Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Sveitarfélög. Valdframsal. Valdþurrð. Endurupptaka. Frávísun. Úrskurðarhlutverk.

(Mál nr. 11797/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar um að vísa frá áfrýjun A vegna ákvörðunar fjölskyldu- og barnamálasviðs sveitarfélagsins um að synja beiðni hans um sérstakan húsnæðisstuðning. Frávísunin var byggð á því að fjögurra vikna áfrýjunarfrestur til ráðsins væri liðinn. Áður hafði nefndin vísað frá kæru A vegna sama máls á þeim grundvelli að nauðsynlegur undanfari kæru til nefndarinnar væri að málið hlyti fyrst afgreiðslu fjölskylduráðs.  

Athugun umboðsmanns beindist að því hvort síðari úrskurður nefndarinnar hefði samræmst lögum og þá m.a. með hliðsjón af því hvort ákvörðun Hafnarfjarðarkaupstaðar um að synja A um sérstakan húsnæðisstuðning hefði verið tekin af þar til bærum aðila innan sveitarfélagsins. Í ljósi þess að nefndin hafði lagt mál A í ákveðinn farveg með fyrri úrskurði sínum taldi umboðsmaður þó að ekki yrði lagt mat á síðari úrskurðinn án þess að vikið yrði að þeim fyrri að því marki sem hann hefði þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Þar sem deildarstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs hafði ekki verið falin heimild til fullnaðarafgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins þegar hann synjaði umsókn A gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við þá forsendu nefndarinnar að afgreiðsla fjölskylduráðs hefði verið nauðsynlegur undanfari kæru til nefndarinnar. Umboðsmaður gat hins vegar ekki fallist á þá niðurstöðu nefndarinnar í síðari úrskurði hennar að þegar deildarstjórinn hafnaði umsókninni hefði tekið að líða frestur sem A hafði til að bera málið undir réttan aðila innan sveitarfélagsins, þ.e. fjölskylduráð, enda fengi sú niðurstaða ekki stoð í lögum. Var þá horft til þess að eðli málsins samkvæmt fól erindi A til fjölskylduráðs hvorki í sér stjórnsýslukæru né beiðni um endurupptöku með málskoti innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heldur bar að líta á það sem beiðni um efnislega afgreiðslu á umsókn hans af hálfu þar til bærs aðila innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Að þessu virtu taldi umboðsmaður að síðari úrskurður nefndarinnar hefði ekki verið reistur á réttum lagalegum grundvelli. 

Umboðsmaður taldi jafnframt að þar sem úrskurðarnefndin lagði til grundvallar fyrri úrskurði sínum í máli A að deildarstjóri hefði ekki haft heimild til fullnaðarafgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning hefði henni borið að meta hvað réttaráhrif sú valdþurrð hefði, svo sem hvort ákvörðunin ætti engu að síður að halda réttaráhrifum sínum eða hvort hún yrði felld úr gildi og þá eftir atvikum vísað heim til nýrrar meðferðar hjá sveitarfélaginu. Nefndin hefði hins vegar enga afstöðu tekið til þessara atriða í úrskurði sínum. Af síðari úrskurði nefndarinnar yrði síðan ekki annað ráðið en að nefndin hafi talið ákvörðun deildarstjórans hafa haldið réttaráhrifum sínum þrátt fyrir þá valdþurrð sem vikið hafði verið að í fyrri úrskurðinum. Var það mat umboðsmanns að sú afstaða nefndarinnar væri í berlegu ósamræmi við þá fyrri niðurstöðu hennar að fjalla ekki efnislega um kæru A í fyrra málinu heldur vísa henni frá á þeim forsendum sem gert var. Í heild sinni hefði þetta misræmi í vinnubrögðum nefndarinnar orðið til þess að A naut ekki þess réttaröryggis sem lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, svo og almennar reglur stjórnsýsluréttar um stjórnsýslu­­kærur, gerðu ráð fyrir.

Að lokum taldi umboðsmaður að málsmeðferð sveitarfélagsins og málatilbúnaður þess fyrir nefndinni hefði átt að gefa henni tilefni til að kanna betur á hvaða grundvelli sveitarfélagið taldi sig hafa afgreitt málið og bregðast þá við með viðeigandi hætti.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og leysa úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Jafnframt beindi hann því til nefndarinnar að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem þar kæmu fram.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 23. október 2023.

  

   

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 5. ágúst 2022 leitaði B lögmaður, fyrir hönd A, til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist m.a. að úrskurði úrskurðar­nefndar velferðarmála 19. ágúst 2021 í máli nr. 199/2021. Með úrskurð­inum staðfesti nefndin ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar 19. janúar þess árs um að vísa frá áfrýjun A vegna ákvörðunar fjölskyldu- og barnamálasviðs sveitarfélagsins 25. ágúst 2020 þess efnis að beiðni hans um sérstakan húsnæðisstuðning væri synjað.

Athugun umboðsmanns hefur beinst að því hvort úrskurður nefndar­innar 19. ágúst 2021 hafi samræmst lögum og þá m.a. með hliðsjón af því hvort ákvörðun Hafnarfjarðarkaupstaðar um að synja A um sérstakan húsnæðis­stuðning hafi verið tekin af þar til bærum aðila innan sveitarfélagsins. Að nánari afmörkun málsins er vikið síðar.

  

II Málavextir

Með beiðni 1. nóvember 2018 óskaði A, sem þá var búsettur í félagslegu leiguhúsnæði á vegum Hafnarfjarðarkaupstaðar, eftir sérstökum húsnæðis­stuðningi hjá sveitarfélaginu. Beiðninni var synjað með bréfi deildarstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs 25. ágúst 2020 með vísan til þess að ekki hefði verið heimild í þágildandi reglum sveitar­félagsins til að veita einstaklingum í félagslegu leiguhúsnæði slíkan stuðning. Í bréfinu var honum jafnframt bent á að heimilt væri að skjóta ákvörðun­inni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar innan fjögurra vikna og ákvörðun ráðsins mætti síðan skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða.

