Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12170/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds.

Af ljósmyndum og öðrum gögnum málsins að dæma varð ekki séð að umbúnaður og frágangur á svæðinu sem bifreiðinni var lagt á gæfi til kynna að það væri ætlað fyrir umferð og stöðu bifreiða. Ekki voru því forsendur til að gera athugasemd við afstöðu Bílastæðasjóðs.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. júní 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 1. maí sl. er lýtur að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 30. mars sl. um álagningu stöðubrotsgjalds sem lagt var á bifreiðina [...] fyrir brot gegn 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í tilkynningu um álagningu stöðubrotsgjaldsins kom fram að brotanúmer væri „25. Gangstétt, gangstígar, umferðareyjar og svipaðir staðir (25)“. Í ákvörðun Bílastæðasjóðs 28. apríl sl., þar sem beiðni yðar um endurupptöku var hafnað, kemur fram sú afstaða að bifreið yðar hafi verið lagt á „svipuðum stöðum“ í skilningi 3. mgr. 28 gr. umferðarlaga. Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við þá niðurstöðu, m.a. þar sem yður hafi borist misvísandi svör af hálfu Reykjavíkurborgar um ástæðu álagningarinnar.

Gögn málsins bárust umboðsmanni 15. maí sl. samkvæmt beiðni þar um.

   

II

Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga má eigi stöðva skráningarskylt ökutæki eða leggja því á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein eða hjólastíg nema annað sé ákveðið, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna. Sama á við um umferðareyjar, grassvæði og aðra svipaða staði.

Í framkvæmd umboðsmanns Alþingis hefur verið lagt til grundvallar að hugtakið „svipaðir staðir“ í skilningi ákvæðisins vísi til þeirra staða eða svæða við vegi, eins og það hugtak er skýrt í umferðarlögum, sem ekki séu ætluð umferð ökutækja eða til þess að bifreiðum verði lagt þar. Þá geti við mat á því hvort bannreglan um „svipaða staði“ eigi við í hverju einstöku tilviki þurft að líta til þess hvort umbúnaður og frágangur við umferðarmannvirki gefi nægilega skýrt til kynna afmörkun milli þeirra svæða sem ætluð eru fyrir umferð og stöðu bifreiða og þeirra svæða þar sem ekki má leggja bifreiðum, sbr. til hliðsjónar bréf umboðsmanns Alþingis 7. september 2012 í máli nr. 7015/2012 sem finna má á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Samkvæmt kvörtun yðar og gögnum málsins, en á meðal þeirra eru ljósmyndir, var bifreið yðar lagt á svæði sem liggur á milli akbrautar og hjólastígs. Þá liggur fyrir að við hinn enda akbrautarinnar við húsnæði Hjálpræðishersins er afmarkað bílastæði. Verður því ekki séð að umbúnaður og frágangur við umrætt svæði gefi til kynna að það sé ætlað fyrir umferð og stöðu bifreiða. Að því virtu tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu Bílastæðasjóðs að bifreiðinni hafi verið lagt í andstöðu við fyrirmæli 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga.

Hvað snertir athugasemdir yðar um ósamræmi í svörum Reykjavíkur-borgar liggur fyrir að í tölvubréfi starfsmanns umhverfis- og skipu-lagssviðs til yðar 5. apríl sl. er þeirri afstöðu lýst að á svæðinu sem um ræðir sé umferðareyja. Þar var yður þó jafnframt leiðbeint um rétt yðar til endurupptöku og var endurupptökubeiðni yðar, líkt áður greinir, hafnað á þeim grundvelli að bifreiðinni hefði var lagt á „svipuðum stöðum“. Þar sem ekki verður ráðið að svar starfsmannsins hafi verið formleg ákvörðun um grundvöll gjaldsins og í ljósi þess að ekki eru að mínu mati efni til að gera athugasemdir við afgreiðslu Bílastæðasjóðs á endurupptökubeiðni yðar tel ég ekki nægilegt tilefni til frekari athugunar að þessu leyti vegna kvörtunar yðar.

   

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.