Sveitarfélög. Samningar.

(Mál nr. 12041/2023)

Kvartað var yfir því að ekki hefði fengist kvittun frá Árborg fyrir greiðslu gatnagerðargjalda  og að lóðin væri enn skráð í eigu sveitarfélagsins.  

Þar sem greiðslukvittun barst þurfti sá þáttur ekki frekari skoðunar við. Þá taldi umboðsmaður að Árborg hefði farið að úthlutunarskilmálum en benti viðkomandi á að ef hann teldi sig ekki bundinn af þeim  gæti sá ágreiningur átt undir dómstóla.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. maí 2023. 

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar er lýtur annars vegar að því að sveitarfélagið Árborg hafi ekki gefið út kvittun til yðar fyrir greiðslu gatnagerðargjalda vegna lóðar sem yður var úthlutað við [...] og hins vegar að því að lóðin „sé enn skráð í eigu Árborgar“, sem sé þess valdandi að þér getið ekki selt hana. Óskið þér eftir áliti umboðsmanns á því hvort sveitarfélaginu beri að færa lóðina á nafn félags í yðar eigu, X ehf.

Í símtali yðar við starfsmann umboðsmanns 24. mars sl. upplýstuð þér um að yður hefðuð nú borist fullnægjandi greiðslukvittun.

  

II

1

Í tilefni af kvörtun yðar var sveitarfélaginu Árborg ritað bréf 27. mars sl. þar sem þess var óskað að sveitarfélagið veitti umboðsmanni nánari upplýsingar um stöðu málsins og afhenti honum afrit af úthlutunarbréfi lóðarinnar, úthlutunarskilmálum sveitarfélagsins og öðrum gögnum sem varpað gætu ljósi á málið.

Svar Árborgar barst með bréfi 5. maí sl. en þar kemur m.a. fram að þótt X ehf. hafi greitt álögð gatnagerðargjöld og félagið sé tilgreint sem umsækjandi um byggingarleyfi á lóðinni hafi henni í upphafi engu að síður verið úthlutað til yðar enda hafið þér sótt um lóðina samkvæmt umsóknarformi og skilað inn öllum gögnum varðandi umsækjanda um yður persónulega. Af því leiði að þér séuð skráður lóðarhafi þar til skilyrði úthlutunarskilmála séu uppfyllt og unnt sé að gefa út lóðarleigusamning. Þá fyrst geti orðið aðilaskipti að lóðinni. Slík aðilaskipti geti fyrst orðið eftir að sökkull sé frágenginn á lóðinni, sbr. 14. gr. reglna um úthlutun lóða í sveitarfélaginu Árborg frá 11. desember 2019, sem gildi um úthlutun lóðarinnar að [...]. Sömu skilyrði séu í 15. gr. núgildandi reglna sveitarfélagsins.

Í bréfinu er jafnframt tekið fram að samkvæmt úthlutunarbréfi og úthlutunarskilmálum beri lóðarhafa innan átta mánaða frá því að lóð var tilbúin undir byggingarframkvæmdir að hefja framkvæmdir á lóðinni með því að steypa sökkla á lóðinni, sbr. a-lið 10. gr. í úthlutunarskilmálum sveitarfélagsins. Þá er jafnframt tekið fram að samkvæmt úthlutunarskilmálum falli úthlutun úr gildi ef lóðarhafi hefji ekki framkvæmdir innan tilskilins tíma. Þér hafið ekki lokið við uppsteypu sökkla eða óskað eftir frekari fresti en sveitarfélagið hafi þrátt fyrir ákvæði úthlutunarskilmála enn ekki beitt heimild sinni til að afturkalla lóðarúthlutunina.

  

2

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Um ráðstöfun sveitarfélaga á lóðum í sinni eigu með leigu eða sölu gilda ekki sérstök lög og er þar af leiðandi um að ræða ólögbundið verkefni sveitarfélaga. Þannig hafa ekki verið settar almennar reglur um hvernig sveitarfélag skuli standa að úthlutun lóða. Í framkvæmd hefur þó verið gengið út frá því að um þann þátt er snýr að sjálfri úthlutun byggingarlóða gildi reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 svo og óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins. Hins vegar hefur verið lagt til grundvallar að eftir úthlutun fari leiga eða sala sveitarfélaga á byggingarlóðum fram á einkaréttarlegum grunni, en af því leiðir að um réttindi og skyldur lóðarleigutaka eða kaupanda fer að meginstefnu eftir þeim samningi sem sem hann gerir við sveitarfélag, þeim úthlutunarskilmálum sem hann gengur að og öðru leyti þeim réttarreglum sem gilda um slíka samninga.

Af svörum Árborgar verður ekki annað ráðið en að ástæða þess að ekki hafi verið gefinn út lóðarleigusamningur fyrir [...] sé sú að þér hafið ekki enn uppfyllt nánar greind skilyrði reglna sveitarfélagsins um úthlutun lóða. Þá segir í 14. gr. reglnanna og úthlutunarbréfi að lóðarhafa sé óheimilt að framselja leigurétt sinn fyrr en lóðarleigusamningur hafi verið gerður og honum þinglýst. Að því virtu og eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og þau gögn sem mér hafa borist tel ég ekki líkur á því að frekari athugun af minni hálfu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu sveitarfélagsins að gefa ekki út lóðarleigusamning fyrir lóðina í samræmi við efni kvörtunar yðar. Sé það afstaða yðar að þér séuð ekki bundnir af úthlutunarskilmálum og/eða úthlutunarbréfi sveitarfélagsins tel ég að um sé að ræða atriði sem eigi undir dómstóla og eðlilegra sé að þeir leysi úr, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

  

III

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.