Tafir á afgreiðslu máls hjá stjórnvaldi.

(Mál nr. 12125/2023)

Kvartað var yfir því að Þingeyjarsveit hefði ekki brugðist við erindum.  

Sveitarfélagið greindi umboðsmanni frá því að það hefði talið að málinu væri lokið en af kvörtuninni væri ljóst að hlutaðeigandi litu ekki svo á. Þeim yrði því sent sérstakt svarbréf. Þar með var ekki tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. apríl 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 18. janúar sl., fyrir hönd landeigenda X ehf., yfir því að Þingeyjarsveit hafi enn ekki brugðist við erindum félagsins sem lúta að rekstri [...]

Samkvæmt kvörtuninni munu landeigendurnir upphaflega hafa sent sveitarfélaginu erindi vegna málsins 22. júní 2020. Í kjölfarið hafi borist svör frá þáverandi sveitarstjóra með bréfum 24. ágúst 2021 og 3. nóvember sama ár. Af kvörtuninni var ljóst að landeigendurnir teldu viðbrögð sveitarfélagsins ófullnægjandi og ítrekuðu þeir mótmæli sín og athugasemdir með bréfi 5. júlí 2022 án þess að frekari viðbrögð sveitarfélagsins bærust.

Af þessu tilefni var Þingeyjarsveit ritað bréf 4. apríl sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort sveitarfélagið hefði erindi landeigendanna til meðferðar og veitti eftir atvikum upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra.

Svar Þingeyjarsveitar barst 28. apríl sl. en þar kemur m.a. fram að það taki undir atvikalýsingu sem fram komi í bréfi umboðsmanns en taki fram að það hafi litið svo á að ekki væri þörf á frekari viðbrögðum við erindi landeigendanna eftir fund sem haldinn var 15. desember 2022. Þá segir í niðurlagi bréfsins að af kvörtun landeigendanna til umboðsmanns sé ljóst að þeir líti svo á að þeir hafi enn ekki fengið svör við erindi sínu 5. júlí 2022. Því muni sveitarfélagið bregðast við og senda þeim sérstakt svarbréf eigi síðar en innan fimm vikna.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að skorti á viðbrögðum sveitarfélagsins við erindum landeigendanna og nú liggur fyrir að sveitarfélagið muni bregðast við þeim innan fimm vikna tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að standist áform sveitarfélagsins ekki geta umbjóðendur yðar, eða eftir atvikum þér fyrir þeirra hönd, leitað til mín á ný með sérstaka kvörtun af því tilefni.