Persónuréttindi. Hjúkrunarheimili. Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit.

(Mál nr. 12150/2023)

Kvartað var yfir almennu reykingabanni á hjúkrunar- og dvalarheimili og framkomu starfsfólks.

Í ljósi eignarhalds viðkomandi sveitarfélags á heimilinu benti umboðsmaður á að leita eftir afstöðu sveitarstjórnar til athugasemdanna og að heilbrigðiseftirlit lyki eftirliti sínu áður en hann gæti tekið kvörtunina til umfjöllunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 3. maí 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 17. apríl sl. þar sem þér kvartið yfir almennu reykingabanni hjúkrunar- og dvalarheimilisins X. Nánar tiltekið gerið þér athugasemdir við að reykingabannið taki til íbúðarherbergja vistmanna. Þá kvartið þér jafnframt yfir framkomu starfsfólks heimilisins í garð yðar og annars heimilisfólks.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við það fjallar umboðsmaður jafnframt almennt ekki um erindi sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þessa að framangreint er rakið er sú að hjúkrunar- og dvalarheimilið X er í eigu [sveitarfélagsins Y], sem til að mynda skipar stjórn stofnunarinnar, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Þá fylgdu kvörtun yðar jafnframt tölvupóstssamskipti yðar við Heilbrigðiseftirlit Z vegna reykingabanns heimilisins, en í tölvubréfi starfsmanns þess 12. apríl sl. kemur fram að hann hyggist koma í reglubundið eftirlit á næstu vikum þar sem farið verði yfir þetta mál með hjúkrunarforstjóra heimilisins.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og í ljósi eignarhalds Y á hjúkrunar- og dvalarheimilinu tel ég rétt að þér freistið þess að fá afstöðu sveitarstjórnar Y til athugasemda yðar og að áðurnefndu eftirliti Heilbrigðiseftirlits Z ljúki áður en þér leitið til umboðsmanns Alþingis með kvörtun. Kjósið þér að fylgja athugasemdum yðar frekar eftir og teljið þér yður enn rangsleitni beitta, að fenginni afstöðu framangreindra aðila, getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki uppfyllt skilyrði til að fjalla frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.