fjalla frekar um hvort gætt hafi verið jafnræðis gagnvart X við úthlutun slíkra styrkja.

  

III

Af svörum ráðuneytisins er ljóst að það afgreiddi erindi samtakanna sem beiðni um styrkveitingu af þeim lið fjárlaga sem kallaður er „ráðstöfunarfé ráðherra“ og ætlað er til ráðstöfunar samkvæmt nánari ákvörðun hans. Í ljósi þess hvernig erindi samtakanna til ráðuneytisins var fram sett sé ég ekki ástæðu til að gera athugasemd við að ráðuneytið hafi lagt beiðnina í þennan farveg.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Ég legg áherslu á að við það eftirlit sem umboðsmaður hefur með höndum er hann ekki í sömu stöðu og stjórnvaldið sem tekur ákvörðun um veitingu styrks.

Í lögum er ekki til að dreifa sérstökum reglum um hvernig ráðherra beri að standa að úthlutun á fyrrnefndum grundvelli, s.s. um þá  málsmeðferð  sem viðhafa ber eða efnisleg skilyrði fyrir fjárstuðningi. Þrátt fyrir það er ráðherra við ákvörðunartökuna engu að síður bundinn við almennar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins um málsmeðferð og efnislega niðurstöðu. Þurfa ákvarðanir hans því að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og vera í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Þá hefur verið gengið út frá því að ráðstöfunarfé ráðherra skuli varið innan málefnasviðs viðkomandi ráðherra. Þegar ekki er bundið í lög eða stjórnvaldsfyrirmæli á hvaða sjónarmiðum ákvörðun um styrkveitingu skuli byggð, svo sem hér háttar til, verður að leggja til grundvallar að ráðherra hafi töluvert svigrúm við mat á þeim sjónarmiðum sem hann leggur til grundvallar ákvörðun sinni um til hvaða verkefna skuli verja fénu og innbyrðis vægi þeirra.

Í skýringum ráðuneytisins kom fram að við yfirferð á erindi samtakanna hefði þótt óljóst með hvaða hætti þau styddu beint við karlkyns þolendur ofbeldis eða hvernig þau hygðust verja fjárframlaginu þeim til stuðnings. Fjallað hafi verið um tiltekin verkefni sem samtökin teldu nauðsynleg þegar kæmi að málaflokknum en ekkert hefði verið sagt til um hvort þau myndu standa fyrir þeim verkefnum eða með hvaða hætti. Einungis hafi verið tekið fram að eitt af verkefnum samtakanna væri að vekja athygli á röngum staðalímyndum af karlmönnum og gagnrýna kynjahalla í umræðunni svo og það andlega ofbeldi sem viðgangist gegn karlmönnum í fjölmiðlum. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram hafi komið í erindinu hafi ekki verið talið unnt að verða við beiðni samtakanna um styrk að svo stöddu. Með þeirri synjun hafi þó ekki verið lagt mat á starfsemi samtakanna eða mikilvægi hennar fyrir málaflokkinn, heldur berist ráðherra og ráðuneytinu fjöldi styrkbeiðna árlega og ekki sé unnt að verða við þeim öllum.

Samkvæmt framangreindu fæ ég ekki betur séð en að ráðuneytið hafi lagt heildstætt mat á beiðni samtakanna um fjárstuðning og í því efni m.a. litið til takmarkaðs fjármagns til ráðstöfunar. Ég tek fram að ég tel að þetta sjónarmið og önnur sem ráðuneytið lagði til grundvallar mati sínu hafi verið málefnaleg. Þegar litið er til framangreindra skýringa ráðuneytisins, gagna málsins og þess svigrúms sem ráðherra hefur við úthlutun af ráðstöfunarfé sínu tel ég mig þar af leiðandi ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun ráðuneytisins. Getur það ekki haggað þeirri niðurstöðu þótt ég telji að það hefði verið í betra samræmi við leiðbeiningarskyldu ráðuneytisins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vekja athygli samtakanna á að tilteknir þættir varðandi umsóknina þættu óljósir í því skyni að þau gætu veitt frekari upplýsingar til stuðnings henni.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.