Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Húsnæðismál. Félagslegar íbúðir. Húsaleiga. Uppsögn húsaleigusamnings.

(Mál nr. 12106/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Reykjavíkurborgar um að afturkalla samþykkt á biðlista eftir félagslegu húsnæði.  

Af úrskurði nefndarinnar og gögnum málsins var ljóst að viðkomandi væru í vanskilum við Félagsbústaði og uppfylltu því ekki reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Ekki var því tilefni til að gera athugasemd við niðurstöðu nefndarinnar og ákvörðun borgarinnar. Hvað hugsanlegan ágreining um lok leigusamnings og tilurð vanskilanna benti umboðsmaður á að húsaleigulög tækju til þess og ágreining mætti bera undir kærunefnd húsamála.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. júní 2023.

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 21. mars sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 17. mars sl. í máli nr. 570/2022. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Reykjavíkurborgar 12. október 2022 um að afturkalla samþykkt yðar og B á biðlista eftir félagslegu leigu­húsnæði. Gögn málsins bárust frá úrskurðarnefnd velferðarmála 3. apríl sl.

  

II

1

Í lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, er mælt fyrir um úrræði fyrir þá sem eiga við húsnæðisvanda að etja. Markmið þeirra er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 8. tölulið 2. gr. sömu laga felur félagsþjónusta m.a. í sér þjónustu, aðstoð og ráðgjöf í tengslum við húsnæðis­mál.

Um húsnæðismál er fjallað í XII. kafla laganna. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir hús­næði sögum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félags­legra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Um húsnæði á vegum sveitar­félaga er síðan fjallað í 47. gr. sömu laga. Þar segir í 1. málslið 1. mgr. að sveitarstjórnir skuli setja sér reglur á grundvelli leiðbeininga ráðherra skv. 4. mgr. 45. gr. um úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga samkvæmt lögunum, þar á meðal um meðferð umsókna, sem hafa það að markmiði að tryggja þeim sem á þurfa að halda félagslegt íbúðarhúsnæði og lágmarka biðtíma eftir slíku húsnæði eins og kostur er.

Reykjavíkurborg hefur sett sér reglur um félagslegt leigu­húsnæði sem tóku gildi 1. júní 2019. Með félagslegu leiguhúsnæði í skilningi reglnanna er átt við almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og þjónustuíbúðir aldraðra, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra. Samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 2. gr. er almennt félagslegt leiguhúsnæði ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá fyrir sér húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa.

Í 4. gr. reglnanna er fjallað um skilyrði fyrir því að umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði verði samþykkt á biðlista. Þar segir í 1. mgr. að umsækjandi þurfi að uppfylla öll skilyrði greinarinnar til að umsókn verði samþykkt á biðlista. Þá segir í 3. mgr. 4. gr. að umsókn umsækjanda sem sé í vanskilum við Félagsbústaði hf. verði því aðeins samþykkt hafi umsækjandi gert full skil á skuldum eða um þær hafi verið samið. Sama gildi um umsókn um milliflutning. Þá skuli umsækjanda leiðbeint um þau úrræði sem honum standi til boða vegna fjárhagserfiðleika.

Um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um samþykkt á biðlista er fjallað í 24. gr. reglnanna. Þar segir í 1. mgr. að réttur Reykjavíkurborgar til afturköllunar ákvörðunar um samþykkt á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði sé bundinn við þau tilvik þegar umsækjandi uppfylli ekki lengur skilyrði reglnanna, eftir atvikum skilyrði 4. gr., 7. gr., 11. gr. og 14. gr. reglnanna.

  

2

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér séuð ósáttir við að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi staðfest ákvörðun Reykjavíkurborgar 12. október sl. um að afturkalla samþykkt yðar og B á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Eins og vikið hefur verið að hér að framan er ljóst af 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði að umsækjandi þarf að uppfylla öll skilyrði greinarinnar til að umsókn verði samþykkt á biðlista. Þá segir í 3. mgr. 4. gr. reglnanna að umsókn umsækjanda sem sé í vanskilum við Félagsbústaði hf. verði því aðeins samþykkt hafi umsækjandi gert full skil á skuldum eða um þær hafi verið samið. Af úrskurði nefndarinnar, og meðfylgjandi gögnum, verður ráðið að þér og B séuð í vanskilum við Félagsbústaði hf. vegna október, nóvember og desember 2019 sem og janúar 2020. Þá verður ekki séð að þér og B hafi gert upp né samið um vanskilin við Félagsbústaði hf. Af þessu má vera ljóst að þér uppfyllið ekki framangreint skilyrði 3. mgr. 4. gr. framangreindra reglna.

Með vísan til þessa tel ég ekki efni til þess að gera athugasemdir við að horft hafi verið til vanskila yðar og B við Félags­bústaði hf. þar sem ekki verður annað séð en að slíkt sé í samræmi við framangreindar reglur sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, á grund­velli leiðbeininga ráðherra, samkvæmt 4. mgr. 45. gr. sömu laga, um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga samkvæmt lögunum. Ég tel því ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að afturkalla samþykkt yðar og B á biðlista eftir félagsleigu leiguhúsnæði.

  

III

Líkt og fram kemur í úrskurði nefndarinnar verður ekki annað ráðið en að ágreiningur sé um lok leigusamningsins og tilurð vanskilanna. Vegna þessa bendi ég yður á að húsaleigulög gilda um leigusamninga um afnot af húsnæði eða hluta af húsnæði gegn endur­gjaldi, með ákveðnum undan­tekningum, sbr. 1. mgr. 1. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Ágreining milli leigjanda og leigusala um gerð og/eða framkvæmd leigusamnings er hægt að bera undir kærunefnd húsamála, sbr. 1. mgr. 85. gr. laganna.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, er gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til með­ferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni. Í samræmi við það hefur þeirri starfsvenju verið fylgt að stjórnvald sem fer með eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til þess að beita þeim heimildum sínum áður en kvörtun er tekin til meðferðar.

Ef framangreindur skilningur er réttur og ágreiningur er uppi um lok leigusamningsins og tilurð vanskilanna bendi ég yður á að freista þess að bera málið undir kærunefnd húsamála. Ef þér teljið yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis.