Kvartað var yfir frávisun innviðaráðuneytisins á erindi vegna ákvörðunar Vegagerðarinnar í tengslum við gjaldtöku Herjólfs.
Umboðsmaður benti á að Herjólfur ohf. er einkaréttarlegur aðili og ákvörðun stjórnar félagsins um setningu gjaldskrár felur ekki í sér ákvörðun um rétt eða skyldu mann skv. stjórnsýslulögum. Þetta væri því ekki kæranleg stjórnvaldsathöfn. Umboðsmaður gerði því ekki athugasemdir við að ráðuneytið hefði vísað málinu frá.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. maí 2023.
Vísað er til kvörtunar yðar 27. apríl sl. yfir afgreiðslu innviðaráðuneytisins á erindi yðar 3. október 2022. Með erindinu var ákvörðun Vegagerðarinnar í tengslum við gjaldtöku Herjólfs kærð og því haldið fram að gjaldskráin stæðist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Erindi yðar var vísað frá með úrskurði ráðuneytisins 13. apríl sl. á þeim grundvelli að það væri ekki tækt til úrskurðar í ljósi þess að engin stjórnvaldsákvörðun lægi fyrir í málinu. Í kvörtun yðar kemur fram að þér séuð ósáttir við frávísun ráðuneytisins og óskið þess að umboðsmaður beini því til þess að taka málið til meðferðar að nýju og leysa úr því með úrskurði.
Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. er hlutafélag sem starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og telst því einkaréttarlegur aðili. Breytir þar engu um þótt félagið sé í eigu Vestmannaeyjabæjar. Ákvörðun stjórnar félagsins um setningu gjaldskrár felur ekki í sér ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem félaginu hefur verið fengið vald til að taka með lögum, heldur byggist hún á þjónustusamnings Vegagerðarinnar við Vestmannaeyjabæ frá 25. febrúar 2021, um ferjusiglingar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar/Þorlákshafnar sem gerður er á grundvelli 40. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál.
Í þjónustusamningnum er fjallað um aðkomu ríkisins að breytingum á gjaldskrá félagsins. Þar segir m.a. að breytingar á gjaldskrá verði að vera samþykktar af ríkinu leiði þær til verulegs fráviks frá verðskrá á fylgiskjali 1 sem fylgdi samningnum. Samþykki Vegagerðarinnar á breytingum á gjaldskrá felur sömuleiðis ekki í sér ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga, m.a. vegna þess að hún beinist ekki að tilteknum aðila. Af því leiðir að slík stjórnvaldsathöfn er ekki kæranleg til ráðuneytisins, hvorki á grundvelli 15. gr. laga nr. 120/2012, um vegagerðina, né 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ég tel því ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins í máli yðar.
Að endingu tek ég þó fram að teljið þér tilefni til getið þér freistað þess að koma athugasemdum yðar og sjónarmiðum á framfæri við sveitarfélagið eða eftir atvikum stjórn félagins. Í ljósi þess að innviðaráðuneytið fer með yfirstjórn vegamála og Vegagerðarinnar, sbr. 4. gr. vegalaga nr. 80/2007 og 1. mgr. 1. gr. laga nr. 120/2012, getið þér jafnframt freistað þess að leita aftur til ráðuneytisins með almennt erindi. Að svo búnu er það innviðaráðherra að meta innan valdheimilda sinna hvort og þá hvernig hann bregst við slíku erindi þar sem hvorki er fyrir hendi kæruheimild eða úrskurðarskylda hans.
Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.