Skattar og gjöld. Málefni fatlaðs fólks. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12185/2023)

Kvartað var yfir því að í bílastæðahúsi Hafnartorgs Hafnartorgs í Reykjavík væru handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða ekki undanþegnir gjaldskyldu.  

Þar sem félagið sem rekur húsið er einkaréttarlegur aðili féll það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtunarefnið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. maí 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. maí sl. yfir því að í bílastæðahúsi Hafnartorgs í Reykjavík séu handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða ekki undanþegnir gjaldskyldu. Af kvörtun yðar og gögnum, sem henni fylgdu, verður ráðið að X ehf. fari með rekstur bílastæðahússins.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af 3. gr. sömu laga leiðir að starfssvið umboðsmanns nær einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að X ehf. er einkahlutafélag sem starfar á grundvelli laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Telst félagið því einkaréttarlegur aðili og fellur sem slíkur utan starfssviðs umboðsmanns í samræmi við ofangreind ákvæði laga nr. 85/1997. Sú háttsemi sem kvörtun yðar beinist að felur ekki í sér stjórnsýslu í ofangreindum skilningi enda er ekki í henni fólgin beiting opinbers valds sem félaginu hefur verið fengið með lögum eða ákvörðunar­taka á þeim grundvelli. Það fellur því utan starfssviðs míns að fjalla um þá starfsemi félagsins sem kvörtun yðar lýtur að.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið.