Málefni fatlaðs fólks. Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Heilbrigðismál.

(Mál nr. F82/2018)

Umboðsmaður hóf athugun á málefnum vistheimilisins Bjargs á Seltjarnarnesi, einkum m.t.t. óvissu um framtíð og rekstrarfyrirkomulag þess. Voru þá höfð í huga áhrif þessara atriða á íbúa heimilisins og hvort þeir nytu lögbundinna réttinda og þjónustu skv. stöðu sinni.

Samkvæmt upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu fyrri part árs 2023 var enn unnið að því að finna viðunandi framtíðarlausn á rekstri Bjargs. Leitað hefði verið eftir samvinnu við Seltjarnarnes­bæ um fyrirkomulag rekstursins en ekki hefði fundist farsæl lausn þar um. Reksturinn væri fjármagnaður til loka árs 2024 og allir íbúar hefðu fengið greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun frá miðju ári 2019. 

Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu. Áréttaði hann þó mikilvægi þess að sem allra fyrst yrði fundin lausn til framtíðar um rekstur Bjargs og þá með hagsmuni íbúanna í huga. Einnig var bent á tryggja bæri að íbúar heimilisins nytu þeirrar þjónustu sem þeir ættu rétt á lögum samkvæmt og þá án tillits til ágreinings sem kynni að vera milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig standa bæri að rekstri Bjargs. Óskað var eftir að ráðuneytið upplýsti að eigin frumkvæði um stefnumarkandi ákvarðanir viðvíkjandi málefnum Bjargs.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og innviðaráðuneytis 10. maí 2023.

  

   

I

Hér með tilkynnist að ég hef ákveðið að ljúka athugun embættisins á málefnum vistheimilisins Bjargs í Seltjarnarnesbæ. Við athugunina voru einkum höfð í huga þau áhrif sem óvissa um framtíð og rekstrarfyrirkomulag vistheimilisins hefði fyrir íbúa Bjargs og hvort þeir nytu lögbundinna réttinda og þjónustu samkvæmt stöðu sinni.

Tilefni athugunarinnar var umfjöllun í fjölmiðlum árið 2018 um vist­heimilið þar sem m.a. kom fram að Hjálpræðisherinn hefði rekið Bjarg á grundvelli samnings við ríkið. Við yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitar­­félaga hefði fjármagn, sem áður fór til reksturs Bjargs, verið flutt frá ráðuneyti félagsmála til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Viðræður hefðu staðið yfir lengi við Seltjarnarnesbæ um rekstur Bjargs en þær ekki skilað árangri. Þá kom fram að íbúar Bjargs nytu ekki örorkulífeyris heldur fengju þeir vasapeninga þar sem þeir teldust búa á stofnun. Í þessu samhengi fékk umboðsmaður ekki fyllilega ráðið hvert rekstrarfyrirkomulag vistheimilisins væri, þ.e. hvort um væri að ræða heilbrigðisstofnun eða heimili einstaklinga.

   

II

Af þessu tilefni var ráðuneyti félagsmála ritað bréf 22. nóvember 2018 þar sem óskað var upplýsinga um rekstrarfyrirkomulag vistheimilisins. Í svarbréfi þess 29. mars 2019 kom m.a. fram að ráðuneytið liti ekki á úrræðið sem heilbrigðisstofnun. Íbúar þess hefðu þó ekki þegið þjónustu frá Seltjarnarnesbæ á grundvelli laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, eða laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Gengið hefði verið út frá því að þegar núverandi rekstraraðili hætti rekstri heimilisins myndu skyldur sveitarfélagsins til að sinna þjónustu á grundvelli téðra laga virkjast. Seltjarnarnesbær hefði hins vegar svarað því til að bærinn myndi ekki taka við rekstri heimilisins. Vegna þeirrar óvissu sem upp væri komin um þjónustu við íbúana á Bjargi hefði ráðuneytið ákveðið að gera samning við Mannvirðingu ehf. í lok árs 2018 um rekstur og þjónustu heimilisins til allt að eins árs til að tryggja öryggi íbúanna. Þá hefði málið verið sent ráðuneyti sveitarstjórnarmála til umfjöllunar.

Á grundvelli þessara upplýsinga var samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu ritað bréf 10. apríl 2019 þar sem óskað var eftir því að umboðsmaður yrði upplýstur um meðferð málsins hjá ráðuneytinu. Í svarbréfum þess 29. apríl og 30. september þess árs kom m.a. fram að ráðuneytið hefði tilkynnt Seltjarnarnesbæ að vanrækti sveitarfélagið skyldur sínar gagnvart íbúum vist­heimilis­ins þegar núverandi rekstraraðili léti af störfum myndi ráðuneytið beita sveitar­félagið þvingunarúrræðum á grundvelli 116. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, til að knýja á um úrbætur.

Í kjölfar upplýsinga frá ráðuneyti félagsmála síðla árs 2019 um að ráðuneytið hefði skrifað undir samning við RR ráðgjöf, sem væri ætlað að greina valkosti og móta tillögur um fyrirkomulag framtíðarbúsetu þeirra einstaklinga sem byggju á Bjargi, var ákveðið að fylgjast áfram með þróun mála að þessu leyti. Af því tilefni voru ráðuneytinu næstu ár reglulega rituð bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um stöðu málsins. Í svörum ráðuneytisins var upplýst um að ráðuneytið ynni, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, að langtímaáætlun um rekstur Bjargs auk þess sem samhliða væru í gangi viðræður við rekstraraðila og nýja eigendur húsnæðisins um langtímasamninga.

Í síðasta svar­bréfi ráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns 23. febrúar 2023 kom fram að ráðuneytið væri enn að vinna að því að finna viðunandi framtíðarlausn á rekstri Bjargs. Leitað hefði verið eftir samvinnu við Seltjarnarnes­bæ um fyrirkomulag rekstursins en ekki hefði fundist farsæl lausn þar um. Að óbreyttu væri gert ráð fyrir því að Mannvirðing ehf. héldi áfram að reka starfsemi vistheimilisins til að tryggja stöðugleika í þjónustunni. Þá væri reksturinn fjármagnaður á grund­velli samkomulags milli Sambands íslenskra sveitarfélaga, mennta- og barna­málaráðherra og innviðaráðherra sem væri í gildi til ársloka 2024. Samkvæmt viðbótarupplýsingum sem umboðsmaður óskaði eftir og bárust frá ráðuneytinu 8. maí sl. hafa allir íbúar vistheimilisins frá miðju ári 2019 fengið greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun. Hefur það fyrirkomulag að greiða þeim ráðstöfunarfjár vegna dvalar á sjúkrahúsi, dvalar- eða hjúkrunarheimili því verið lagt af.

     

III

Í ljósi þeirra áforma félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins að finna framtíðarlausn á rekstri vist­heimilisins Bjargs, þess að búið er að fjármagna áframhaldandi rekstur til ársloka 2024 og fyrirkomulagi greiðslna til íbúa Bjargs hefur verið breytt tel ég ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu. Engu að síður tel ég tilefni til að árétta mikilvægi þess að sem allra fyrst verði fundin lausn til framtíðar um rekstur Bjargs og þá með hagsmuni íbúa þess í huga, einkum til að takmarka þau áhrif á öryggi þeirra sem óstöðugleiki og óvissa um reksturinn er til þess fallin að valda. Einnig bendi ég á að tryggja ber að íbúar heimilisins njóti þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt og þá án tillits til ágreinings sem kann að vera milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig beri að standa að rekstri Bjargs.

Áfram verður fylgst með málinu af hálfu embættisins og þeirri vinnu sem áformuð er. Er þess því óskað að ráðuneytið upplýsi umboðsmann að eigin frumkvæði um stefnumarkandi ákvarðanir viðvíkjandi málefnum Bjargs.