Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 12217/2023)

Kvartað var yfir því að fangavörður hefði meinað unnustu að heimsækja fanga á Litla-Hraun. Hún hefði verið komin með heimsóknarleyfi en verið synjað um aðgang m.a. með vísan til að hún væri undir áhrifum.  

Ekki varð ráðið að athugasemdum hefði verið komið á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og fengin viðbrögð frá þeim, til að mynda forstöðumanni fangelsisins eða Fangelsismálastofnunar né dómsmálaráðuneytis og því ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um erindið. 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. júní 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar er barst umboðsmanni 31. maí sl. yfir því að fangavörður hafi meinað kærustu yðar að heimsækja yður í fangelsið Litla-Hrauni. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni hafði hún fengið samþykkta glerheimsókn en við komuna í fangelsið var henni synjað um aðgang m.a. með vísan til þess að hún væri undir áhrifum.

Af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir m.a. að umboðs­maður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Byggir ákvæðið á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsan­lega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að með kvörtun yðar fylgdu ekki frekari gögn og að öðru leyti verður ekki fyllilega ráðið af henni að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og fengið viðbrögð við þeim, til að mynda til forstöðumanns fangelsisins eða Fangelsismálastofnunar, sem samkvæmt 5. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, hefur umsjón með rekstri fangelsa. Þá bendi ég yður á að samkvæmt 4. gr. sömu laga fer dómsmálaráðherra með yfirstjórn fangelsis­mála en ákvarðanir samkvæmt lögunum eru kæranlegar til ráðuneytisins nema annað sé tekið fram, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna.

Þar sem þér getið freistað þess að leita til téðra stjórnvalda með erindi yðar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu og lýk því meðferð málsins með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Teljið þér yður enn rangindum beittan að fenginni endanlegri niðurstöðu téðra stjórnvalda getið þér leitað til mín a nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.