Kirkjumál og trúfélög. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12169/2023)

Kvartað var yfir svari biskups við kæru vegna kosninga í sóknarnefnd Digraneskirkju.  

Þar sem um innri málefni sjálfstæðs trúfélags var að ræða en ekki verkefni eða beitingu opinberra valdheimilda sem þjóðkirkjan fer með á lögbundnum grundvelli féll kvörtunarefnið utan starfssviðs umboðsmanns.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. maí 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 27. apríl sl. er lýtur að svari biskups Íslands við kæru yðar vegna kosninga í sóknarnefnd Digraneskirkju sem haldnar voru á aðalsafnaðarfundi Digranessafnaðar 18. apríl sl.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilgreindar siðareglur. Í samræmi við þetta hlutverk er kveðið á um það í 1. mgr. 3. gr. sömu laga að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, en samkvæmt 2. mgr. greinarinnar tekur það einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manni í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/1997 kemur fram að í frumvarpinu sé gengið út frá því, eins og í gildandi lögum, að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu þjóðkirkjunnar. Aftur á móti falli ákvarðanir eða athafnir kirkjunnar er snerti kenningar hennar og trúariðkun utan starfssviðs umboðsmanns (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2328).

Á sama löggjafarþingi og frumvarp til fyrrgreindra laga um umboðsmann Alþingis var samþykkt var jafnframt samþykkt frumvarp er varð að lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Eitt meginmarkmið þeirra laga var að tryggja þjóðkirkjunni aukið sjálfstæði gagnvart ríkisvaldinu, einkum um innri málefni. Þótt ekki hafi með lögunum verið kveðið á um aðskilnað ríkis og kirkju var rík áhersla lögð á það í lögunum að kirkjan nyti sjálfstæðis gagnvart ríkinu. Þannig var m.a. tekið fram í 1. gr. laganna að þjóðkirkjan væri sjálfstætt trúfélag og í 2. gr. þeirra sagði að hún nyti sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka, sbr. til hliðsjónar m.a. bréf mín 8. og 29. júní sl. í málum nr. 10990/2021 og 11730/2022, sem eru birt á vefsíðu embættisins.

Lög nr. 78/1997 voru leyst af hólmi með núgildandi lögum um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 og tóku þau gildi 1. júlí 2021. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna fer um stöðu þjóðkirkjunnar samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 62. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Í 2. mgr. 2. gr. laganna segir að um tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisins fari samkvæmt þeim lögum og samningum sem séu í gildi hverju sinni er varði samskipti þjóðkirkjunnar og ríkisins, sbr. og 1. mgr. þeirrar greinar og 3. mgr. 3. gr. laganna. Þá segir í 3. mgr. 2. gr. að þjóðkirkjan ráði starfi sínu og skipulagi innan lögmæltra marka. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2021 segir að með frumvarpinu sé fram haldið sömu þróun og hrundið hafi verið af stað við gildistöku gildandi laga nr. 78/1997. Gengið sé út frá þeirri stöðu sem þjóðkirkjunni hafi þá verið veitt sem sjálfstæðu trúfélagi í stað þess að líta á hana sem opinbera stofnun eins og talið hafi verið eðlilegt að gera fyrir þann tíma (þskj. 996 á 151. löggjafarþingi 2020-2021, bls. 5).

Þegar virt er sú lagaþróun sem orðið hefur á stöðu þjóðkirkjunnar og sú aukna áhersla sem lögð hefur verið á sjálfstæði hennar og aðgreiningu gagnvart ríkinu tel ég að kvörtunarefni yðar, er lýtur að kosningu í sóknarnefnd Digraneskirkju og meðferð biskups á kæru yðar vegna hennar, teljist ekki til stjórnsýslu ríkisins enda er hér um að ræða innri málefni sjálfstæðs trúfélags en ekki verkefni eða beitingu opinberra valdheimilda sem þjóðkirkjan fer með á lögbundnum grundvelli. Fellur kvörtunarefni yðar þar af leiðandi utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis eins og það er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997 og brestur því lagaskilyrði til þess að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.