Atvinnuleysistryggingar. Niðurfelling bótaréttar.

(Mál nr. 12160/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.  

Af gögnum málsins var ljóst að við meðferð málsins hjá Vinnumálastofnun gaf viðkomandi þá skýringu á því að hann hefði sagt upp vinnu að hann ætlaði í háskólanám. Þau áform gengu ekki eftir. Niðurstaða nefndarinnar byggðist á því að þetta hefðu einungis verið áform og þar af leiðandi ekki gild ástæða til að segja upp starfi í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemd við þetta og að fullnægjandi mat hefði verið lagt á atvik málsins á grundvelli viðeigandi lagaákvæða og þeirra gagna sem fyrir lágu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. júní 2023.

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 25. apríl sl., sem lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 13. apríl sl. í máli nr. 130/2023. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt yðar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið úrlausn nefndarinnar vera ranga, auk þess sem þér látið í ljós almennar athugasemdir við fyrrnefnt ákvæði laga nr. 54/2006, þar sem það feli í sér refsingu við þær aðstæður að einstaklingar segi sjálfir upp vinnu sinni.

Í tilefni af kvörtuninni var úrskurðarnefnd velferðarmála ritað bréf, 10. maí sl., þar sem óskað var eftir gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust 11. maí sl.

  

II

1

Í X. kafla laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, er að finna ákvæði um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í 54. gr. laganna er fjallað um tilvik þegar starfi er sagt upp án gildra ástæðna. Tekið er fram í 1. mgr. 54. gr. að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum  en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á. Í athugasemdum við 54. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 54/2006 er áréttað að greinin feli í sér matskennda lagareglu. Með henni sé Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falla að henni (Alþt. 2005-2006, A-deild, bls. 4675).

Það leiðir af framangreindu að löggjafinn hefur falið Vinnu­mála­stofnun að meta með tilliti til aðstæðna og atvika í máli hverju sinni hvort þær ástæður sem búa að baki því að atvinnuleitandi hefur sagt starfi sínu lausu séu þess eðlis að þær teljist gildar í merkingu 54. gr. laga nr. 54/2006. Þegar löggjafinn hefur með framan­greindum hætti falið stjórnvöldum tiltekið mat lýtur athugun umboðs­manns Alþingis samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, einkum að því hvort gætt hafi verið réttra aðferða við meðferð máls og hvort stjórnvöld hafi byggt ákvörðun sína á málefnalegum sjónar­miðum og forsvaranlegu mati á gögnum máls. Umboðsmaður er hins vegar almennt ekki í aðstöðu til þess að taka slíkt mat stjórnvalda til sjálfstæðrar endurskoðunar.

  

2

Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála var 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 rakin og gerð grein fyrir framanröktum athugasemdum við greinina í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006. Tók nefndin fram að fyrir lægi að þér hefðuð sagt upp starfi yðar án þess að vera með annað starf í boði. Þér hefðuð gefið þær skýringar á uppsögn yðar að þér hefðuð ætlað að undirbúa nám sem þér hygðust skrá yður í. Síðar hefði þó komið í ljós að þér uppfylltuð ekki skilyrði til náms við Háskóla Íslands og þér gætuð ekki greitt skólagjöld við Háskólann í Reykjavík. Var það mat úrskurðarnefndarinnar að áform yðar um nám gætu ekki talist gild ástæða fyrir uppsögn í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006 og að þér hefðuð ekki átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar yðar um atvinnuleysisbætur. Staðfesti nefndin því ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Af gögnum málsins er ljóst að við meðferð máls yðar hjá Vinnumálastofnun gáfuð þér þær skýringar fyrir uppsögn yðar að þér hygðust skrá yður í nám. Síðar greinduð þér frá því að þau áform hefðu ekki gengið eftir. Niðurstaða úrskurðanefndar velferðarmála í máli yðar er reist á því sjónarmiði að sé einungis um áform um nám að ræða, eins og hafi átt við í tilviki yðar, teljist það ekki vera gild ástæða til að segja upp starfi í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Ég tel ekki efni til að gera athugasemdir við að nefndin hafi lagt framangreint sjónarmið til grundvallar í málinu, enda tel ég ekkert fram komið sem bendi til þess að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar þeirri afstöðu nefndarinnar. Ég fæ þá ekki annað ráðið en að fullnægjandi mat hafi verið lagt á atvik málsins á grundvelli viðeigandi lagaákvæða og þeirra gagna sem lágu fyrir.

Að því leyti sem athugasemdir í kvörtun yðar snúa almennt að ákvæði 54. gr. laga nr. 54/2006 bendi ég yður á að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Að því leyti sem kvörtun yðar lýtur beint að efni framangreinds lagaákvæðis tek ég því fram að þar sem löggjafinn hefur með skýrum hætti tekið afstöðu til þessara atriða brestur skilyrði til þess að ég taki þennan þátt kvörtunar yðar til frekari meðferðar.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.