Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Húsnæðsmál.

(Mál nr. 12201/2023)

Kvartað var yfir því að erindum til starfsmanna velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hefði hvorki verið svarað né ráðin bót á húsnæðisvanda viðkomandi.  

Ekki varð annað ráðið en umsókn um húsnæði væri í farvegi hjá borginni og því ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu hvað það snerti. Hinu sama gegndi varðandi svör við erindunum því skammur tími væri liðinn frá þeim síðustu. Bent var á að skjóta mætti ákvörðunum borgarinnar um stigagjöf til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar og þaðan til úrskurðarnefndar velferðarmála.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. maí 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 20. maí sl. en af henni verður ráðið að hún beinist að því að erindum yðar til starfsmanna velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sé ekki svarað svo og að sveitarfélagið hafi ekki enn ráðið bót á húsnæðisvanda yðar.

Í kjölfar þess að kvörtun yðar barst umboðsmanni fór stafsmaður skrifstofu embættisins þess á leit við yður að þér senduð tölvupóstsamskipti yðar við sveitarfélagið sem varpað gætu ljósi á kvörtun yðar. Í kjölfarið senduð þér umboðsmanni afrit af téðum samskiptum auk þess sem þeim fylgdi afrit af ákvörðun Reykjavíkurborgar 15. maí sl. þar sem umsókn yðar um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir var samþykkt á biðlista. Þar kemur fram að umsókn yðar hafi verið metin til sex stiga samkvæmt matsviðmiðum varðandi húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Þá er yður einnig leiðbeint um að þér getið skotið ákvörðun um stigagjöf til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar innan fjögurra vikna ef þér eruð ósáttir við hana. Þá afhentuð þér umboðsmanni einnig afrit af mjög tíðum og nýlegum tölvubréfum yðar til starfsmanna Reykjavíkurborgar þar sem þér farið þess á leit að yður verði úthlutað húsnæði við allra fyrsta tækifæri.

Í ljósi framangreinds fæ ég ekki annað ráðið en að umsókn yðar um félagslegt húsnæði sé í farvegi hjá sveitarfélaginu en umsókn yðar var samþykkt á biðlista mjög nýlega og tel ég af þeim sökum ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna þess hluta kvörtunar yðar að svo stöddu. Þá tel ég ekki heldur, í ljósi þess  hve skammur tími er liðinn frá nýlegum samskiptum yðar við starfsmenn Reykjavíkurborgar vegna umsóknar yðar, tilefni til að að bregðast sérstaklega við þeim þætti kvörtunar yðar er snýr að því að erindum yðar hafi ekki verið svarað.

Loks tel ég rétt að benda yður á þá leið að skjóta ákvörðun Reykjavíkurborgar um stigagjöf til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar svo sem yður var leiðbeint um í bréfi sveitarfélagsins 15. maí sl. Að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til úrskurðarnefndar velferðarmála með stjórnsýslukæru teljið þér tilefni til. Ég nefni þetta vegna þess að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af því leiðir að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en það hefur endanlega verið til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.