A kærði ákvörðunina til úrskurðar­nefndar velferðarmála 24. nóvember 2020 án þess að hafa borið hana undir fjölskylduráð bæjarins. Kæru A var vísað frá nefndinni 10. desember þess árs með úrskurði í máli nr. 617/2020 með vísan til þess að í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins væri sviðsstjóra fjölskyldusviðs falin heimild til fullnaðarafgreiðslu mála er vörðuðu fjárhagsaðstoð til framfærslu en að öðru leyti væri ekki til staðar heimild starfsmanna til fullnaðar­afgreiðslu mála er ættu undir lög nr. 40/1991, um félags­þjónustu sveitarfélaga, þ. á m. mála er vörðuðu sérstakan húsnæðis­stuðning. Það hefði því verið nauðsynlegur undanfari kæru til nefndar­innar að málið hlyti fyrst afgreiðslu fjölskylduráðs. Þar sem það hefði ekki fjallað um málið taldi nefndin það ekki tækt til efnis­meðferðar og vísað því frá.

Í kjölfar frávísunarúrskurðar nefndarinnar lagði A mál sitt fyrir fjölskylduráð sveitarfélagsins 21. desember 2020 og byggði þar m.a. á að synjun sveitarfélagsins samrýmdist ekki markmiðum og tilgangi lagareglna um félagsþjónustu sveitarfélaga, auk þess sem vísað var til jafnræðisreglna. Fjölskylduráð vísaði því erindi frá 19. janúar 2021 á þeim grundvelli að það hefði borist of seint. Byggðist sú niðurstaða á því að samkvæmt 19. gr. reglna Hafnarfjarðarkaupstaðar um sérstakan húsnæðis­stuðning, svo og 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991, væri kærufrestur þrír mánuðir. Þessi ákvörðun fjölskylduráðs var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 16. apríl 2021 sem kvað upp úrskurð sinn 19. ágúst þess árs er athugun umboðsmanns hefur lotið að.

Í greinargerð Hafnarfjarðarkaupstaðar til úrskurðarnefndarinnar í tilefni af fyrrgreindri stjórnsýslukæru A var m.a. vísað til þess að í ákvörðun fjölskyldu- og barnamálasviðs bæjarins 25. ágúst 2020 hefði honum verið leiðbeint um að unnt væri að skjóta ákvörðun þess til fjölskyldu­ráðs skriflega og innan fjögurra vikna. Þeirri ákvörðun hafi síðan mátt skjóta til úrskurðar­nefndar velferðarmála innan þriggja mánaða. Hann hafi engu að síður skotið ákvörðuninni beint til úrskurðarnefndarinnar sem hafi vísað málinu frá. Þegar hann hafi borið erindi sitt undir fjölskylduráð hafi verið liðnir tæpir fjórir mánuðir frá því að ákvörðun fjölskyldu- og barnamálasviðs var tilkynnt honum. Þá er vísað til þess í greinargerðinni að ekki hafi verið skilyrði til að taka málið til meðferðar á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í niðurstöðukafla úrskurðar nefndarinnar 19. ágúst 2021 voru ákvæði 17., 18. og 19. gr. reglna Hafnarfjarðarkaupstaðar um sérstakan húsnæðisstuðning rakin, þar sem fjallað er um heimildir til ákvarðana samkvæmt reglunum, kynningu á ákvörðunum um sérstakan húsnæðisstuðning og málskot til úrskurðar­nefndar velferðarmála vegna ákvarðana fjölskyldu­ráðs. Þá sagði eftir­farandi: 

Fram kemur í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 617/2020 að samkvæmt 57. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar fer fjölskylduráð með mál sem heyra undir lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 2. mgr. 57. gr. samþykktarinnar segir að fjölskylduráð geri tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til með­ferðar. Þá geti bæjarstjórn falið fjölskylduráði og einstökum starfsmönnum fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæli á annan veg, sbr. 41. og 42. gr. samþykktarinnar. Í 41. gr. kemur meðal annars fram að fjölskylduráði, sbr. 2. tölul. A-liðar 39. gr., sé heimilt að afgreiða mál á verksviði þeirra á grundvelli erindisbréfs samkvæmt 40. gr. án staðfestingar bæjarstjórnar ef annars vegar lög eða eðli máls mæli ekki sérstaklega gegn því og hins vegar þegar þau varði ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið sé á um í fjárhagsáætlun og þau víki ekki frá stefnu bæjarins. Í 42. gr. er síðan fjallað um framsal bæjarstjórnar til starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála. Þar er sviðsstjóra fjöl­skylduþjónustu falin heimild til fullnaðarafgreiðslu mála er varða fjárhagsaðstoð til framfærslu í samræmi við reglur sveitar­félagsins um fjárhagsaðstoð en að öðru leyti er ekki til staðar heimild starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála er eiga undir lög nr. 40/1991, þar á meðal mála sem varða sérstakan húsnæðis­stuðning.

Með vísan til þessa taldi nefndin ljóst að fjögurra vikna „áfrýjunar­frestur“ til fjölskylduráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar hefði verið liðinn, bæði þegar A lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 24. nóvember 2020 og þegar hann lagði mál sitt fyrir ráðið 21. desember 2020. Þá lægi fyrir að A hefði verið bent á frest til að bera ákvörðun starfsmanns fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarkaupstaðar undir fjölskylduráð. Með vísan til þessa var hin kærða ákvörðun stað­fest.

  

III Samskipti umboðsmanns og stjórnvalda

Í tilefni af kvörtuninni var úrskurðarnefnd velferðarmála ritað bréf 19. september 2022. Þar var þess óskað að nefndin skýrði nánar hvort og þá hvernig hún teldi fullnægt þeim skilyrðum sem kom fram í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, fyrir því að sveitarfélagi sé heimilt að ákveða að máli skuli fyrst skotið til aðila innan stjórnsýslu sveitarfélagsins áður en unnt sé að kæra stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í svari nefndarinnar 11. október þess árs kom m.a. fram að þótt í samþykktum Hafnarfjarðarkaupstaðar væri ekki berum orðum tekið fram að málskot til fjölskylduráðs væri nauðsynlegur undan­fari kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála teldi hún ljóst að einstakir starfsmenn fjölskyldu- og barnamálasviðs hefðu ekki heimild til fullnaðarafgreiðslu mála er vörðuðu sérstakan húsnæðisstuðning. Þá sagði eftirfarandi: 

Í tilviki kæranda hefði verið um að ræða undanþágu frá reglum Hafnarfjarðarbæjar um sérstakan húsnæðisstuðning þar sem í þágildandi reglum sveitarfélagsins var ekki gert ráð fyrir greiðslum til þeirra sem voru í félagslegu leiguhúsnæði. Líkt og 2. mgr. 17. gr. reglnanna gerir ráð fyrir var nauðsynlegt að leggja sérstakt mat á það og að sú ákvörðun yrði tekin á teymis­fundi en ekki af einstaka starfsmanni. Því mat úrskurðarnefndin það svo að [A] hefði borið að bera mál sitt undir fjölskyldu­ráð Hafnarfjarðarbæjar áður en hægt væri að kæra ákvörðun til nefndarinnar.

