Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12018/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds.  

Út frá gögnum málsins taldi umboðsmaður ekki forsendur til að fullyrða að staðsetning umferðarmerkis hefði verið önnur en borgin hefði greint frá. Þótt lítilsháttar frávik kynni að hafa verið á hæð bannmerkis væri ekki tilefni til að gera athugasemd við álagningu gjaldsins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 4. maí 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. janúar sl., fyrir hönd A, yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds 7. janúar sl. vegna bifreiðarinnar [...] sem lagt var við Tryggvagötu. Í kvörtun yðar byggið þér einkum á því að bannmerkið B24, sem álagningin grundvallaðist á og gefur til kynna bann við stöðvun eða lagningu ökutækis, hafi verið í of mikilli hæð frá götu.

Í tilefni af kvörtun yðar voru umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og Bílastæðasjóði rituð bréf 6. febrúar og 9. mars sl. þar sem óskað var eftir afriti af öllum gögnum málsins ásamt nánari upplýsingum og skýringum á þar tilgreindum atriðum. Svör og gögn málsins bárust með tölvubréfum 20. febrúar og 14. apríl sl. Með bréfi 17. apríl sl. var yður gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör Reykjavíkurborgar. Athugasemdir yðar bárust 21. sama mánaðar.

Samkvæmt 109. gr. umferðarlaga má leggja gjald á m.a. vegna brota á banni við stöðvun eða lagningu ökutækis sem gefið er til kynna með                    umferðarmerki, sbr. c-lið. Í 4. gr. reglugerðar nr. 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra, er fjallað um bannmerki en þar segir m.a. að þeim sé ætlað að banna eða mæla fyrir um umferð. Þá er í 5. gr. að finna upptalningu á bannmerkjum, m.a. merkinu B24.11 sem gefur til kynna bann við að stöðva ökutæki. Um staðsetningu umferðarmerkja er fjallað í 19. og 20. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 19. gr. segir m.a. að umferðarmerki skuli sett þannig að þau sjáist greinilega, að jafnaði hægra megin við veg miðað við akstursstefnu. Í 4. mgr. sömu greinar segir að bannmerki beri að setja sem næst þeim stað sem merkið eigi við. Samkvæmt 20. gr. reglugerðarinnar skal festa umferðarmerki á jarðfasta stöng í hæfilegri fjarlægð frá vegarbrún. Hæð mæld frá vegi að merki skal að jafnaði vera nálægt 1,5 m, en allt að 2,2 metrum í þéttbýli eða annars staðar þar sem aðstæður eru þannig að merki geti valdið hættu fyrir gangandi vegfarendur.

Í skýringum borgarinnar segir m.a. að téð bannmerki við Tryggvagötu sé í 2,62 metra hæð frá jörðu en undir því sé undirmerki um vörulosun í 2,28 metra hæð frá jörðu. Á bls. 7 í handbók Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar um umferðarmerki frá mars 2013 komi fram að ef undirmerki sé bætt við aðalmerki miðist lágmarkshæð við neðri brún þess í stað aðalmerkisins. Aftur á móti telji Reykjavíkurborg að bæði hæð og staðsetning umferðarmerkisins sé í samræmi við reglugerð nr. 289/1995 þrátt fyrir 8 cm frávik undirmerkisins frá framangreindri reglu. Þá kemur jafnframt fram í skýringum borgarinnar að téð umferðargata sé vistgata og merkt sem slík. Óheimilt sé að leggja í vistgötum nema í sérmerkt bílastæði, sbr. 9. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

Svo sem áður greinir hefur athugun mín lotið að því hvort hæð téðs bannmerkis hafi verið í samræmi við gildandi reglur þar að lútandi en af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að ágreiningslaust sé að bifreið yðar hafi verið lagt í námunda við það. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, einkum ljósmyndir af vettvangi og skýringar Reykjavíkurborgar á staðsetningu og hæð merkisins, tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að staðsetning merkisins hafi verið önnur en fram kemur í svörum borgarinnar. Þótt um lítilsháttar frávik kunni að hafa verið á hæð bannmerkisins frá umræddum reglum fæ ég ekki betur séð en að það hafi verið greinilegt. Eins og málið liggur fyrir í ljósi alls þessa hef ég því ekki forsendur til þess að slá því föstu að það mat sem lá til grundvallar afstöðu Bílastæðasjóðs hafi verið rangt þannig að efni séu til að gera athugasemdir við álagningu gjaldsins af hálfu sjóðsins.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.