Skattar og gjöld. Lífeyrismál. Ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna húsnæðiskaupa. Jafnræðisreglur.

(Mál nr. 12194/2023)

Kvartað var yfir því að þeir sem nýti séreignarsparnað sinn til að greiða inn á húsnæðislán nytu skattahagræðis umfram aðra og ekki væri gætt jafnræðis.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og lagasetningar féll kvörtunarefnið utan þess.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. maí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 17. maí sl. sem snýr að því að þeir sem nýta séreignarsparnað sinn til að greiða inn á húsnæðislán njóti skattahagræðis en aðrir sem noti annars konar sparnað í sama tilgangi njóti ekki sama hagræðis. Af kvörtuninni verður ráðið að þér teljið jafnræðis ekki gætt með umræddu fyrirkomulagi.

Með lögum nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, var heimiluð ráðstöfun séreignarsparnaðar í ofangreindum tilgangi. Í þeim lögum var m.a. fólgin breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ástæða þess að ég tek þetta fram er að starfssvið umboðsmanns, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði.

Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki annað ráðið en að hún beinist með almennum hætti að framangreindu fyrirkomulagi um ráðstöfun séreignarsparnaðar eins og það er ákveðið í lögum. Brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og læt ég því máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.