Athugasemdir lögmanns A bárust 25. október 2022.

Í ljósi þess að niðurstaða nefndarinnar virtist reist á því að ákvörðun í máli A hefði ekki verið tekin af þeim aðila sem hafði fengið framselt vald til fullnaðarafgreiðslu málsins í samræmi við 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, þ.e. fjölskylduráði, var nefndinni ritað bréf að nýju 2. febrúar 2023. Þar var m.a. óskað eftir því að hún lýsti afstöðu sinni til þess hvort og þá hvernig það hefði sam­rýmst því réttaröryggishlutverki, sem nefndin gegndi á kærustigi, að staðfesta téða frávísun fjölskylduráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar þegar fyrir lá að umsókn A hafði enn ekki hlotið endanlega afgreiðslu þar til bærs aðila innan sveitar­félagsins.

Í svari nefndarinnar 24. sama mánaðar kom m.a. fram að í viðauka 2.2 í samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjar­stjórnar kæmi fram í 1. gr. að sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamála­sviðs afgreiddi án staðfestingar bæjarstjórnar m.a. umsóknir um sérstakan húsnæðisstuðning samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. gr. samþykktarinnar gæti sviðs­stjóri fjölskyldusviðs ávallt vísað ákvörðun samkvæmt 1. gr. til fjöl­skylduráðs til fullnaðarafgreiðslu. Í reglum Hafnarfjarðar­kaupstaðar um sér­stakan húsnæðisstuðning kæmi skýrt fram að hægt væri að skjóta ákvörðun fjölskylduráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála og það skyldi gert innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hefði verið kunngerð ákvörðun ráðsins. Úrskurðarnefndin taldi því að sveitarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar hefði tekið skýra afstöðu til þess að afgreiðsla fjölskylduráðs sveitarfélagsins væri nauðsynlegur undan­fari kæru til nefndarinnar þegar kæmi að umsóknum um sérstakan húsnæðis­stuðning, tæki sviðsstjóri fjölskyldusviðs ákvörðun um slíka málsmeðferð. Þá sagði eftirfarandi: 

Umsókn [A] um sérstakan húsnæðisstuðning var afgreidd af deildarstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs. Af svarbréfi var ljóst að málið hafði ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu. Ekkert í málinu bendir til þess að [A] hafi ekki borist svarbréfið og hefur hann ekki haldið því fram. Þar sem [A] bar ákvörðunina frá 25. ágúst 2020 ekki undir fjölskylduráð Hafnarfjarðar innan þess frests sem leiðbeint var um taldi úrskurðarnefndin rétt að staðfesta hina kærðu ákvörðun um frávísun. Að mati úrskurðar­nefndarinnar er það ekki í ósamræmi við réttaröryggishlutverk nefndar­innar, enda val hvers og eins málsaðila að láta reyna á rétt­mæti fyrirliggjandi ákvörðunar eða fallast á hana.

Viðbótarathugasemdir lögmanns A bárust 10. mars 2023.

 

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Nánari afmörkun

Áður hefur verið rakin sú afstaða úrskurðanefndar velferðarmála við fyrri úrskurð hennar 10. desember 2020 að ekki hafi verið fyrir hendi heimild fyrir einstaka starfsmenn fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarkaupstaðar til fullnaðar­afgreiðslu mála er vörðuðu sérstakan húsnæðisstuðning. Leit nefndin þar af leiðandi svo á að  deildarstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarkaupstaðar hefði ekki haft heimild til fullnaðar­afgreiðslu umsóknar A um sérstakan húsnæðisstuðning. Hins vegar liggur fyrir að með síðari úrskurði sínum 19. ágúst 2021, sem kvörtun A til umboðsmanns beinist að, staðfesti nefndin frávísun fjölskylduráðs bæjarins á erindi hans 19. janúar þess árs og þá m.a. á þeim grundvelli að fjögurra vikna „áfrýjunarfrestur“ hefði verið liðinn þegar það barst ráðinu. Verður því ekki annað séð en að nefndin hafi við þennan síðari úrskurð sinn litið svo á að ákvörðun deildarstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs um að hafna umsókn A hefði haft þau réttaráhrif að frestur til málskots til fjölskylduráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar hefði tekið að líða og þá þrátt fyrir að um væri að ræða ákvörðun starfsmanns sem hafði ekki heimild til fullnaðarafgreiðslu málsins.

Athugun mín á málinu hefur í samræmi við kvörtun A beinst að því hvort niðurstaða nefndarinnar við síðari úrskurð hennar hafi verið í samræmi við lög. Í því sambandi athugast þó að með fyrri úrskurðinum lagði nefndin mál A í ákveðinn farveg með því að vísa frá kæru hans án efnislegrar umfjöllunar og án tilmæla um framhald þess hjá sveitarfélaginu. Af þessum ástæðum verður ekki mat lagt á síðari úrskurð nefndarinnar 19. ágúst 2021 án þess að einnig sé vikið að þessum fyrri úrskurði nefndarinnar og þá að því marki sem hann hefur þýðingu fyrir úrlausn málsins.

