Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 12183/2023)

Kvartað var yfir því að ekki hefði fengist heimild til að ljúka afplánun óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar undir rafrænu eftirliti.

Þar sem niðurstaða stjórnvalda lá ekki fyrir í málinu voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. júní 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 9. maí sl. sem beinist að því að yður hafi ekki verið heimilað að ljúka afplánun óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar undir rafrænu eftirliti, eða á svonefndu ökklabandi.

Í tilefni af kvörtun yðar hafði starfsmaður embættisins samband við yður símleiðis 22. maí sl. þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum um kvörtunarefnið. Þar kom fram að Fangelsismálastofnun hefði umsóknir yðar um afplánun á áfangaheimili Verndar og undir rafrænu eftirliti til meðferðar. Í leiðbeiningum frá stofnuninni til yðar hafi þó komið fram að vegna stutts tíma sem stæði eftir af afplánun yðar gæfist yður ekki kostur á að ljúka afplánun undir rafrænu eftirliti. 

Fjallað er um fullnustu refsinga í samnefndum lögum nr. 15/2016. Samkvæmt 17. gr. laganna er í fangelsi vistaður sá sem dæmdur er til fangelsis­refsingar, afplánar vararefsingu fésekta eða sætir gæsluvarðhaldi. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum getur Fangelsismálastofnun þó leyft fanga að afplána hluta refsingarinnar utan fangelsis. Í 1. mgr. 31. gr. laganna segir að stofnunin geti leyft fanga að afplána hluta refsitímans utan fangelsis, enda stundi hann vinnu, nám, starfsþjálfun eða meðferð sem Fangelsismálastofnun hefur samþykkt og er liður í aðlögun hans að samfélaginu að nýju, búi á sérstakri stofnun eða heimili sem stofnunin hefur gert samkomulag við og sé þar undir eftirliti. Um rafrænt eftirlit er fjallað í 32. til 34. gr. laganna en þar segir í 1. mgr. 32. gr. að þegar dæmd refsing er 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi eða lengri geti Fangelsismálastofnun leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis, enda hafi hann á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans.  Enn fremur er kveðið á um kæruheimild til ráðuneytisins í 1. mgr. 95. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 en þar segir að ákvarðanir samkvæmt lögunum séu kæranlegar til ráðuneytis.   

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni. Í ljósi þess að ekki liggur fyrir niðurstaða framangreindra stjórnvalda eru ekki uppfyllt skilyrði til þess að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Ef þér eruð enn ósáttir að fenginni niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins getið þér leitað til mín að nýju.

 Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.