Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12157/2023)

Óskað var eftir því að umboðsmaður kæmi því til leiðar að dómsmálaráðherra svaraði erindum sem send höfðu verið á tölvupóstfang hans sem þingmanns. Erindin höfðu verið ítrekuð með tölvupóstum til dómsmálaráðuneytisins.  

Umboðsmaður taldi ekki slíkan drátt hafa orðið á svörum ráðuneytisins að ástæða væri til að aðhafast.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. apríl 2023.

  

  

Vísað er til erindis yðar frá 22. apríl sl. þar sem þér óskið eftir því að umboðsmaður Alþingis komi því til leiðar að dómsmálaráðherra svari erindum yðar til hans frá 17. desember og 17. janúar sl. Erindin voru send á tölvupóstfang hans sem alþingismanns. Með tölvubréfum til dómsmálaráðuneytisins 23. mars og 13. apríl sl. voru téð erindi ítrekuð. Lutu erindin að því að ráðherra myndi beita sér fyrir því að lagt yrði bann við betli á almannafæri.

Þótt erindin hafi upphaflega verið send á tölvupóstfang ráðherra á vegum þingsins voru þau jafnframt ítrekuð á almennt netfang dómsmálaráðuneytisins. Af þessu tilefni skal þess getið að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni. Í ljósi þess að þér beinduð fyrst ítrekun til ráðuneytisins 23. mars sl. tel ég að enn hafi ekki orðið slíkur dráttur á svörum ráðuneytisins að tilefni sé til að ég taki erindi yðar til frekari athugunar að svo stöddu. Ég tek þó fram, að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin, að þér getið leitað til mín á nýjan leik verði óhóflegur dráttur á meðferð erindisins.

Þar sem ég ræð af upphaflegu erindi yðar til ráðherra að í því felist m.a. bón um að ráðherra beiti sér með ákveðnum hætti fyrir lagasetningu á vettvangi Alþingis tel einnig rétt að taka fram að þegar tekin er afstaða til skyldu ráðherra til að svara erindum sem beint er til þeirra verður að greina á milli þess að þeir eru annars vegar æðstu hand­hafar framkvæmdarvalds á sviði sinna ráðuneyta og teljast sem slíkir til stjórnsýslu ríkisins og hins vegar, einkum ef þeir eru jafnframt alþingismenn, koma þeir að stjórnmálastörfum bæði innan Alþingis og utan. Það er því iðulega svo að til ráðherra leitar fjöldi fólks með mál sem það vill vekja athygli þeirra á sem stjórnmálamanna og hvetja þá t.d. til þess að beita sér fyrir breytingum á löggjöf eða öðrum reglum. Lögbundið hlutverk umboðs­manns Alþingis sam­kvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt þessu fjallar umboðsmaður t.d. ekki um störf Alþingis, sbr. a-liðar 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Það fellur því almennt utan við hlutverk mitt að lögum að taka afstöðu til athafna, eða eftir atvikum athafna­leysis, ráðherra sem einungis verða talin þáttur eða liður í stjórn­mála­starfi hans. Þannig hefur umboðsmaður t.d. ekki talið að það falli undir hlutverk sitt að fjalla um svör við skriflegum erindum sem beint er til ráð­herra vegna stjórnmálastarfs hans og sem ekki er liður í úrlausn til­tekins stjórnsýslumáls.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.