2 Lagagrundvöllur

2.1 Framsal valds til starfsmanna sveitarfélaga

Í 78. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um sjálfstjórn sveitarfélaga. Þar segir í 1. mgr. að sveitarfélögin skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveði. Þá segir og í 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnar­laga nr. 138/2011 að landið skiptist í sveitar­félög sem sjálf ráði málefnum sínum á eigin ábyrgð. Af þessu leiðir að sveitarfélög hafa ríkt svigrúm til að skipuleggja og móta stjórnkerfi sitt innan marka laga.  

Starfsemi sveitarfélaga fer fram á einu stjórn­sýslustigi leiði annað ekki með beinum hætti af lögum, sbr. 1. mgr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga. Við meðferð mála og ákvarðana­töku kemur sveitarfélagið því fram sem eitt stjórnvald þótt það komi jafnan í hlut mismunandi starfseininga og starfsmanna innan þess að undirbúa og jafnvel leysa úr málum. Á sveitar­stjórnar­stiginu reynir því á heimildir til innra valdframsals. Í því sambandi hefur sérstaka þýðingu að með 42. gr. sveitarstjórnar­laga er lögfest almenn regla um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála. Þá kunna sérstakar reglur að gilda um framsal valds innan sveitarfélaga á ákveðnum sviðum samkvæmt nánari fyrirmælum laga. Verður innra framsal valds á sveitarstjórnarstigi að vera í sam­ræmi við umræddar reglur hvað sem líður þeim almennu venjum sem mótast hafa um þetta efni í íslenskri stjórnsýslu að öðru leyti, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 26. október 2018 í máli nr. 9561/2018.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga sveitarstjórnarlaga fer sveitar­stjórn með stjórn sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum þeirra laga og annarra laga. Er hún því almennt bær aðili til að taka ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins. Í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur fram að sveitar­­stjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og meðferð þeirra málefna sem það annist. Samþykktin nefnist „samþykkt um stjórn sveitar­félagsins“ og skal send innviða­ráðuneytinu til staðfestingar. Af því leiðir að sveitarstjórn skal hafa tvær umræður með a.m.k. einnar viku millibili um samþykktina áður en hún hlýtur endanlega afgreiðslu, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna, og gæta þess að hún birtist í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 15/2015, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, að fenginni staðfestingu ráðherra.

Eins og fyrr greinir er fjallað almennt um framsal sveitar­stjórnar á valdi til „fullnaðarafgreiðslu“ mála í 42. gr. sveitar­stjórnarlaga. Skýringu á þessu hugtaki er ekki að finna í lögunum sjálfum eða lögskýringargögnum að baki þeim, en þar sem stjórnsýsla sveitarfélags fer fram á einu stjórnsýslustigi og ákvarðanir og samþykktir nefnda, sem ekki hefur verið falið slíkt vald, teljast tillögur til sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna, verður að leggja til grundvallar að átt sé við ákvörðun sem ekki þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar til að öðlast réttaráhrif. 

Í 2. mgr. 42. gr. laganna er fjallað um heimildir sveitarstjórnar til að fela einstökum starfs­mönnum sveitarfélags fullnaðar­afgreiðslu mála og skilyrði fyrir því. Á meðal þeirra skilyrða er að sveitarstjórn hafi kveðið á um framsalið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins en af því leiðir jafnframt að það verður að vera að undangenginni þeirri málsmeðferð sem að framan greinir. Þegar sveitarstjórn nýtir þessa heimild leiðir jafnframt af 4. mgr. greinarinnar að í samþykktinni skal kveðið á um það hver skuli taka fullnaðar­ákvörðun í máli samkvæmt 3. mgr. hennar. Er þar vísað til þess að starfsmaður sem hefur fengið slíkt vald framselt geti ávallt óskað eftir því að sveitar­stjórn, byggðaráð eða viðkomandi fastanefnd taki ákvörðun í máli. Jafnframt skal mæla fyrir um hvernig fara skuli með endurupptöku mála sem hljóta slíka afgreiðslu.

Í þessu sambandi bendi ég á að í athugasemdum við 42. gr. frumvarps þess er varð að sveitarstjórnarlögum kemur fram að gengið sé út frá því sem meginreglu að ákvarðanir sem teknar eru af nefndum eða starfsmönnum sveitarfélags sæti ekki eiginlegu málskoti innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heldur geti aðili máls átt rétt á endurupptöku ákvörðunar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eða á grundvelli ólögfestra reglna um endurupptöku sé ekki um stjórn­sýslumál að ræða. Hér sé því ekki um það að ræða að sveitarstjórn þurfi að mæla fyrir um rétt til endurupptöku, hann ráðist af stjórnsýslulögum eða óskráðum reglum. Hins vegar sé ætlast til að sveitarstjórn mæli fyrir um málsmeðferð þegar beiðni um endurupptöku er lögð fram, fyrst og fremst til að taka af vafa um það hver eigi að afgreiða endur­upptökubeiðnina (Alþt. 2010-2011, A-deild, bls. 7817-7818).

  

2.2 Nánar um valdframsal og ákvörðunartöku í félagsþjónustu sveitarfélaga

Um félagsþjónustu sveitarfélaga gilda samnefnd lög nr. 40/1991, eins og þeim hefur síðar verið breytt, og er fjallað um skipulag félagsþjónustu í 5. gr. þeirra. Af þeirri lagagrein leiðir að félagsmálanefnd er meðal lögbundinna fastanefnda sveitarfélags. Kemur þar m.a. fram að sveitarstjórn geti ákveðið, á grundvelli heimilda í sveitarstjórnarlögum, að víkja frá því skipulagi félagsþjónustu sem lögin gera ráð fyrir en samþykkt um stjórn sveitarfélags skuli þá greina frá því hvernig háttað skuli fullnaðarafgreiðslu mála, meðferð einstaklingserinda, endurupptöku mála og öðrum slíkum atriðum, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar.

