Málefni fatlaðs fólks. Styrkveitingar. COVID-19.

(Mál nr. 12116/2023)

Kvartað var yfir því að Reykjavíkurborg hefði ekki veitt viðkomandi styrk  í tengslum við Covid-19 sem borgin hafði fengið til úthlutunar frá félags- og barnamálaráðuneytinu.  

Fénu hafði verið ráðstafað sumrin 2020 og 2021 og verið útdeilt til afmarkaðs hóps, þ.e. þeirra sem bjuggu í húsnæði fyrir fatlað fólk á vegum Reykjavíkur­borgar, án þess að þeir þyrftu sérstaklega að sækja um það. Í ljósi þess sem lá fyrir um tilurð fjárframlagsins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við svör Reykjavíkurborgar þar sem beiðni um styrk var hafnað. Þá taldi umboðsmaður ekki skilyrði til að fjalla um athugasemdir er lutu að því hvernig Reykjavíkurborg ákvað að ráðstafa styrknum til einstaklinga og þau viðmið sem lögð voru til grundvallar, m.a. um búsetu, þar sem meira en ár var liðið frá úthlunum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 3. maí 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 23. mars sl., fyrir hönd sonar yðar A, yfir því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi ekki veitt honum styrk í tengslum við Covid-19 sem borgin fékk til úthlutunar frá félags- og barnamálaráðuneytinu.

Samkvæmt kvörtun yðar sóttuð þér, með tölvubréfi 2. mars sl., um svokallaðan Covid-styrk fyrir son yðar, sambærilegan þeim sem fötluðu fólki var veittur í faraldrinum. Í svari Reykjavíkurborgar 6. mars sl. kom fram að skrifstofa málefna fatlaðs fólks á velferðarsviði Reykjavíkurborgar hefði fengið úthlutað fjármagni frá félags- og barnamálaráðherra sem sérstaklega var ætlað til að koma til móts við þann hóp sem bjó í húsnæði fyrir fatlað fólk á vegum Reykjavíkurborgar og var fjármagninu útdeilt án umsókna. Verkefninu væri lokið og því ekki unnt að óska eftir þátttöku í því.

Í tilefni af kvörtun yðar var velferðarsviði Reykjavíkurborgarritað bréf 3. apríl sl. þar sem óskað var eftir því að umboðsmanni yrðu veittar nánari upplýsingar vegna málsins. Í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar 27. apríl sl. kemur m.a. fram að 22. júní 2020 hafi félagsmálaráðuneytið auglýst eftir umsóknum sveitarfélaga um fjár­framlag vegna sérstakra verkefna í félagsstarfi fyrir fullorðið fatlað fólk. Í samráði við Landsamtökin Þroskahjálp hafi verið álitið að takmarkanir vegna Covid-19 kæmu verst niður á íbúum á heimilum fyrir fatlað fólk sem rekin væru af Reykjavíkurborg. Þar sem hólfaskipta hafi þurft starfsmannahópum hafi möguleikar þeirra einstaklinga sem þurftu á „stuðningi við félagsskap“ takmarkast svo um munaði auk þess sem grípa hafi þurft til tímabundins heimsóknar­banns á flestum heimilanna. Þá var tekið fram að á þeim tíma sem verkefnið átti sér stað hafi A verið búsettur á heimili yðar en átt gilda umsókn á biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk. Þar sem hann hafi ekki búið í húsnæði fyrir fatlað fólk eða húsnæði með stuðningi á vegum Reykjavíkurborgar á þeim tíma sem um ræðir hafi hann ekki fallið að þeim skilyrðum sem tilgreind voru í umsóknum velferðarsviðs Reykjavíkur­borgar, þegar sótt var um fjárframlag frá félagsmála­ráðuneytinu, og því hafi hann ekki fengið framangreindan styrk.

Samkvæmt framangreindu verður ekki annað ráðið en að téðu fjár­­magni hafi verið ráðstafað sumrin 2020 og 2021 og verið útdeilt til afmarkaðs hóps, þ.e. þeirra sem bjuggu í húsnæði fyrir fatlað fólk á vegum Reykjavíkur­borgar, án þess að þeir þyrftu sérstaklega að sækja um það eða öðrum sem ekki tilheyrðum téðum hópi gæfist kostur á að sækja um úthlutun. Í ljósi þess sem að framan er rakið um tilurð umræddra fjárframlaga tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við svör Reykjavíkurborgar til yðar 6. mars sl. þar sem beiðni yðar um téðan styrk er hafnað.

Vegna athugasemda yðar er lúta að því hvernig Reykjavíkurborg ákvað að ráðstafa umræddum styrk til einstaklinga og þau viðmið sem borgin lagði til grundvallar, m.a. um búsetu, tek ég fram samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, skal bera kvörtun fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Þar sem téð úthlutun Reykjavíkurborgar fór fram árin 2020 og 2021 og þar sem kvörtun yðar barst mér 23. mars sl. er framangreindu skilyrði ekki fullnægt.

Með vísan til alls framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.