Menntamál. Framhaldsskólar.

(Mál nr. 12171/2023)

Kvartað var yfir því að nemandi hefði ekki fengið skólavist við tiltekinn framhaldsskóla.

Þar sem málið var enn til meðferðar hjá Menntamálastofnun voru ekki skilyrði til að fjalla um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 10. maí 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 3. maí sl. fyrir hönd sonar yðar, A, yfir því að hann hafi ekki fengið skóla­vist við nánar tilgreinda framhaldsskóla.

Á meðal gagna málsins er bréf Menntamálastofnunar til yðar 24. apríl sl. þar sem fram kemur að umsókn A sé enn í vinnslu og að kapp verði lagt á að veita honum skólavist sem fyrst. Þá var upplýst að ekki væri tryggt að hægt yrði að veita honum skólavist í þeim tveimur skólum sem sótt var um en möguleiki væri á að veitt yrði skólavist í öðrum skóla. Í niðurlagi bréfsins var bent á að samkvæmt reglugerð nr. 230/2012, um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum, væri innritun nemenda á ábyrgð skólameistara, sbr. 7. gr. Jafnframt var yður leiðbeint um heimild til að kæra ákvörðun skólameistara um skólavist til mennta- og barnamálaráðuneytisins svo sem fram kemur í 16. gr. reglugerðarinnar. Þá fylgdi kvörtun yðar ódagsett tölvubréf frá starfsmanni Menntamálastofnunar þar sem m.a. kemur fram að stofnunin hafi til skoðunar ásamt skólunum hvort hægt verði að opna fyrir nýja hópa eða bæta við í núverandi hópa. Niðurstaða þeirrar vinnu sé ekki ljós eins og er.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinni í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra, s.s. umboðsmanns, með kvörtun. Af því leiðir að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Í ljósi þess sem fram kemur í bréfi Menntamálastofnunar til yðar verður ekki annað ráðið en að mál sonar yðar sé enn til meðferðar og því liggi ekki fyrir endanleg ákvörðun um skólavist hans. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu. Fari svo að umsókn sonar yðar um skólavist í nánar tilgreinda skóla verði synjað getið þér kært þá ákvörðun til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til umboðsmanns á ný teljið þér tilefni til þess.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.