Fjármála- og tryggingastarfsemi. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 12211/2023)

Spurt var hvort Seðlabanki Íslands gæti sett reglur um greiðslumat. 

Það er ekki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt og því ekki skilyrði til að hann fjallaði um erindið. Umboðsmaður benti þó á að reglur um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda hefðu verið settar á grundvelli laga um fasteignalán til neytenda. Þar væri Seðlabankanum falið, með sérstakri lagaheimild, að setja umræddar reglur.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. maí 2023.

  

   

Ég vísa til kvörtunar yðar 29. maí sl. þar sem þér beinið til mín fyrirspurn um hvort Seðlabanki Íslands geti sett reglur um greiðslumat. Af kvörtun yðar ræð ég að þar eigið þér við reglur nr. 701/2022, um hámark greiðslubyrðar fasteigalána í hlutfalli við tekjur neytenda. Í þessu sambandi bendið þér á að bankar taki 14.000 krónur fyrir að framkvæma greiðslumat einstaklinga en brjóti síðan gegn forsendum þess með hækkun vaxta.

Um störf umboðsmanns Alþingis gilda samnefnd lög nr. 85/1997. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalds kvartað af því tilefni til umboð+smanns Alþingis. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir tiltekin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Þá er jafnframt ljóst af ákvæðunum að starfssvið umboðsmanns tekur ekki til einkaaðila heldur stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Eins og ég skil kvörtun yðar felur hún annars vegar í sér almenna fyrirspurn og hins vegar ræð ég að hún lúti almennt að framkvæmd fjármálafyrirtækja á téðum reglum nr. 701/2022 í tengslum við lánveitingar til neytenda. Ég fæ þannig ekki séð að hún beinist að tiltekinni úrlausn eða athöfn stjórnvalda í fyrirliggjandi máli yðar. Í þessu sambandi árétta ég að það fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um slíkar lánveitingar einkaaðila eða framkvæmd þeirra á framangreindum reglum seðlabankans.

Vegna kvörtunar yðar tel ég þó rétt að taka fram að í reglum nr. 701/2022 er m.a. fjallað um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda. Þar segir m.a. í 3. gr. að hámark mánaðarlegrar greiðslubyrðar fasteignalána skuli vera 35% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum neytanda þegar fasteignalán sé veitt. Hámarkið skuli þó vera 40% þegar um sé að ræða fjármögnun kaupa á fyrstu fasteign.

Umræddar reglur nr. 701/2022 voru settar á grundvelli 27. gr. laga nr. 118/2016, fasteignalán til neytenda. Þar kemur fram að Seðlabanka Íslands sé heimilt, að undangengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar, að ákveða í reglum hámark heildarfjárhæðar fasteignaláns og greiðslubyrðar þess í hlutfalli við tekjur neytanda. Hámark heildarfjárhæðar fasteignaláns getur verið frá fimmföldum til nífaldra árlegra ráðstöfunartekna neytanda. Hámark greiðslubyrðar fasteignaláns getur numið 25–50% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum neytanda. Með ráðstöfunartekjum er átt við væntar viðvarandi tekjur að frádregnum beinum sköttum og gjöldum. Samkvæmt framangreindu er Seðlabanka Íslands með sérstakri lagaheimild falið að setja umræddar reglur.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.