Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. F135/2023)

Umboðsmaður hóf athugun á viðbrögðum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins í tilefni af tiltekinni úrskurðarframkvæmd úrskurðarnefndar velferðarmála.  

Í svari ráðuneytisins kom fram að ráðherra hefði brugðist við og því ekki ástæða til að halda athuguninni áfram.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins 22. maí 2023.

  

  

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið athugun sinni á viðbrögðum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins í tilefni af tiltekinni úrskurðaframkvæmd úrskurðarnefndar velferðarmála. Nánar tiltekið var um að ræða úrskurði nefndarinnar þar sem hún komst að því að 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, ætti sér ekki fullnægjandi stoð í lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar.

Svo sem rakið er í bréfi til ráðuneytisins 25. apríl sl. hafði athygli umboðsmanns nýlega verið vakin á umræddri úrskurðarframkvæmd. Í bréfinu var óskað upplýsinga um hvort ráðuneytinu væri kunnugt um afstöðu úrskurðarnefndarinnar og þá hvort sú vitneskja hafi orðið því tilefni til viðbragða.

Svar félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins barst 10. maí sl. en þar kemur fram að ráðuneytinu sé kunnugt um úrskurðarframkvæmdina og ráðherra hafi þegar undirritað reglugerð þar sem m.a. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 verði felld brott. Reglugerðin verði send til birtingar í Stjórnartíðindum.

Í ljósi þeirra upplýsinga, sem fram koma í svari félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, tel ég ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram.