Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Atvinnuréttindi og atvinnuleyfi. Heilbrigðisstarfsmenn.

(Mál nr. 12182/2023)

Kvartað var yfir því að landlæknir hefði ekki afgreitt umsóknir um leyfi til að starfa sem sálfræðingar á Íslandi.  

Landlæknir greindi frá því að vegna mikils álags hefði umsagnarferlið tekið tíma langt umfram það sem stefnt væri að og allt kapp yrði lagt á að hraða ákvörðunum. Þótt ekki kæmi skýrt fram í svörunum hvenær nákvæmlega fyrirsjáanlegt væri að málum lyki varð ekki betur séð en að þau væru í farvegi og markvisst unnið í þeim. Í ljósi þess sem og vegna málshraða almennt hjá embættinu, taldi umboðsmaður að svo stöddu ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega en benti á að hægt væri að leita til heilbrigðisráðuneytisins vegna tafanna ef talið væri tilefni til þess.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. maí 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 8. maí sl., f.h. A, B, C og D, yfir því að embætti landlæknis hafi enn ekki afgreitt umsóknir þeirra um starfsleyfi sem sálfræðingar á Íslandi.

Í tilefni af kvörtun yðar var embætti landlæknis ritað bréf 9. maí sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu ofangreindra umsókna. Svar landlæknis barst 25. maí sl. en þar kemur fram að ljóst sé að sá tími, sem afgreiðsla ofangreinda umsókna hafi tekið, sé langt umfram það sem embætti landlæknis stefni að. Það stafi m.a. af því hversu langan tíma umsagnarferlið hafi tekið og miklu verkefnaálagi hjá embættinu. Harmar landlæknir þann tíma sem málsmeðferðin hefur tekið. Þá er í svarinu farið yfir málsmeðferð í málum allra fjögurra umsækjenda og næstu skref í því efni.

   

II

1

Um umsókn A segir í svari landlæknis hún hafi borist landlækni 23. ágúst sl. Umsagnar sálfræðideildar Háskóla Íslands hafi verið leitað 15. september sl. og sú beiðni ítrekuð 21. desember sl. áður en neikvæð umsögn deildarinnar barst 26. janúar sl. Umsögn deildarinnar var samkvæmt bréfinu send A 2. febrúar sl. og hafi hann í kjölfarið skilað viðbótargögnum en verið bent á með tölvubréfi 14. mars sl. að gögn um starfsþjálfun vantaði. Samkvæmt svarbréfi landlæknis var umræddum gögnum skilað 4. apríl sl. en í kjölfar samskipta umsækjanda og embættis landlæknis um gögnin voru þau send sálfræðideild Háskólans 21. apríl sl. Ekki hafði borist ný umsögn deildarinnar þegar bréf landlæknis til umboðsmanns var skrifað.

  

2

Málsmeðferð vegna umsóknar D er lýst á þá leið í bréfi landlæknis að hún hafi sótt um starfsleyfi 21. júní sl., verið upplýst 23. sama mánaðar um að gögn vantaði en í kjölfar nokkurra samskipta hafi landlæknir ákveðið að nægileg staðfesting lægi fyrir í því efni og hafi umsóknin því verið send sálfræðideild Háskólans til umsagnar 23. ágúst sl. Neikvæð umsögn sálfræðideildar barst samkvæmt bréfinu 26. janúar sl. en 23. sama mánaðar höfðu viðbótargögn borist sem send voru sálfræðideild með það fyrir augum að kannað yrði hvort þau breyttu afstöðu hennar í umsögninni frá 26. janúar. Umsögn sálfræðideildar um áhrif viðbótargagnanna barst landlækni 8. febrúar sl. en niðurstaða deildarinnar var sú að þau högguðu ekki fyrri afstöðu hennar.

Samkvæmt bréfi landlæknis mun D hafa skilað athugasemdum til embættisins 16. febrúar sl. og 22. sama mánaðar hafi borist bréf D, B og C með frekari athugasemdum. B, fyrir hönd þeirra þriggja, sendi, samkvæmt bréfi landlæknis, 23. febrúar sl. tölvupóst til landlæknis þar sem þess var krafist að landlæknir veitti þeim starfsleyfi og tekið fram að ekki hefði verið óskað eftir því að umsóknir þeirra þriggja yrðu sendar sálfræðideild á nýjan leik. Í kjölfar þessara athugasemda mun erindi B hafa verið svarað, gerð grein fyrir málsmeðferð landlæknis og 28. febrúar sl. hafi athugasemdirnar verið sendar sálfræðideild. Sálfræðideild brást við 21. apríl sl. og breyttu þau viðbrögð ekki fyrri umsögn hennar að mati landlæknis en ástæða þótti til að óska eftir fundi með fulltrúum deildarinnar 15. maí sl. Á fundinum kom fram að sálfræðideild hygðist senda embætti landlæknis uppfært mat á námi D innan þriggja vikna þar sem tekin yrði afstaða til þess hvort grundvallarmunur væri á námi hennar og námi, sem veitti starfsréttindi hérlendis, og ef sá munur væri til staðar, í hverju hann fælist.

