Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Skattar og gjöld. Virðisaukaskattur.

(Mál nr. 12158/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu ríkisskattstjóra á beiðni um leiðréttingu virðisaukaskatts.  

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns afgreiddi Skatturinn málið og því ekki tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. maí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 24. apríl sl., f.h. X ehf., yfir töfum á afgreiðslu ríkisskattstjóra á beiðni yðar fyrir hönd sama félags um leiðréttingu virðisaukaskatts í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. desember sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var Skattinum ritað bréf 26. apríl sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði afgreiðslu og meðferð ofangreindrar beiðni. Svar Skattsins barst 26. maí sl. en þar kemur fram að sama dag hafi X ehf. verið tilkynnt um að virðisaukaskattskýrslur, og þar með skil á virðisaukaskatti, hefðu verið færð í fyrra horf í ljósi fyrrgreinds úrskurðar Héraðsdóms Norðurlands eystra.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og í ljósi þess að ekki verður betur séð en að afgreiðslu erindis yðar hjá Skattinum sé lokið, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.