Menntamál. Háskólar. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Svör við erindum.

(Mál nr. 12173/2023)

Kvartað var yfir að Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík hefðu ekki fallist á að gefið yrði út skírteini til viðurkenningar á því að „fullnaðarprófi“ í lögfræði væri lokið.  

Þar sem kvörtunin er varðaði HR beindist að ákvörðun og starfsemi einkaaðila féll sá þáttur hennar utan starfssviðs umboðsmanns. Af svörum HA varð ekki annað ráðið en fyrirspurnunum hefði verið svarað og leiðbeiningar veittar í samræmi við lög. Ekki væri tilefni til að gera athugasemdir við svör eða afgreiðslu fyrirspurnanna né leiðbeiningar sem veittar höfðu verið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. maí 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 3. maí sl. sem beinist að Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Reykjavík. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við að skólarnir hafi ekki fallist á að gefið verði út skírteini til viðurkenningar á því að þér hafið lokið „fullnaðarprófi“ í lögfræði að námi loknu. Þá fylgja kvörtuninni samskipti yðar við formann prófnefndar skv. 1. mgr. 7. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998 um sama efni.

  

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga er starfssvið umboðsmanns nánar afmarkað og nær það einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hafa opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða falla undir 3. mgr. 3. gr. Að öðru leyti tekur starfssvið umboðsmanns ekki til einkaaðila.

Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er sú að Háskólinn í Reykjavík er ekki opinber háskóli sem lýtur yfir­stjórn mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, heldur hlutafélag sem hlotið hefur viðurkenningu menntamálaráðherra á grundvelli 3. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla. Fulltrúar eigenda félagsins, þ.e. stjórn Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnu­lífsins og Samtaka iðnaðarins, skipa háskólaráð Háskólans í Reykjavík sem markar stefnu háskólans, ákveður stofnun nýrra deilda, og ákvarðar meginstarfstilhögun háskólans. Jafnframt ákveður það skóla­gjöld. Kvörtun yðar beinist því að ákvörðun og starf­semi einkaaðila að því leyti sem hún varðar Háskólann í Reykjavík.

Eins og áður er rakið getur umboðsmaður Alþingis aðeins haft af­skipti af starfsemi einkaaðila að því marki sem slíkum aðila hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvörðun um réttindi og skyldur manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir. Hér er ekki uppi slík aðstaða. Samkvæmt framangreindu fellur það utan starfssviðs míns að fjalla um kvörtun yðar að því marki sem hún lýtur að svörum skólans við erindum yðar.

  

2

Samkvæmt kvörtun yðar hafið þér þegar lokið ML gráðu í lögfræði við Háskólann í Reykjavík en stundið nú BA nám í sömu grein við Háskólann á Akureyri. Athugasemdir yðar við svör Háskólans á Akureyri lúta einkum að því að skólinn hafi ekki fallist á að gefa út „fullnaðarskírteini“ til viðurkenningar á því að þér komið til með að hafa lokið „fullnaðarprófi- eða námi“ að námi yðar loknu en þér stefnið að útskrift vorið 2024.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að efni svara háskólans tel ég vert að nefna að í stjórnsýslurétti gildir sú óskráða regla að skriflegum erindum til stjórnvalda ber að svara skriflega, nema svars sé ekki vænst eða ljóst sé að borgarinn sættir sig við munnleg svör.

Í reglunni felst þó ekki að sá sem ber upp erindi við stjórnvald eigi rétt á tiltekinni úrlausn mála sinna eða þeim efnislegu svörum við fyrirspurnum sínum sem hann óskar eftir. Það ræðst af eðli erindis, því málefnasviði sem það tilheyrir og málsatvikum að öðru leyti hvaða kröfur verða leiddar af lögum, skráðum og óskráðum, og vönduðum stjórnsýsluháttum til þeirra svara sem stjórnvöld veita vegna slíkra erinda borgaranna. Þá leiðir af 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðri leiðbeiningarreglu að stjórnvöldum er skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauðsynlega aðstoð  og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra.

Um starfsemi Háskólans á Akureyri gilda annars vegar lög nr. 85/2008, um opinbera háskóla, og lög nr. 63/2003, um háskóla. Um prófgráður sem háskólum er heimilt að veita fer samkvæmt lögum nr.  63/2006, sbr. 22. gr. laga nr. 85/2008. Þannig segir í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 63/2006 að háskólar ákveði sjálfir hvaða nám þeir bjóða innan síns fræðasviðs og undirflokka þeirra. Viðurkenndar prófgráður og lokapróf, sem háskólar miða við, eru m.a. bakkalárpróf sem jafngildir a.m.k. 180-240 stöðluðum námskeiðum og meistara- eða kandídatspróf sem jafngildir a.m.k. 90–120 stöðluðum námseiningum til viðbótar bakkalárprófi eða jafngildi þess, sbr. b- og c-lið greinarinnar. Í lögum sem gilda um Háskólann á Akureyri er þannig ekki að finna skilgreiningu á hugtökunum fullnaðarpróf og fullnaðarnám. Téð hugtök koma aftur á móti m.a. fyrir í lögum um lögmenn, nr. 77/1998, og reglugerð um próf til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður, nr. 1095/2005. Í 4. tölulið 1. mgr. 6. gr. laganna segir að málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum megi veita þeim sem um þau sækir og hefur lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla. Af orðalagi ákvæðisins verður að draga þá ályktun að fullnaðarnám í lögfræði jafngildi því að hafa lokið bakkalár- og meistaraprófi í greininni. Þá ræðst af nánara mati á inntaki þeirra prófgráða sem um ræðir hvort þessu skilyrði teljist fullnægt.

Eftir að hafa kynnt mér svör Háskólans á Akureyri við erindum yðar fæ ég ekki betur séð en að fyrirspurnum yðar hafi almennt verið svarað auk þess sem ekki verður annað ráðið en að efni þeirra og þær leiðbeiningar sem yður voru veittar hafi verið í samræmi við lög. Hef ég þá í huga að í svörum skólans kemur fram að almennt teljist BA-gráða og ML-gráða í lögfræði til fullnægjandi náms í greininni. Þá var yður leiðbeint um að leita til Lögmannafélags Íslands um nánari skýringar á skilyrðum þess að sækja námskeið til undirbúnings prófraun til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður. Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við svör Háskólans á Akureyri eða afgreiðslu fyrirspurnar yðar að öðru leyti

Af hálfu formanns prófnefndar, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/1998, kom jafnframt fram að við mat á því hvort umsækjandi fullnægi kröfum til að þreyta téða prófraun yrði að ætla að horft yrði til þess að þátttakandi hefði lokið heildstæðu laganámi, bæði grunn- og framhaldsgráðu eða embættisprófi. Ég tel því ekki heldur tilefni til að gera athugasemdir við þær leiðbeiningar sem yður voru veittar og tek í því sambandi fram að ekki verður ætlast til þess af nefndinni að hún taki fyrirfram afstöðu til þess hvort þér munuð uppfylla framangreint skilyrði laga nr. 77/1998, sbr. reglugerð nr. 1095/2005, á tilteknum tímapunkti í framtíðinni.

  

III

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.