Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Stjórnsýsluviðurlög og þvingunarúrræði.

(Mál nr. 12133/2023)

Kvartað var yfir því að menningar- og viðskiptaráðuneytið hefði ekki afgreitt stjórnsýslukæru.  

Ráðuneytið upplýsti að vegna mikilla anna hefði afgreiðsla málsins dregist úr hófi en því yrði lokið fyrir lok júní. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. maí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 3. apríl sl., fyrir hönd A, yfir því að menningar- og viðskiptaráðuneytið hafi enn ekki afgreitt stjórnsýslukæru hennar frá 13. júlí 2021 vegna ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 29. júní 2021 um álagningu stjórnvaldssektar vegna rekstrarleyfisskyldrar gististarfsemi án tilskilinna leyfa.

Í tilefni af kvörtun yðar var menningar- og viðskiptaráðuneytinu ritað bréf 14. apríl sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu kærunnar. Í svari ráðuneytisins 15. maí sl. kemur fram að vegna mikilla anna hjá ráðuneytinu hafi afgreiðsla málsins dregist úr hófi en ráðuneytið muni ljúka málinu með úrskurði fyrir lok júnímánaðar nk.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu máls og í ljósi  áforma menningar- og viðskiptaráðuneytisins um að ljúka því fyrir lok næsta mánaðar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek að lokum fram að standist áform ráðuneytisins ekki getið þér leitað til mín á ný með kvörtun.