Styrkveitingar. Jafnræðisreglur.

(Mál nr. 12101/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins að synja beiðni samtaka um styrki til verkefnis og reksturs félagsins.  

Ekki varð betur séð en ráðuneytið hefði lagt heildstætt mat á beiðnirnar í samræmi við reglur og byggt á málefnalegum sjónarmiðum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. maí 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 19. mars sl. yfir ákvörðunum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins þess efnis að synja beiðnum samtakanna A um styrki til verkefnisins X og reksturs félagsins. Í kvörtuninni er því haldið fram að félaginu hafi með synjununum verið mismunað, þar sem ráðuneytið veiti öðrum samtökum ítrekað styrki í stað þess að veita fleirum tækifæri.

Gögn málanna bárust frá ráðuneytinu 28. apríl sl. samkvæmt beiðni þar um, ásamt upplýsingum um hvernig umsóknir félagsins voru metnar og hvaða sjónarmiðum var fylgt við afgreiðslu þeirra.

  

II

1

Af svörum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins 28. apríl sl. er ljóst að það afgreiddi framangreindar umsóknir samtakanna í málun nr. FRN22100143 og FRN22100144 sem beiðnir um styrkveitingu af safnliðum fjárlaga. Um þá gilda reglur nr. 1133/2022, um úthlutun styrkja sem félags- og vinnumarkaðsráðherra veitir samkvæmt safnliðum fjárlaga hverju sinni. Af gögnum málsins má ráða að báðar umsóknir samtakanna hafi borist í kjölfar auglýsingar 14. október 2022 um úthlutun styrkja til félagasamtaka til verkefna og starfsemi sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins.

Ákvörðun stjórnvalda um veitingu styrkja af opinberu fé er stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ber því að fylgja þeim lögum og almennum grundvallarreglum í stjórnsýslurétti, þar á meðal jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, við undirbúning slíkrar ákvörðunar og mat á umsóknum. Stjórnvöldum ber því að byggja ákvörðun um styrkveitingu á málefnalegum sjónarmiðum og leggja fullnægjandi grundvöll að mati sínu áður en ákvörðun er tekin. Þegar ekki er bundið í lög eða stjórnvaldsfyrirmæli á hvaða sjónarmiðum ákvörðun um styrkveitingu skuli byggð hefur stjórnvald töluvert svigrúm við mat á þeim sjónarmiðum sem það leggur til grundvallar ákvörðun sinni og innbyrðis vægi þeirra.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn-sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Ég legg áherslu á að við það eftirlit sem umboðsmaður hefur með höndum er hann ekki í sömu stöðu og stjórnvaldið sem tekur ákvörðun um veitingu styrks.

  

2

Í skýringum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins kom fram að við yfirferð á báðum umsóknum félagsins hafi starfshópur um úthlutun styrkja vegna verkefna á sviði félagsmála komist að þeirri niðurstöðu að veita samtökunum ekki styrki, þar sem umsóknirnar hefðu ekki uppfyllt þau viðmið sem kveðið væri á um í reglum um úthlutun styrkja sem félags- og vinnumarkaðsráðherra veiti samkvæmt safnliðum fjárlaga hverju sinni. Í umsókn um styrk fyrir verkefnið X hafi uppbygging verkefnisins þannig þótt óljós og markhópur og markmið þess einnig. Kostnaðaráætlun hafi þótt óraunhæf og vandséð hvernig ætti að útfæra verkefnið fyrir þá fjárhæð sem sótt var um, en aðrir styrkir til samtakanna hafi ekki verið tilgreindir í umsókn. Samstarf við aðra aðila hafi verið tilgreint án þess að útskýrt væri fyrir hvað þeir stæðu eða í hverju samstarfið fælist. Undirritaður ársreikningur hafi ekki fylgt umsókninni og ársskýrsla sem fylgdi henni hafi verið dagsett 12. ágúst 2019. Við yfirferð umsóknarinnar hafi starfshópur um úthlutun styrkja notast við matsblað vegna styrkja af safnliðum fjárlaga 2023 og umsókn samtakanna um verkefnið X hafi hlotið 4 stig af 25 mögulegum. Á grundvelli framangreindra upplýsinga hafi starfshópurinn ekki séð ástæðu til að mæla með styrk til samtakanna.

Eins og að framan greinir var niðurstaða ráðuneytisins að umsókn A um verkefnið X uppfyllti ekki þau viðmið sem kveðið er á um í reglum nr. 1133/2022. Fæ ég ekki betur séð en að ráðuneytið hafi lagt heildstætt mat á beiðni samtakanna í samræmi við reglurnar. Þá hef ég heldur ekki forsendur til annars en að líta svo á að þau sjónarmið sem ráðuneytið lagði til grundvallar hafi verið málefnaleg.

Þegar litið er til framangreindra skýringa ráðuneytisins, gagna málsins og þess svigrúms sem ráðherra hefur við úthlutun styrkja af safnliðum fjárlaga tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun hans.

  

3

Í skýringum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins kom fram að við afgreiðslu þess á umsókn samtakanna um rekstrarstyrk hafi þótt óljóst í umsókninni hvað fælist í daglegri starfsemi þeirra. Fjárhagsáætlun hafi verið óljós og ekki gefið skýra mynd af kostnaði við rekstur samtakanna en í reglum um úthlutun styrkja sem félags- og vinnumarkaðsráðherra veiti samkvæmt safnliðum fjárlaga hverju sinni komi fram að umsækjendur um rekstrarstyrk þurfi að geta sýnt fram á fastan rekstrarkostnað s.s. vegna starfsmanna og/eða húsnæðis. Undirritaður ársreikningur hafi ekki fylgt umsókninni og ársskýrsla sem fylgdi henni hafi verið dagsett 12. ágúst 2019. Við yfirferð umsóknarinnar hafi starfshópur um úthlutun styrkja notast við fyrrnefnt matsblað vegna styrkja af safnliðum fjárlaga 2023 og umsókn samtakanna um rekstrarstyrk hlotið 2,5 stig af 25 mögulegum. Á grundvelli framangreindra upplýsinga hafi starfshópurinn ekki séð ástæðu til að mæla með styrk til samtakanna.

Eins og að framan greinir var niðurstaða ráðuneytisins að umsókn samtakanna um rekstrarstyrk uppfyllti ekki þau viðmið sem kveðið er á um í reglum nr. 1133/2022. Fæ ég ekki betur séð en að ráðuneytið hafi lagt heildstætt mat á beiðni samtakanna í samræmi við reglurnar. Hef ég ekki forsendur til annars en að líta svo á að þau sjónarmið sem ráðuneytið lagði til grundvallar hafi verið málefnaleg.

Þegar litið er til framangreindra skýringa ráðuneytisins, gagna málsins og þess svigrúms sem ráðherra hefur við úthlutun styrkja af safnliðum fjárlaga tel ég mig ekki heldur hafa forsendur til að gera athugasemdir við þessa ákvörðun hans.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég hér með athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.