Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12164/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds. Í kvörtuninni voru m.a. gerðar athugasemdir við að ekki hefði verið tekið tillit til þess að bifreiðinni hefði verið lagt á hluta einkalóðar sem hefð væri fyrir að notaður væri sem bílastæði.  

Umboðsmaður benti á að samkvæmt gögnum málsins þyrfti að aka bifreið um göngustíg til að leggja henni á umræddum stað. Umrætt svæði væri því ekki ætlað til þess arna og því ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu Bílastæðasjóðs.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. maí 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 26. apríl sl. sem lýtur að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 5. þess mánaðar um álagningu stöðubrots-gjalds sem lagt var á bifreiðina [...]. Laut brotið að því að bifreið yðar hefði verið lagt á stað sem ekki er ætlaður fyrir umferð ökutækja. Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við að Bílastæðasjóður hafi ekki tekið tillit til þess að bifreiðinni hafi verið lagt á hluta einkalóðar sem hefð sé fyrir að sé notaður sem bílastæði. Ekki hafi áður verið lagt á gjald fyrir stöðu bifreiða á þessum hluta lóðarinnar auk þess sem bílastæði þar hafi verið tilgreint sem hlunnindi í auglýsingu fasteignarinnar sem um ræðir.

Með bréfi 3. maí sl. var þess óskað að umhverfis- og skipulags-svið Reykjavíkurborgar afhenti umboðsmanni afrit af öllum gögnum málsins. Bárust þau 15. sama mánaðar.

   

II

Í 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga segir að eigi megi stöðva skráningar-skylt ökutæki eða leggja því á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein eða hjólastíg nema annað sé ákveðið, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna. Sama eigi við um umferðareyjar, grassvæði og aðra svipaða staði. Í skýringum Bílastæðasjóðs til yðar 18. apríl sl. kemur fram að afstaða sjóðsins sé sú að bifreiðinni hafi verið lagt á þann máta að brotið hafi verið gegn 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga. Af skýringunum verður ráðið að sú afstaða byggist á því að bifreiðinni hafi verið lagt á „öðrum svipuðum stöðum“ í skilningi ákvæðisins.

Samkvæmt kvörtuninni og gögnum málsins, en á meðal þeirra eru ljósmyndir, var bifreið yðar lagt á lóðinni við [...]. Þá liggur fyrir að lóðin afmarkast á þessum stað af göngustíg og til þess að leggja bifreið þar er nauðsynlegt að aka henni um göngustíginn. Það verður því ekki annað ráðið en að umrætt svæði sé ekki ætlað fyrir lagningu bifreiða. Að þessu virtu tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við þá afstöðu Bílastæðasjóðs að bifreiðinni hafi verið lagt í andstöðu við fyrirmæli 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.