Samkeppnismál.

(Mál nr. 12174/2023)

Kvartað var yfir matvælaráðuneytinu og Samkeppnisyfirlitinu vegna gagnabeiðni þess síðarnefnda í tengslum við athugun þess sem miðar að því að kortleggja stjórnunar- og eignatengsl sjávarútvegsfyrirtækja.  

Þar sem ekki hafði verið leitað til stjórnar Samkeppniseftirlitsins með erindið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. júní 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 5. maí sl. sem beinist að matvælaráðuneytinu og Samkeppniseftirlitinu. Lýtur kvörtunin að gagnabeiðni Samkeppniseftirlitsins til hlutafélagsins X frá 5. apríl sl. Sú beiðni mun vera liður í sérstakri athugun Samkeppniseftirlitsins sem miðar að því kortleggja stjórnunar- og eignatengsl sjávarútvegsfyrirtækja, sbr. d-lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Í tilkynningu sem birt var á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins 5. október sl. segir að athugunin sé hluti af heildarstefnumótun í sjávarútvegi á vettvangi matvælaráðuneytisins. Í tilkynningu á vefsíðu ráðuneytisins, sem laut m.a. að stefnumótun ráðuneytisins, sem birt var samdægurs segir að ráðuneytið hafi „gert samning við Samkeppniseftirlitið um að tryggja fjárhagslegt svigrúm til að stofnunin geti ráðist í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi.“ Samkvæmt tilkynningunni verður skýrsla stofnunarinnar afhent ráðuneytinu eigi síðar en 31. desember nk.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að eðlilegt sé að stjórnvöld fái tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er með kvörtun til utanaðkomandi eftirlitsaðila á borð við umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 annast Samkeppniseftirlitið í umboði menningar- og viðskiptaráðherra eftirlit samkvæmt lögunum og daglega stjórnsýslu á því sviði sem þau ná til. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar fer þriggja manna stjórn, sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, með yfirstjórn stofnunarinnar. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að hlutverk stjórnarinnar sé m.a. að móta áherslur í starfi stofnunarinnar og fylgjast með starfsemi og rekstri hennar. Jafnframt skuli bera undir stjórn meiri háttar efnislegar ákvarðanir til samþykktar eða synjunar.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og í ljósi þess hlutverks sem stjórn Samkeppniseftirlitsins er ætlað að hafa með höndum tel ég rétt að afstaða stjórnar stofnunarinnar liggi fyrir áður en kvörtun yðar getur komið til skoðunar af hálfu embættis umboðsmanns. Er þá haft í huga að stjórninni gefist kostur á að taka afstöðu til þess hvort erindið heyri undir starfssvið hennar og eftir atvikum bregðast við með þeim hætti sem hún telur tilefni til. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að X hafi freistað þess að bera athugasemdir félagsins undir stjórn Samkeppniseftirlitsins eða að afstaða hennar liggi fyrir með öðrum hætti. Í ljósi þessa og með vísan til þess sem rakið er hér að framan tel ég ekki rétt að taka kvörtunina til frekari athugunar að svo stöddu. Ég tek hins vegar fram að freisti félagið þess að leita til stjórnar stofnunarinnar og þér teljið það enn beitt rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar er unnt að leita til mín á ný innan eins árs frá því afstaða hennar liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Jafnframt skal tekið fram að kvörtun sem uppfyllir ekki þau skilyrði sem gerð eru í lögum nr. 85/1997 fyrir því að umboðsmaður geti tekið hana til meðferðar getur allt að einu leitt til þess að mál sé tekið upp að eigin frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5. gr. sömu laga. Athugasemdir yðar við samning matvælaráðuneytisins við Samkeppniseftirlitið um athugun þess á stjórnar- og eignartengslum í sjávarútvegi kunna því að verða hafðar til hliðsjónar við mat á því hvort tilefni sé til að umboðsmaður taki málið til nánari athugunar að eigin frumkvæði. Ég tek það fram að verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Lýk ég því umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.