Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Lögreglu- og sakamál..

(Mál nr. 12122/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á erindum.  

Í svari frá lögreglustjóranum kom fram að viðkomandi hefði verið upplýstur um að þau mál sem hann vildi leggja fram kæru vegna væru til meðferðar hjá dómstólum. Jafnframt hefði verið leiðbeint um að hægt væri að leggja fram skriflega kæru. Ekki varð því betur séð en brugðist hefði verið við erindunum og því ekki tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. maí 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 28. mars sl. yfir töfum á afgreiðslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á erindum yðar sem vörðuðu tilraunir yðar til að leggja fram formlega kæru vegna tiltekinna mála.

Í tilefni af kvörtuninni var lögreglustjóranum á höfuðborgar- svæðinu ritað bréf 4. apríl sl. þar sem óskað var upplýsinga um  hvort erindi yðar hefðu borist embættinu og ef svo væri hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra.

Svar lögreglustjórans barst umboðsmanni 9. maí sl. en þar kemur fram að í samtali við yður 6. október 2022 hafið þér verið upplýstir um að mál þau sem þér vilduð leggja fram kæru í væru til meðferðar hjá dómstólum. Engu að síður hafi yður verið leiðbeint um að þér gætuð lagt fram skriflega kæru og að gott væri fyrir yður að hafa lögmann yður til aðstoðar.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og í ljósi þess að ekki verður betur séð en að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi brugðist við erindi yðar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á máli yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.