Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12168/2023)

Kvartað var yfir því að Creditinfo Lánstraust hf og Keldan ehf. haldi úti og selji aðgang að lista yfir fólk í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með vísan til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.  

Þar sem bæði félög teljast einkaréttarlegir aðilar tekur eftirlit umboðsmanns ekki til starfsemi þeirra hvað þetta snerti. Var viðkomandi bent á að leita til Persónuverndar

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. maí 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 2. maí sl. sem þér beinið að Creditinfo Lánstrausti hf. og Keldunni ehf. og lýtur að því að félögin haldi úti og selji aðgang að lista yfir einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með vísan til laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Með kvörtun yðar fylgdu bréf frá téðum félögum þar sem yður og eiginkonu yðar var tilkynnt um fyrirhugaða skráningu yðar á umrædda lista.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af 3. gr. sömu laga leiðir að starfssvið umboðs­manns nær einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hafa opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993, svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir, eða falla undir 3. mgr. 3. gr.

Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er að Creditinfo Lánstraust hf. er hluta­félag sem starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hluta­félög. Þá er Keldan ehf. einkahlutafélag sem starfar á grundvelli laga nr. 138/1994, um einka­hluta­félög. Teljast félögin því einkaréttarlegir aðilar og falla sem slíkir að jafnaði utan starfssviðs umboðsmanns í samræmi við ofangreind ákvæði laga nr. 85/1997. Sú háttsemi sem kvörtun yðar beinist að felur ekki í sér stjórnsýslu í ofangreindum skilningi enda er ekki í henni fólgin beiting opinbers valds sem félaginu hefur verið fengið með lögum eða ákvörðunar­taka á þeim grundvelli. Það fellur því utan starfssviðs míns að fjalla um þá starfsemi félaganna sem kvörtun yðar lýtur að.

Ég bendi yður þó á að ef þér teljið að Creditinfo eða Keldan ehf. hafi brotið gegn réttindum yðar samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, eða sérákvæðum í lögum sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga eigið þér þess kost á að leita til stofnunarinnar með kvörtun, sbr. 2. mgr. 39. gr. þeirra laga. Í þessari ábendingu felst þó engin afstaða til þess álitaefnis. Að fenginni úrlausn Persónuverndar er yður fært að leita til mín á nýjan leik, teljið þér yður rangsleitni beitta með úrlausn stofnunarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég hér með athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.