Um kærur og málskot er því næst fjallað sérstaklega í 6. gr. laganna, eins og þeirri grein var breytt með d-lið 3. gr. laga nr. 37/2018. Athugast að greininni var einnig breytt með b-lið 1. töluliðar 25. gr. laga nr. 88/2021 en þau lög tóku gildi 1. janúar 2022 eða eftir að atvik máls þessa gerðust. Í 1. málslið 1. mgr. 6. gr. laganna segir að aðilum máls hjá félagsþjónustu sveitar­félaga sé heimilt að kæra stjórnvalds­ákvarðanir sem teknar eru sam­kvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að sveitarstjórn geti ákveðið í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins að áður en hægt sé að kæra stjórnvalds­ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðar­mála, sbr. 1. mgr. greinar­innar, skuli máli fyrst skotið til félags­málanefndar eða annars til­tekins aðila innan stjórnsýslu sveitar­félaga. Nýti sveitarstjórn þessa heimild skuli máls­aðila leiðbeint bæði um málskot og kæruleið þegar ákvörðun í máli er kynnt honum og skal niðurstaða liggja fyrir innan 30 daga. Í athugasemdum að baki þessu ákvæði í lögskýringargögnum er röksemdum lýst með svofelldum hætti: 

Ástæða þess að þetta er lagt til er að í núgildandi lögum er kveðið á um að endanleg afstaða félagsmálanefndar þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun verður kærð. Hefur þetta valdið vafa um heimildir starfsmanna og hvaða réttaráhrif verða bundin við afgreiðslu starfsmanna á umsóknum um þjónustu. Þá er einnig mis­munandi hvernig framkvæmdin er milli sveitarfélaga og mismunandi hversu mikið félagsmálanefndir í raun koma að ákvarðanatöku í einstaka málum. Í stærri sveitarfélögum er þessi innri endur­skoðun eða endurupptaka mála mjög virk, t.d. í Reykjavík þar sem starfandi er sérstök áfrýjunarnefnd innan velferðarsviðs og hefur það fyrirkomulag reynst vel. Í öðrum sveitarfélögum hefur verið farin sú leið að líta á afgreiðslu starfsmanna sem fullnaðarafgreiðslu mála þar sem félagsmálanefnd setji reglur og marki stefnu en komi minna að einstaklingsmálum. Þótti því rétt að fela sveitarstjórnum að taka afstöðu til þess hvernig þessu yrði háttað og gerð var sú krafa að það lægi skýrt fyrir hvort afgreiðslu starfsmanna mætti kæra til úrskurðarnefndar velferðar­mála eða hvort þyrfti fyrst að skjóta henni til félagsmálanefndar. Rétt er þó að árétta að slík innri endurskoðun þarf að vera skjótvirk og má ekki leiða til óþarfa tafa á málinu (þskj. 27 á 148. löggjafarþingi 2017-2018, bls. 14).

Samkvæmt framangreindu eru reglur um valdframsal í félagsþjónustu sveitarfélaga í samræmi við það almenna fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og áður hefur verið grein fyrir. Í því sambandi athugast að við gildistöku breytingarlaga nr. 37/2018 hinn 1. október 2018 féll úr gildi lagaákvæði sem var í 10. gr. laga nr. 40/1991 er veitti félagsmálanefnd heimild til að fela starfsmönnum afgreiðslu ákveðinna mála með því að setja reglur sem sveitarstjórn staðfesti.

Eftir gildistöku breytingarlaganna urðu starfsmönnum sveitar­félagsins því ekki fengnar heimildir til að taka stjórnvaldsákvarðanir í málum einstaklinga á sviði félagsþjónustu nema frá því væri gengið í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Svo sem áður segir verður þá þar að koma fram með skýrum hætti, eftir því sem við á, hvaða ákvarðanir einstaka starfsmaður má taka, til hvaða aðila innan sveitarfélagsins hann getur vísað máli til afgreiðslu, t.d. ef hann telur það fyrirsjáanlegt að ágreiningur muni verða um niðurstöðu hans. Í samþykkt um stjórn sveitarfélags skal þá einnig koma fram hvort áskilnaður sé gerður um að málsaðili verði að fara fram á endurupptöku slíkrar ákvörðunar áður en hann getur nýtt sér kæruheimild sína til úrskurðarnefndar velferðarmála og undir hvaða aðila innan sveitar­félagsins málið verði þá borið.

     

2.3 Samþykkt um stjórn Hafnafjarðarkaupstaðar

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 57. gr. þágildandi samþykktar um stjórn Hafnarfjarðar­kaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 525/2016 fór fjölskylduráð með mál sem heyrðu undir lög nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þess skal getið að fjölskylduráð er félagsmálanefnd sveitarfélagsins og þar með lögbundin fastanefnd þess. Í 2. mgr. sömu greinar sagði að fjölskylduráð gerði tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fengi til meðferðar. Þá gæti bæjar­stjórn falið fjölskylduráði og einstökum starfsmönnum fullnaðar­afgreiðslu mála nema lög mæltu á annan veg, sbr. 41. og 42. gr. sam­þykktarinnar.

Um valdsvið nefnda og framsal bæjarstjórnar til fastanefnda (ráða) á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála var fjallað í téðri 41. gr. samþykktarinnar. Þar kom m.a. fram að fjölskylduráði, sbr. 2. tölulið A-liðar 39. gr. samþykktarinnar, væri heimilt að afgreiða mál á verk­sviði þess á grundvelli erindisbréfs samkvæmt 40. gr. án stað­festingar bæjarstjórnar ef annars vegar lög eða eðli máls mæltu ekki sérstaklega gegn því og hins vegar þegar þau vörðuðu ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið væri á um í fjárhagsáætlun og þau vikju ekki frá stefnu bæjarins.

Um framsal bæjarstjórnar til starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála var því næst fjallað í 42. gr. samþykktarinnar. Þar sagði í 4. tölulið 1. mgr. að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð væri bæjarstjórn heimilt að fela sviðsstjóra fjölskylduþjónustu að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu í samræmi við reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarkaupstað, samþykktar af bæjarstjórn 9. febrúar 2011, nr. 180/2011, á sama hátt og með sömu skilyrðum og nefnd væru í 41. gr. samþykktarinnar. Þá sagði í 2. mgr. sömu greinar að bæjarstjórn skyldi setja skýrar reglur um afgreiðslu starfsmanna, en viðkomandi ráð hefði eftirlit með þeim og kallaði eftir skýringum og upplýsingum um ákvarðanir sem teknar væru á grund­velli þeirra. Er þetta í samræmi við það eftirlit sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í 44. gr. samþykktarinnar var fjallað um endurupptöku mála og kom þar fram í 2. mgr. að beiðni um endurupptöku skyldi beina til viðkomandi ráðs samkvæmt 1. til 5. tölulið A-liðar 39. gr. og yrði slík beiðni að jafnaði að koma fram áður en þrír mánuðir væru liðnir frá því að málsaðila væri tilkynnt um afgreiðslu. Hefði málið upphaflega verið fullnaðarafgreitt af ráði á grundvelli heimildar 41. gr. samþykktarinnar skyldi þó bæjarráð ávallt taka endurupptöku­beiðnina til meðferðar.

