Þinglýsingar. Fjöleignarhús.

(Mál nr. 12152/2023)

Kvartað var yfir framgöngu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðisins í tengslum við þinglýsingu á kaupsamningi á eignarhluta sem viðkomandi var ekki eigandi að en í fjölbýlishúsi þar sem hann átti íbúð og bjó í.  

Þar sem kvörtunin laut í grunnin að því sama og fyrri kvörtun frá viðkomandi sem lokið var í upphafi árs ítrekaði umboðsmaður niðurstöðu sína síðan þá.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 18. apríl sl. sem lýtur að framgöngu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við þinglýsingu embættisins á kaupsamningi á eignarhluta, sem þér eruð ekki eigandi að, í fjölbýlishúsinu að [...] þar sem þér eigið íbúð og búið.

Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið að sýslumanni hafi verið óheimilt að þinglýsa kaupsamningnum fyrr en gerð hefði verið ný eignaskiptayfirlýsing fyrir fjölbýlishúsið. Kvörtuninni fylgdi afrit af bréfi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 23. janúar sl. til yðar. Í bréfinu segir að leiðrétt hafi verið færsla í þinglýsingabók þannig að færð hafi verið inn athugasemd við þinglýsingu tilgreinds kaupsamnings þess efnis að afsali vegna téðrar eignar verði ekki þinglýst fyrr en fullnægjandi eignaskiptayfirlýsingu hafi verið þinglýst.

Af kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að hún lúti í grunnin að sömu atvikum og fyrri kvörtun yðar til umboðsmanns sem hlaut númerið 11991/2023 í málaskrá embættis míns sem lokið var með bréfi 11. janúar sl. Þar var yður bent á að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 megi bera úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu undir héraðsdómara með nánar tilgreindum hætti. Er og vakin athygli á þessari heimild í niðurlagi ofangreinds bréfs sýslumanns til yðar 23. janúar sl.

Ástæða þess að ofangreind ákvæði þinglýsingalaga eru rakin er sú að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til þess að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Af þessum sökum falla kvartanir, sem lúta að ágreiningi um þinglýsingar, almennt utan starfssviðs umboðsmanns og eru því að jafnaði ekki skilyrði að lögum fyrir umboðsmann til að fjalla um slík mál. Í ljósi framangreinds fæ ég ekki séð að í máli yðar liggi fyrir ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi af hálfu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem falla undir starfssvið mitt. Brestur því lagaskilyrði til þess að ég geti fjallað frekar um kvörtun yðar.

Með vísan til framangreinds og þess læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.