Sjávarútvegsmál. Úthlutun byggðakvóta. Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda.

(Mál nr. 12126/2023)

Kvartað var yfir úrskurði matvælaráðuneytisins  sem staðfesti ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um  úthlutun byggðakvóta. Einnig að ráðuneytið hefði hafnað kröfu um að úthlutun byggðakvóta yrði frestað þar til afgreiðslu stjórnsýslukæru væri lokið. Og ennfremur var kvartað yfir meðferð Fiskistofu á beiðni um aðgang að gögnum.  

Ekki var deilt um að við umsókn voru ekki uppfyllt skilyrði reglugerðar fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2021/2022. Staðfesting ráðuneytisins á ákvörðun Fiskistofu hafi verið í samræmi við þær reglur sem auglýstar höfðu verið og leggja bar til grundvallar og því ekki tilefni til athugasemda af hálfu umboðsmanns. Þar sem beiðni um gögn var svarað í kjölfar eftirgrennslan umboðsmanns var ekki heldur ástæða til að aðhafast vegna þess.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. júní 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A ehf. 29. mars sl. sem beinist að Fiskistofu og matvælaráðuneytinu. Lýtur kvörtunin annars vegar að úrskurði matvælaráðuneytisins 29. ágúst 2022 þar sem ákvörðun Fiskistofu 26. apríl 2022 um að hafna umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta á X var staðfest. Hins vegar lýtur kvörtunin að ákvörðun ráðuneytisins 15. júní 2022 þar sem hafnað var kröfu félagsins um að úthlutun byggðakvóta yrði frestað þar til lokið yrði við afgreiðslu  stjórnsýslukæru félagsins. Þá má ráða af kvörtuninni að hún beinist einnig að meðferð Fiskistofu á beiðni umbjóðanda yðar 9. maí 2022 um aðgang að gögnum.

Í kvörtuninni kemur m.a. fram að verulegir annmarkar hafi verið á ákvörðun Fiskistofu og úrskurði matvælaráðuneytisins þar sem fyrrnefnda stjórnvaldið hafi ekki gætt að lögboðnum skyldum sínum um veitingu leiðbeininga og rannsókn málsins. Er að því leyti vísað til þess að umbjóðanda yðar hafi skort leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, en Fiskistofa hafi ekki leiðbeint félaginu um að sækja um slíkt leyfi áður en umsóknarfrestur liði.

Með bréfum 26. apríl sl. til Fiskistofu og matvælaráðuneytisins var óskað eftir afritum af öllum gögnum málsins hjá ráðuneytinu og að umboðsmanni yrðu veittar upplýsingar um hvort fyrrgreind beiðni umbjóðanda yðar hefði borist Fiskistofu og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu hennar. Umbeðin gögn og svör bárust með bréfi ráðuneytisins 10. maí sl. og bréfi Fiskistofu sama dag.

  

II

1

Um úthlutun byggðakvóta er fjallað í 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Þar segir m.a. í 1. mgr. að ráðherra sé heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laganna í tilteknum tilvikum sem talin eru upp í 1. og 2. tölulið málsgreinarinnar, þ.e. annars vegar til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda en hins vegar til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun.

Í 5. mgr. 10. gr. laganna segir að ráðherra setji í reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skilyrðin skulu m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar. Á grundvelli ákvæðisins setti þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra reglugerð nr. 995/2021 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, þ.e. fyrir það tímabil sem umsókn umbjóðanda yðar beindist að. Í reglugerðinni kemur fram það almenna skilyrði í 1. gr. að fiskiskipið sem sótt er um aflamark fyrir hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006 en þar segir að enginn megi stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi.

  

2

Í málinu er ekki deilt um að við umsókn uppfyllti umbjóðandi yðar ekki framangreint skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021 fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2021/2022. Í auglýsingu Fiskistofu 1. apríl 2022, um umsókn um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 fyrir X og fleiri byggðarlög, var vísað til ákvæða reglugerðar nr. 995/2021. Jafnframt kom þar fram að útgerðir væru beðnar að huga sérstaklega að því að skip verði að hafa gilt veiðileyfi við lok umsóknarfrests. Þá verður ráðið af gögnum málsins að ráðuneytið hafi fenginni stjórnsýslukæru umbjóðanda yðar tekið afstöðu til þess hvort fresta ætti úthlutun byggðakvótans á X að hluta eða öllu leyti í samræmi við lokamálslið 8. gr. 10. gr. laga nr. 116/2006.

Hvað snertir athugasemdir í kvörtuninni um úrskurð ráðuneytisins og málsmeðferð Fiskistofu skal tekið fram að skylda stjórnvalda til leiðbeiningar felur almennt ekki í sér skyldu til að taka forákvörðun um mál (sjá Páll Hreinsson: Stjórnsýsluréttur – málsmeðferð, bls. 429). Að því gættu og eftir að hafa kynnt mér úrskurð ráðuneytisins og gögn málsins að öðru leyti tel ég ekki líkur á því að frekari athugun af minni hálfu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins. Verður enda ekki annað séð en að staðfesting ráðuneytisins á ákvörðun Fiskistofu hafi verið í samræmi við þær reglur sem auglýstar höfðu verið og Fiskistofu bar að leggja til grundvallar, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, þ. á m. að umsækjandi hefði við lok umsóknarfrests leyfi til veiða í atvinnuskyni. Tel ég því ekki tilefni til athugasemda við þá niðurstöðu ráðuneytisins að staðfesta hina kærðu ákvörðun, við meðferð kærumálsins að öðru leyti eða þá niðurstöðu ráðuneytisins að ekki væru efni til að fresta úthlutun byggðakvóta þar til afgreiðslu stjórnsýslukæru umbjóðanda yðar yrði lokið.

  

Í svari Fiskistofu 10. maí sl. við fyrirspurn umboðsmanns um afgreiðslu gagnabeiðni umbjóðanda yðar kemur fram að farist hafi fyrir að svara henni auk þess sem færðar eru fram hugsanlegar skýringar á því. Þá segir að beiðninni hafi nú verið svarað með tölvubréfi til umbjóðanda yðar 10. maí sl. Þar sem kvörtun yðar lýtur að þessu leyti að töfum á afgreiðslu beiðni um aðgang að gögnum, og nú liggur fyrir að hún hefur verið afgreidd, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni.

  

III

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.