Samkvæmt framangreindu var fjölskylduráði með nánar tilgreindum hætti veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu mála á verksviði sínu. Líkt og lagt var til grundvallar í fyrri úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 10. desember 2020 í máli A hafði sviðsstjóra fjölskyldusviðs hins vegar ekki verið falin slík heimild að því er varðaði sérstakan húsnæðisstuðning þegar atvik málsins gerðust. Í þessu sambandi athugast að viðauki sá sem nefndin vísar til í skýringum sínum til umboðsmanns, þar sem sviðsstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs er fengin heimild til að afgreiða án staðfestingar bæjarstjórnar um­sóknir um sérstakan húsnæðisstuðning, er við núgildandi samþykkt nr. 240/2021 sem birt var í Stjórnartíðindum 3. mars 2021.

  

2.4 Reglur Hafnarfjarðarkaupstaðar um sérstakan húsnæðisstuðning

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur sem sveitarfélög veita til greiðslu á húsa­leigu umfram húsnæðisbætur sem greiddar eru á grundvelli laga um hús­næðisbætur nr. 75/2016. Um sérstakan húsnæðis­stuðning gilda ákvæði fyrrnefndra laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitar­félaga. Þar segir í 2. mgr. 45. gr. að sérstakur húsnæðis­stuðningur skuli veittur í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur á grund­velli leiðbeininga ráðherra um sérstakan húsnæðisstuðning samkvæmt 4. mgr. sömu greinar. Reglur sveitarstjórnar um sérstakan húsnæðisstuðning skulu birtar í B-deild stjórnartíðinda.

Þegar A sótti um sérstakan húsnæðisstuðning 1. nóvember 2018 voru í gildi reglur Hafnarfjarðarkaupstaðar um sérstakan húsnæðis­stuðning nr. 887/2017. Í þeim var m.a. fjallað um skilyrði fyrir greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings og málsmeðferð vegna umsókna um slíkar greiðslur. Í síðari málslið 2. mgr. 1. gr. reglnanna kom fram að ekki væri greiddur sérstakur húsnæðis­stuðningur í félagslegu húsnæði Hafnarfjarðarkaupstaðar. Það ákvæði var fellt niður með gildistöku núgildandi reglna nr. 1110/2019 hinn 17. desember 2019, eða degi eftir birtingu þeirra í B-deild Stjórnartíðinda.

Í 17. gr. reglna nr. 1110/2019 er fjallað um heimildir til ákvarðana samkvæmt reglunum og kemur þar fram að starfsmenn fjölskyldu- og barnamálasviðs taki ákvarðanir samkvæmt þeim í umboði fjölskyldu­ráðs Hafnarfjarðar. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er heimilt að veita undanþágu frá reglunum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir, svo sem ef um er að ræða sérstaklega þunga framfærslu­byrði eða aðrar félagslegar aðstæður sem leitt geta til þess að þörf fyrir stuðning sé meiri en hlutlæg viðmið gefi til kynna. Hægt er að óska eftir viðtali hjá félagsráðgjafa sem metur félags­legar aðstæður umsækjanda. Þá segir að tekin sé ákvörðun á teymisfundi starfsmanna fjölskyldu- og barnamálasviðs um undan­þágu frá reglunum og fara þurfi fram á slíka undanþágu innan fjögurra vikna frá því að notanda hafi borist vitneskja um ákvörðun. Í 19. gr. reglnanna kemur fram að umsækjandi geti skotið ákvörðun fjölskylduráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála og skuli það gert innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var kunngerð ákvörðun ráðsins. Ákvæði 17. og 19. gr. eldri reglna voru samhljóða þessum greinum gildandi reglna.

Reglur nr. 1110/2019 voru samþykktar í fjölskylduráði Hafnar­fjarðarkaupstaðar 14. október 2019 og í bæjarstjórn sveitar­félagsins 11. desember sama ár. Þær eru undirritaðar af sviðsstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar 11. desember 2019 og voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda 16. sama mánaðar.   

  

3 Var niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála í samræmi við lög?

Í lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og sveitar­stjórnar­lögum nr. 138/2011 er bæði fjallað um fullnaðarafgreiðslu mála og endurupptöku, þ.e. málskots innan sveitarfélags. Með hinu fyrr­nefnda er átt við að tilteknum aðila innan sveitarfélags sé veitt heimild til að taka ákvörðun sem ekki þarfnast staðfestingar sveitar­stjórnar til að öðlast réttaráhrif. Með hinu síðarnefnda er hins vegar vísað til þess að stjórnvald, í þessu tilviki sveitarfélag, taki fyrirliggjandi ákvörðun sína til endurskoðunar með tilliti til þess hvort hún eigi að halda réttaráhrifum sínum. Í samræmi við þetta var mælt fyrir um framsal bæjarstjórnar á valdi til starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála í 42. gr. sam­þykktar um stjórn Hafnarfjarðar­kaupstaðar og fundarsköp bæjar­stjórnar nr. 525/2016 en um endurupptöku mála var fjallað í 44. gr. hennar.

Af fyrrnefnda ákvæðinu leiddi, eins og úrskurðarnefnd velferðar­mála lagði til grundvallar í fyrri úrskurði sínum í máli A, að deildarstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnar­fjarðar­­kaupstaðar hafði ekki heimild til fullnaðarafgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðis­stuðning þegar hann tók ákvörðun um að synja umsókn A. Í sjálfu sér verða því ekki gerðar athugasemdir við þá forsendu nefndar­innar að afgreiðsla fjölskylduráðs hafi verið nauðsynlegur undanfari kæru til nefndar­innar. Er þá ekki heldur ástæða til að fjalla um hvort leitt hafi af ákvæði 44. gr. samþykktarinnar viðvíkjandi endurupptöku, að málum, sem höfðu hlotið fullnaðar­afgreiðslu þar til bærra starfsmanna sveitarfélagsins, hafi þurft að skjóta til fjölskylduráðs áður en hægt var að kæra ákvörðunina til nefndarinnar.