  

3

Um umsókn C segir í svarbréfi landlæknis til umboðsmanns að umsókn hennar um starfsleyfi hafi borist 22. ágúst sl. og verið send sálfræðideild Háskólans til umsagnar 15. september sl. Neikvæð umsókn sálfræðideildar hafi borist 21. desember sl. og daginn eftir hafi hún verið send C til kynningar. Í bréfinu segir að 5. janúar sl. hafi borist viðbótargögn frá C, sem send hafi verið sálfræðideild 13. sama mánaðar. Samkvæmt bréfi landlæknis lá umsögn sálfræðideildar fyrir 7. febrúar og var hún enn neikvæð en sú umsögn var send C 9. sama mánaðar. Að svo komnu máli og í kjölfar þess að sameiginlegt athugasemdabréf C, B og D var sent landlækni virðist málsmeðferð umsókna þeirra þriggja hafa verið lögð í sama farveg enda virðast þær hafa gert athugasemdir sínar í sameiningu svo sem lýst er hér að framan. Málsmeðferð umsóknar C er því sama marki brennd og D að því leyti að í kjölfar fundar 15. maí sl. er fyrirhugað að sálfræðideild Háskólans sendi landlækni uppfært mat um sömu atriði og í tilfelli D innan þriggja vikna frá fundinum.

  

4

Málsmeðferð vegna umsóknar B er lýst svo í svari landlæknis að hún hafi sótt um starfsleyfi 11. ágúst sl. og að sú umsókn hafi verið send sálfræðideild Háskólans til umsagnar 15. september sl. Neikvæð umsögn deildarinnar hafi borist 21. desember sl. og verið send B 27. sama mánaðar. B mun hafa sent viðbótargögn 28. desember sl., sem landlæknir hafi sent sálfræðideild til umsagnar 29. sama mánaðar en sálfræðideild á ný skilað neikvæðri umsögn 2. febrúar sl. og sú umsögn send B 7. sama mánaðar. Í kjölfarið fer málsmeðferð umsókna B, D og C saman, sem að framan greinir, en hið sama gildir um umsókn B og hinna tveggja að því leyti að innan þriggja vikna frá 15. maí sl. væntir embætti landlæknis uppfærðs mats á námi hennar með tilliti til sömu atriða og lýst er að ofan um málsmeðferð D.

  

III

Líkt og greinir að framan lýtur kvörtun yðar að töfum á málsmeðferð og hefur embætti landlæknis harmað þann málsmeðferðartíma, sem einkennt hefur mál þeirra fjögurra umsækjenda, sem kvörtun yðar lýtur að. Í niðurlagi svarbréfs landlæknis til umboðsmanns kemur fram að allt kapp verði lagt á að fá þau gögn, sem í vinnslu séu hjá umsagnaraðila, sem fyrst enda séu þau embættinu nauðsynleg til þess að hraða því að tekin verði ákvörðun í málum þeirra. Ég tek fram að þótt ekki komi skýrt fram í svörum landlæknis hvenær nákvæmlega fyrirsjáanlegt er að málum umbjóðenda yðar ljúki endanlega verður ekki betur séð en að þau séu í farvegi hjá embættinu og unnið sé markvisst í þeim. Í ljósi þess og þeirra skýringa sem ég hef fengið fyrir þeirri stöðu sem uppi er í málunum, sem og hvað varðar málshraða almennt hjá embættinu, tel ég að svo stöddu ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega. Hef ég því ákveðið að ljúka meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Vegna kvörtunar yðar og þeirrar stöðu sem uppi er í málum umbjóðenda yðar tel ég engu að síður rétt að vekja athygli yðar á því að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, verður synjun landlæknis um veitingu starfsleyfis kærð til heilbrigðisráðherra. Ástæða þess að athygli yðar er vakin á þessu er sú að í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimild til að kæra til þess stjórnvalds, sem ákvörðun í umræddu máli verður kærð til, óhæfilegan drátt á afgreiðslu þess. Ef þér eða umbjóðendur yðar teljið sérstakt tilefni til getið þér freistað þess að leita til heilbrigðisráðuneytisins vegna tafa á meðferð málsins.

Verði frekari tafir á meðferð umsókna umsækjendanna fjögurra hjá landlækni eða ef áform sálfræðideildar Háskóla Íslands um afhendingu gagna til landlæknis standast ekki getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Fari umbjóðendur yðar, eða þér fyrir þeirra hönd, þá leið að leita til heilbrigðisráðuneytisins er unnt að leita til mín á nýjan leik með kvörtun að fenginni niðurstöðu þess teljið þér tilefni til.