Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12154/2023)

Kvartað var yfir því að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefði hvorki brugðist við kærum né svarað erindum um afdrif þeirra.  

Í ljós kom að fyrri kæran var í viðeigandi farvegi og svo skammt var um liðið frá því erindi vegna þeirrar seinni var sent til lögreglustjórans að umboðsmaður taldi ekki tímabært að aðhafast vegna þess.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. apríl sl. yfir því að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi hvorki brugðist við kærum yðar sem þér lögðuð fram annars vegar á haustmánuðum 2022 og hins vegar í aprílmánuði sl., né svarað erindum yðar um afdrif þeirra.

Í kjölfar kvörtunar yðar hafði starfsmaður umboðsmanns samband við yður símleiðis 21. apríl sl. Í því símtali tjáðuð þér starfsmanninum að þér hefðuð ekki fengið svör við erindum yðar um afdrif kærunnar sem lögð var fram á haustmánuðum 2022. Þá hefði enginn á vegum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu haft samband við yður þrátt fyrir að þér hefðuð bókað tíma í kærumóttöku í upphafi aprílmánaðar og ítrekað haft samband við embættið símleiðis en ætíð verið tjáð að í tölvukerfi lögreglunnar fyndist ekki ósk yðar um að fá að mæta í kærumóttöku lögreglunnar. Að endingu voruð þér beðnar um að senda umboðsmanni afrit af samskiptum yðar við lögregluna.

Umbeðin gögn bárust með tölvubréfi 24. apríl sl. Á meðal þeirra var tölvubréf lögreglunnar til yðar dags. sama dag þar sem þér voruð upplýstar um að fyrri kæra yðar væri til meðferðar hjá ákærusviði embættisins og að þér yrðuð upplýstar þegar niðurstaða í því lægi fyrir. Í ljósi þess að þér hafið nú verið upplýstar um að fyrri kæra yðar hafi nýlega verið send ákærusviði þar sem unnið sé að málinu tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af þeim hluta kvörtunar yðar er snýr að þeirri kæru.

Þá fæ ég ekki betur séð en að nýjustu samskipti yðar við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna síðari kæru yðar hafi verið 24. apríl sl. þegar þér senduð embættinu tölvubréf þar sem þér óskið upplýsinga um hvenær þér megið mæta á lögreglustöð í þeim tilgangi að leggja fram kæru og viðeigandi gögn. Af því tilefni skal bent á að þegar kvartað er yfir töfum í stjórnsýslunni hefur umboðsmaður almennt gengið eftir því að viðkomandi, sem ber fram kvörtun, leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvalds með ítrekun telji hann drátt vera orðinn á svörum. Með þeim hætti er stjórnvaldinu gefið færi á því að bregðast við ef rétt reynist að erindi hans hafi ekki verið afgreitt á eðlilegum hraða og þá getur stjórnvaldið eftir atvikum veitt upplýsingar um eðlilegan afgreiðslutíma og hvenær vænta megi afgreiðslu erindisins. Í ljósi þess hversu skammur tími er frá því þér beinduð erindi til lögreglunnar vegna síðari kæru yðar er ekki heldur tilefni til frekari athugunar á kvörtun yðar að þessu leyti.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.