I
Vísað er til kvörtunar yðar 25. apríl sl. sem beinist að sveitarstjórn X og lýtur að ákvörðunum um hæfi yðar í málum sem lúta að ... sem hafa verið til meðferðar í sveitarstjórn og byggðarráði sveitarfélagsins. Í kvörtun yðar gerið þér athugasemdir við að innviðaráðuneytið hafi vikið sér undan því að úrskurða um hæfi yðar í tilefni tveggja stjórnsýslukæra yðar sem þér beinduð til þess.
II
Kvörtun yðar fylgdu afrit af tveimur stjórnsýslukærum yðar til innviðaráðuneytisins 3. ágúst og 10. október 2022. Í fyrri kærunni var þess óskað að ráðuneytið úrskurðaði um „meint vanhæfi [yðar] á fundum X“ í tengslum við meðferð mála sem lutu að [...]. Síðari kæran laut einnig að ákvörðun um hæfi yðar í tengslum við sömu mál. Fóruð þér jafnframt fram á að ráðuneytið hæfi þegar í stað frumkvæðisathugun á stjórnsýslu X að þessu leyti. Af kvörtun yðar og meðfylgjandi gögnum verður ráðið að um sé að ræða annars vegar fund byggðarráðs sveitarfélagsins 5. júlí 2022 þar sem lögð var fram til kynningar [...] og hins vegar fund sveitarstjórnar 14. september þess árs þar sem til umfjöllunar var [...].
Í svari ráðuneytisins við fyrri kæru yðar 21. september 2022 kom fram að ákvörðun sveitarstjórnar um hæfi yðar til að taka þátt í meðferð tiltekins máls teldist ekki stjórnvaldsákvörðun og því væri ekki unnt að taka málið til úrskurðar á grundvelli 111. gr. laga nr. 138/2011. Var kæru yðar því vísað frá ráðuneytinu. Jafnframt kom fram að erindi yðar yrði tekið til skoðunar af hálfu ráðuneytisins sem ábending eða kvörtun og lagt yrði mat á hvort efni þess gæti orðið tilefni til að fjalla formlega um stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli 112. gr. laganna.
Á þessum grundvelli tók ráðuneytið málið til formlegrar meðferðar og lauk því með áliti 16. janúar sl. Í álitinu var jafnframt vísað til síðari kæru yðar og sú afstaða áréttuð að ákvörðun um hæfi sveitarstjórnarmanns teldist ekki stjórnvaldsákvörðun. Loks var það niðurstaða ráðuneytisins að ekki yrðu gerðar athugasemdir við ákvarðanir sveitarstjórnar og byggðarráðs sveitarfélagsins um vanhæfi yðar. Í því sambandi kom m.a. fram að horfa yrði til þess að samkvæmt 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga taki sveitarstjórn eða fastanefnd sveitarfélags ákvörðun um hæfi sveitarstjórnarmanns. Ekki yrði annað séð en að við þá ákvörðunartöku hefði verið lagt sérstakt mat á þá hagsmuni sem um ræddi, þ.e. hversu verulegir þeir væru og hvort þátttaka yðar í afgreiðslu máls kynni að valda efasemdum út á við. Þá hefði jafnframt verið lagt mat á hvort hagsmunirnir teldust verulegir samanborið við hagsmuni annarra íbúa sveitarfélagsins.
III
Um hæfi sveitarstjórnarmanna til þátttöku og afgreiðslu einstakra mála fer samkvæmt 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 í öðrum tilvikum en þeim þegar til greina kemur að tekin verði stjórnvaldsákvörðun í máli, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 2. mgr. hennar ber sveitarstjórnarmanni, nefndarfulltrúa eða starfsmanni sveitarfélags að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.
Um þá málsmeðferð sem viðhafa ber, rísi vafi um vanhæfi samkvæmt framangreindu, er m.a. fjallað í 6. og 7. mgr. 20. gr. laganna. Þar segir í 6. mgr. að sveitarstjórnarmaður, nefndarfulltrúi eða starfsmaður sveitarfélags sem veit hæfi sitt eða annars orka tvímælis skuli án tafar vekja athygli oddvita, formanns nefndar eða næsta yfirmanns á því. Samkvæmt 7. mgr. greinarinnar kemur það í hlut sveitarstjórnar að taka ákvörðun um hæfi sveitarstjórnarmanns til meðferðar og afgreiðslu einstakra mála og má sá sveitarstjórnarmaður sem hlut á að máli taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt. Þá tekur nefnd ákvörðun um hæfi nefndarmanns og má sá nefndarmaður sem hlut á að máli taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt.
Um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum er fjallað í XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga hefur innviðaráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Í 111. gr. laganna er fjallað um stjórnsýslukærur en þar segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess samkvæmt 109. gr. Að því leyti sem ekki er um að ræða slíkar ákvarðanir ákveður ráðuneytið sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sem fellur undir eftirlit þess á grundvelli frumkvæðiseftirlits þess sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 112. gr. laganna.
Samkvæmt framangreindu er kæruheimild samkvæmt 111. gr. sveitarstjórnarlaga, og þar með úrskurðarskylda innviðaráðuneytisins, bundin við að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Ákvörðun sveitarstjórnar eða eftir atvikum byggðarráðs, í samræmi við ákvæði 20. gr. sveitarstjórnarlaga, um hvort tiltekinn maður teljist hæfur til að koma að afgreiðslu tiltekins máls sem til meðferðar er, hvort sem um er að ræða mál sem ráðið verður til lykta með stjórnvaldsákvörðun eða með öðrum hætti, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna, felur aftur á móti í sér ákvörðun um meðferð máls enda er þar tekin afstaða til þess hvort þau formskilyrði sem mælt er fyrir um í ákvæðinu séu uppfyllt til þess að heimilt sé að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Að framangreindu virtu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við að ráðuneytið hafi vísað frá stjórnsýslukærum yðar með vísan til þess að ekki væri um að ræða kæranlegar ákvarðanir, sbr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga. Eru því ekki heldur efni til að gera athugasemdir við þann farveg sem ráðuneytið markaði málum yðar enda liggur fyrir að það tók athugasemdir yðar til sérstakrar athugunar á grundvelli frumkvæðisheimilda sinna, sbr. 112. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. álit þess 16. janúar sl.
IV
Í kvörtun yðar eru einnig gerðar almennar athugasemdir við stjórnsýslu X og nefnið þér í dæmaskyni önnur tilvik þar sem sveitarstjórn hefur ekki fallist á að um vanhæfi hafi verið að ræða í tilviki annarra sveitarstjórnarmanna á fundum sveitarstjórnar. Af því tilefni tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni. Þar sem ekki liggur fyrir að þér hafið sérstaklega leitað til innviðaráðuneytisins vegna þessara ákvarðana eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að ég fjalli um kvörtun yðar að þessu leyti.
V
Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.