Hins vegar get ég ekki fallist á þá niðurstöðu nefndarinnar í síðari úrskurði hennar að þegar deildarstjórinn hafnaði umsókninni hafi tekið að líða frestur sem A hafði til að bera málið undir réttan aðila innan sveitarfélagsins, þ.e. fjölskylduráð, enda fær sú niðurstaða ekki stoð í lögum. Er þá horft til þess að eðli málsins samkvæmt fól erindi A til fjölskylduráðs 21. desember 2020 hvorki í sér stjórnsýslukæru né beiðni um endurupptöku málsins með málskoti innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heldur bar að líta á það sem beiðni um efnislega afgreiðslu á umsókn hans af hálfu þar til bærs aðila innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Að þessu virtu tel ég að úrskurður nefndarinnar 19. ágúst 2021 í máli nr. 199/2021 hafi ekki verið reistur á réttum lagagrundvelli. Ég tel hins vegar lyktir málsins fyrir nefndinni og viðbrögð hennar við fyrirspurn umboðsmanns 24. febrúar 2023 einnig gefa tilefni til að víkja nánar að því síðar með hvaða hætti nefndinni hefði verið rétt að ljúka fyrra kærumáli A. Horfi ég þá til þess að sá farvegur sem nefndin lagði málið í með þeim úrskurði sínum átti sinn þátt í því að A fékk ekki úrlausn þar til bærs aðila um umsókn sína.

Í þessu sambandi athugast einnig að sá fjögurra vikna „áfrýjunar­frestur“ til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar­kaupstaðar, sem lagt var til grundvallar að hefði verið liðinn þegar erindi A barst ráðinu, var ekki ákveðinn í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins, sbr. 4. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Kom hann fram í reglum sem ekki voru staðfestar af ráðherra og sættu þannig ekki því lögmætiseftirliti sem felst í staðfestingarhlutverki hans, m.a. með tilliti til þess hvaða heimildir sveitarfélagið hefur til að ákvarða tímafresti vegna endurupptökubeiðna.

  

4 Meðferð málsins á kærustigi

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðar­mála, hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórn­valds­ákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laganna fer um málsmeðferð nefndarinnar, að öðru leyti en leiðir af 1. til 4. mgr. greinarinnar, eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæðum laga sem mál­skotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Eins og áður hefur verið vikið að er aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Nefndin metur að nýju alla þætti kærumáls og getur fellt úr gildi ógildanlegar ákvarðanir í heild eða að hluta en ekki tekið nýja ákvörðun í máli fyrir hönd sveitarfélags. Athugast að þetta síðastgreinda ákvæði var fellt inn í lögin með 25. gr. breytingarlaga nr. 88/2021 sem gildi tóku 1. janúar 2022 eða eftir að niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála í máli A lá fyrir. Með hliðsjón af því að ákvæðið felur í sér áréttingu á þeim almennu reglum stjórnsýsluréttar sem hér eiga við hefur þetta þó ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Um stjórnsýslukæru er fjallað í VII. kafla stjórnsýslulaga. Af athugasemdum að baki þeim kafla laganna verður ráðið að æðra stjórnvaldi sé, þegar stjórnsýslukæra kemur fram og kæruskilyrðum er fullnægt, skylt að endurskoða hina kærðu ákvörðun (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3306). Þá er vert að hafa í huga að ákvæði sem mæla fyrir um rétt borgaranna til að fá ákvarðanir stjórnvalda endur­skoðaðar með þeim hætti sem gert er í lögum nr. 40/1991 og 85/2015 eru almennt byggð á sjónarmiðum um réttaröryggi og réttarvernd borgaranna í samskiptum þeirra við stjórnvöld.

Úrskurðir æðri stjórnvalda í kærumálum, þ.e. málum þar sem stjórnvaldsákvörðun hefur verið kærð til slíks stjórnvalds í því skyni að fá hana fellda úr gildi eða breytt, eru af tvennum toga. Annars vegar getur máli lokið með efnisúrskurði, svo sem um hvort ákvörðun er staðfest eða ógilt að hluta eða öllu leyti. Hins vegar getur verið um að ræða úrskurð um frávísun máls ef ekki eru fyrir hendi forsendur til þess að fjalla um það efnislega (sjá álit umboðsmanns Alþingis 31. desember 2019 í máli nr. 9989/2019 og einnig til hliðsjónar Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin, skýringarrit, bls. 284 og J. Garde o.fl.: Forvaltningsret. Almindelige emner, 4. útg., bls. 334). Þegar stjórn­sýslukæra uppfyllir ekki kæruskilyrði, s.s. ef kæra berst ekki innan kærufrests eða engin stjórnvaldsákvörðun liggur fyrir í máli við­komandi, er æðra stjórnvaldi þannig að öllu jöfnu rétt að vísa máli frá og kemur það þá ekki til efnislegrar meðferðar að svo búnu. Sé það hins vegar afstaða æðra stjórnvaldsins að hin kærða ákvörðun sé haldin annmörkum m.t.t. efnis eða málsmeðferðar kemur til álita hvort rétt sé að ógilda eða breyta henni.

Verði það niðurstaða æðra stjórnvalds að ógilda eða breyta ákvörðun falla réttar­áhrif hennar niður og fer það þá eftir atvikum og lagagrundvelli máls hvort tekin er ný efnisleg ákvörðun. Hér athugast að ákvæði 6. gr. laga nr. 40/1991 setja úrskurðarnefnd velferðarmála takmörk að þessu leyti til samræmis við almennar reglur stjórnsýsluréttarins. Sé hin kærða ákvörðun felld úr gildi án þess að ný sé tekin af hinu æðra stjórnvaldi getur það vísað málinu til nýrrar með­ferðar hjá hinu lægra setta stjórnvaldi með það fyrir augum að það taki nýja lögmæta ákvörðun. Æðra stjórnvaldið hefur þannig nokkuð svigrúm, innan marka laga, til þess að meta hvaða afleiðingar annmarki á málsmeðferð og ákvörðunartöku lægra setta stjórnvaldsins hefur að þessu leyti, og þá með hliðsjón af eðli annmarkans, möguleikum þess til að bæta sjálft úr honum og hagsmunum málsaðilans (sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns 1. júlí 2005 í máli nr. 4275/2004).

