Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Útlendingar. Ríkisborgararéttur.

(Mál nr. 12130/2023)

Kvartað var yfir því að Útlendingastofnun hefði ekki afgreitt umsókn um ríkisborgararétt sem hefði verið lögð fram árið 2016.

Í ljós kom að umsóknin hafði verið dregin til baka árið 2019 var ekki ástæða til að aðhafast.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 31. mars sl. yfir því að Útlendingastofnun hafi enn ekki afgreitt umsókn yðar um íslenskan ríkisborgararétt sem þér lögðuð fram snemma árs 2016. 

Í tilefni af kvörtun yðar var Útlendingastofnun ritað bréf 11. apríl sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort umsókn yðar um ríkisborgararétt hefði borist stofnuninni og eftir atvikum hvað liði meðferð og afgreiðslu hennar.

Svar Útlendingastofnunar barst 28. apríl sl. en þar kemur fram að þér skiluðuð inn umsókn um ríkisborgararétt 9. maí 2018. Í kjölfarið mun yður í tvígang hafa verð send bréf af hálfu stofnunarinnar vegna umsóknarinnar, 19. janúar 2019 og 19. febrúar sama ár. Með tölvupósti 17. apríl 2019 tilkynnti umboðsmaður yðar stofnuninni að þér hygðust draga umsókn yðar um ríkisborgararétt til baka. Af þeim sökum hafi vinnslu stofnunarinnar verið hætt og yður tilkynnt um þau málalok með bréfi 29. maí 2019.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu framangreindrar umsóknar og í ljósi upplýsinga um téðar málalyktir í kjölfar þess að þér dróguð umsókn yðar til baka tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Ég vek þó athygli yðar á þeim möguleika að leggja fram nýja umsókn um íslenskan ríkisborgararétt hjá Útlendingastofnun teljið þér tilefni til.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.