Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 12112/2023)

Kvartað var yfir verklagi og afgreiðslu Fangelsisins á Hólmsheiði á heimsóknarbeiðni.  

Fyrir lá að beiðninni hafði verið hafnað en sú ákvörðun fangelsismálayfirvalda ekki verið kærð til dómsmálaráðuneytisins. Ekki voru því skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði frekar um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. maí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 22. mars sl. yfir því að heimsóknarbeiðni yðar sem þér lögðuð í póstkassa í fangelsinu 15. mars sl. hafi verið afgreidd of seint og því hafi heimsóknin fallið niður umrætt sinn. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við verklag fangelsisins við afgreiðslu heimsóknarbeiðninnar.

Í tilefni af kvörtun yðar var fangelsinu ritað bréf 13. apríl sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort téð beiðni hefði borist og eftir atvikum hvað liði meðferð og afgreiðslu hennar.

Í svari fangelsisins 25. maí sl. kom fram að samkvæmt heimsóknarreglum þurfi einstaklingar að skila inn umsókn um heimsókn með þriggja daga fyrirvara svo hægt sé að afgreiða þær tímanlega. Þér hefðuð sótt um að fá heimsókn sem fara átti fram 18. mars sl. Við afgreiðslu heimsóknarbeiðna sem fram fór 16. mars sl. hafi umsókn yðar hins vegar ekki enn borist. Beiðnin hafi loks borist 20. mars sl. og henni hafnað á grundvelli þess að hún barst ekki í tíma.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að fangelsið hafnaði umræddri heimsóknarbeiðni yðar. Af því tilefni tek ég fram að í 45. til 48. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, er fjallað um heimsóknir í fangelsi. Í 45. gr. segir m.a. að fangi sem afpláni í lokuðu fangelsi geti fengið heimsóknir frá fjöl­skyldu og vinum ef aðstæður í fangelsi leyfi og slíkt teljist gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans. Í XII. kafla laganna er fjallað um málsmeðferð og kæruheimildir. Samkvæmt 95. gr. eru ákvarðanir sam­kvæmt lögunum kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins nema annað sé tekið fram. Gildir það jafnframt um ákvarðanir um veitingu heimsóknaleyfa.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir þessu er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fyrst fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Til þess að mér sé unnt á grundvelli kvörtunar að fjalla um framangreinda ákvörðun fangelsisins þarf hún að hafa verið kærð til dómsmálaráðuneytisins og niðurstaða þess að liggja fyrir. Þar sem ég fæ ekki ráðið að þér hafið leitað til ráðu­neytisins er mér ekki unnt að fjalla frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Farið þér þá leið að leita til ráðuneytisins, er yður unnt að leita til mín á nýjan leik þegar niðurstaða liggur fyrir.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að lokum að athugun mín á málinu hefur orðið mér tilefni til að koma tilteknum ábendingum á framfæri við fangelsið Hólmsheiði, sbr. hjálagt bréf.

 

 


  

  

Bréf umboðsmanns til Fangelsins á Hólmsheiði 31. maí 2023. 

 

Vísað er til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar A, er laut að afgreiðslu fangelsisins Hólmsheiði á heimsóknarbeiðni hans frá 15. mars sl. Eins og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir hjálagt í ljósriti, hef ég ákveðið að ljúka athugun minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu máli orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingum á framfæri og þá með það í huga að umrædd atriði verði framvegis höfð í huga við meðferð hliðstæðra mála hjá fangelsinu.

Í  V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. Í 1. mgr. 20. gr. kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Ákvörðun er bindandi eftir að hún er komin til aðila. Í 2. mgr. 20. gr. eru upp talin þau atriði sem veita ber leið­beiningar um þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega. Í 2. tölul. ákvæðisins kemur fram að veita skuli leiðbeiningar um kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld og hvert beina skuli kæru.

Við athugun mína á máli þessu vakti það athygli mína að í ákvörðun fangelsisins 20. mars sl. sem mér barst frá fangelsinu og ég ræð að hafi falið í sér formlega afgreiðslu beiðni A er um kæruleiðbeiningar vísað almennt til 26., 27. gr. og VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 án þess að tiltekið sé hvert beina skuli kæru, hver sé kærufrestur og eftir atvikum hvort um sé að ræða kærugjöld líkt og áskilið er í 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Eins og þegar er komið fram hef ég ákveðið að ljúka athugun minni á kvörtun A. Engu að síður tel ég að þær leiðbeiningar sem veittar voru í bréfi fangelsisins hafi ekki verið í fullu samræmi við fyrirmæli 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga líkt og að framan er rakið.

 

Ég bendi fangelsinu Hólmsheiði því á að huga betur að framangreindu í störfum sínum.