Það leiðir af framangreindu að við þær aðstæður að ákvörðun er af æðra stjórnvaldi talin ógildanleg vegna annmarka er lúta að efni hennar eða málsmeðferð á lægra stjórnsýslustigi nær svigrúm þess ekki til þess að kærumáli sé vísað frá og þá með þeim afleiðingum að til þess sé ekki tekin efnisleg afstaða. Athugast í því sambandi að ekki fer á milli mála að valdþurrð telst annmarki á stjórnvaldsákvörðun sem leitt getur til ógildis eða ógildingar hennar.

Áður er rakið að úrskurðarnefnd velferðarmála lagði til grundvallar fyrri úrskurði sínum í máli A að deildarstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarkaupstaðar hefði ekki haft heimild til fullnaðarafgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning.  Við þessar aðstæður bar nefndinni því að meta hvaða réttaráhrif sú valdþurrð hefði, svo sem hvort sú ákvörðun sem deildarstjórinn hafði engu að síður tekið ætti að halda réttaráhrifum sínum, eða hvort hún yrði felld úr gildi og málinu þá eftir atvikum vísað heim til nýrrar með­ferðar hjá sveitar­félaginu. Svo sem áður er rakið tók nefndin hins vegar enga afstöðu til þessara atriða í úrskurðinum.

Svo sem áður greinir verður ráðið af síðari úrskurði nefndarinnar í máli A að ákvörðun deildarstjórans hafi haldið réttaráhrifum sínum þrátt fyrir þá valdþurrð sem vikið hafði verið að í fyrri úrskurði hennar. Að mínu mati var sú afstaða nefndarinnar í berlegu ósamræmi við þá fyrri niðurstöðu hennar að fjalla ekki efnislega um kæru A í fyrra málinu heldur vísa henni frá á áðurgreindum forsendum. Í heild sinni leiddi þetta misræmi í vinnubrögðum nefndarinnar til þess að A naut ekki þess réttaröryggis sem fyrrgreindar reglur laga nr. 85/2015, svo og almennar reglur stjórnsýsluréttar um stjórnsýslukæru, gerðu ráð fyrir.

  

5 Réttaröryggishlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála

Úrskurðarnefnd velferðarmála er sem æðra stjórnvaldi ætlað að sinna eftirlits- og réttaröryggishlutverki vegna mála sem kærð eru til hennar. Þegar nefndinni berst kæra leiðir af hlutverki hennar að hún þarf að gæta að því, almennt og í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga, hvort lagður hafi verið réttur grundvöllur að því máli sem skotið hefur verið til hennar og þá í samræmi við þær reglur sem gilda á viðkomandi réttarsviði. Þar áréttast að af þessu hlutverki nefndar­innar sem sérhæfðs fjölskipaðs kæru­stjórnvalds leiðir að gera verður ríkari kröfur til málsmeðferðar hennar en þeirra stjórn­valda sem taka ákvörðun á fyrsta stjórnsýslu­stigi, m.a. með tilliti til þess hvort nefndin hafi endurskoðað með viðhlítandi hætti hvort meðferð máls á fyrri stigum hafi verið fullnægjandi, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis 28. febrúar 2022 í máli nr. 11237/2021.    

Í þessu sambandi hefur vakið athygli mína að í niðurstöðu fjölskylduráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar 19. janúar 2021 er frávísun á erindi A sögð byggð á 19. gr. reglna Hafnarfjarðarkaupstaðar um sérstakan húsnæðisstuðning og þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í greinargerð til nefndar­innar í tilefni af kæru A vísaði ráðið jafnframt til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Téð lagaákvæði eiga þó ekki við um málskot innan stjórnsýslu sveitarfélags og reglur sveitarfélagsins geta ekki vikið til hliðar gildandi lagareglum um endurupptöku, þ.m.t. um tímafresti.

Ég tel að framangreind atriði í málatilbúnaði sveitarfélagsins hefðu átt að gefa nefndinni tilefni til að kanna frekar á hvaða grundvelli sveitar­félagið taldi sig hafa afgreitt málið og bregðast þá við með viðeigandi hætti.

  

V Niðurstaða

Það er álit mitt að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli A 19. ágúst 2021 í máli 199/2021 hafi ekki verið reistur á réttum lagalegum grundvelli. Sú niðurstaða byggist einkum á því að nefndin hafði litið svo á við fyrri úrskurð sinn vegna máls A að deildarstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarkaupstaðar hefði ekki haft heimild til fullnaðar­afgreiðslu umsóknar hans um sérstakan húsnæðisstuðning. Í síðari úrskurði sínum gat nefndin því ekki lagt til grundvallar að með synjun deildarstjórans við umsókninni hefði tekið að líða frestur til að bera málið undir þar til bæran aðila innan sveitarfélagsins, þ.e. fjölskylduráð. Án tillits til þessa tel ég einnig að við meðferð á fyrri kæru A til nefndarinnar hefði henni verið rétt að taka efnislega afstöðu til þess hvaða réttaráhrif valdþurrð deildarstjórans hafði og beina málinu í réttan farveg hjá sveitarfélaginu. Að lokum tel ég að málsmeðferð sveitarfélagsins og málatilbúnaður þess fyrir nefndinni hefði átt að gefa henni tilefni til að kanna betur á hvaða grundvelli sveitar­félagið taldi sig hafa afgreitt málið og bregðast þá við með viðeigandi hætti.

Það eru tilmæli mín til nefndarinnar að hún taki mál A til meðferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá honum, og leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem lýst er í álitinu. Jafnframt mælist ég til þess að framvegis verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram.

Hafnarfjarðarkaupstað er til upplýsingar sent afrit af álitinu.