Sifjamál. Lögskilnaður..

(Mál nr. 12144/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og hvernig brugðist hefði verið við kröfu um lögskilnað í kjölfar þess að embættið hefði veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng.  

Þar sem málið hafði ekki verið borið undir dómsmálaráðuneytið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. maí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 12. apríl sl. þar sem þér gerið athugasemdir við málsmeðferð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í máli yðar. Af kvörtuninni verður ráðið að athugasemdirnar lúti að því hvernig sýslumaður brást við kröfu yðar um lögskilnað í kjölfar þess að sama embætti hafði veitt yður leyfi til skilnaðar að borði og sæng.

Í tilefni af kvörtun yðar hafði starfsmaður umboðsmanns samband við yður símleiðis 21. apríl sl. en í því símtali lýstuð þér því að sýslumaður hefði vísað frá kröfu yðar um lögskilnað á grundvelli 39. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Voruð þér beðnar að senda umboðsmanni afrit af þeirri ákvörðun sýslumanns og var sú beiðni ítrekuð í bréfi til yðar 2. maí sl. Með tölvubréfi til umboðsmanns 16. sama mánaðar lýstuð þér því að þér hefðuð ekki kært niðurstöðu sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins enda hefði málið ekki persónulega þýðingu fyrir yður lengur. Tölvubréfi yðar fylgdu afrit af samskiptum yðar við sýslumann en þeirra á meðal var ekki að finna frávísun embættisins á kröfu yðar um lögskilnað.

Um lögskilnað vegna hjúskaparbrots er fjallað í 39. gr.  hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þar segir að fremji annað hjóna hjúskaparbrot eða sýni af sér atferli sem jafna megi til þess geti þá hitt krafist lögskilnaðar nema það hafi samþykkt brotið eða stutt að framgangi þess eða fallið frá því að hafa uppi lögskilnaðarkröfu af þessu tilefni. Samkvæmt 2. mgr. verður lögskilnaðar ekki krafist samkvæmt 1. mgr. vegna háttsemi sem á sér stað eftir skilnað að borði og sæng. Um úrlausn kröfu til skilnaðar er fjallað í 41. gr. laganna. Þar segir í 2. mgr. að leyfi til skilnaðar samkvæmt öðrum ákvæðum en 33. og 36. gr. laganna, þ. á m. 39. gr. megi leita hjá sýslumönnum ef hjón eru sammála um það, en ella hjá dómstólum. Þá segir í 3. mgr. að synji sýslumaður um leyfi til skilnaðar geti aðili skotið synjuninni til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 132. gr. laganna.

Vegna kvörtunar yðar tek ég fram skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis eru talin í ákvæðum 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í 3. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá fyrst tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Svo sem að framan greinir liggur fyrir að þér hafið ekki skotið úrlausnum sýslumanns sem hugsanlega liggja fyrir í máli yðar, þ. á m. frávísun hans á kröfu um lögskilnað, til dómsmálaráðuneytisins í samræmi við 132. gr. hjúskaparlaga. Af þessum sökum brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Farið þér þá leið að bera mál yðar undir dómsmálaráðuneytið getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun séuð þér enn ósáttar að fenginni niðurstöðu þess.

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar.