Skipulags- og byggingarmál. Aðalskipulag.

(Mál nr. 12195/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun innviðaráðherra að synja um staðfestingu á breytingum á aðalskipulagi Dalabyggðar varðandi vindorkuver á tveimur jörðum. 

Þar sem meira en ár var liðið frá ákvörðun ráðherra og hún því utan þess ársfrests sem áskilinn er til að kvarta til umboðsmanns voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. júní 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 16. maí sl., fyrir hönd landeigenda að X í Dalabyggð, vegna ákvörðunar innviðaráðherra 5. apríl 2022 um að synja um staðfestingu á breytingum á aðalskipulagi Dalabyggðar varðandi vindorkuver á X og Y. Þá gerið þér jafnframt athugasemdir við breytingar á aðalskipulagi Dalabyggðar sem birtar voru með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. júlí 2022.

  

II

1

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal bera kvörtun fram við umboðsmann innan árs frá því er stjórnsýslu­gerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Í ljósi þess að ákvörðun ráðherra var tekin 5. apríl 2022 er ljóst að kvörtun yðar barst ekki innan þess tímafrests. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar, að því marki sem hún beinist að ákvörðun innviðaráðherra, verði tekin til frekari meðferðar.

  

2

Að því leyti sem kvörtun yðar lýtur að þeim breytingum sem gerðar voru á aðalskipulagi Dalabyggðar í kjölfar ákvörðunar innviðaráðherra skal tekið fram að þér hafið áður leitað til umboðsmanns vegna þeirrar ákvörðunar ráðherra. Í bréfi umboðsmanns til yðar 22. september sl. í máli nr. 11679/2022 kom fram að í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 væri mælt fyrir um að teldi umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gæfi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfyllti ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skyldi hann tilkynna þeim sem kvartað hefði um þá niðurstöðu. Á grundvelli þeirrar lagagreinar, sbr. einnig 5. gr. laganna, hefði umboðsmaður Alþingis töluvert svigrúm til að ákveða hvaða mál hann teldi tilefni til að fjalla um og þá með hvaða hætti, m.a. með tilliti til mikilvægis þeirra, fjölda mála og þeirra takmörkuðu fjárveitinga og mannafla sem hann hefði til umráða. Þar kynni einnig að skipta máli hvort og þá hvaða líkur væru á því að umboðsmaður beindi tilmælum til stjórnvalds sem kynnu að hafa þýðingu fyrir réttarstöðu þess sem kvartað hefði til embættisins.

Í bréfinu kom jafnframt fram að eftir að kvörtun yðar hefði borist hefði Dalabyggð fært skipulagsgögn til samræmis við athugasemdir Skipulagsstofnunar og ákvörðun ráðherra og samkvæmt auglýsingum nr. 835/2022 og 836/2022 í B-deild Stjórnartíðinda hefði stofnunin staðfest breytingarnar á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Af því yrði ekki annað ráðið en að sveitarstjórn Dalabyggðar hefði, á grundvelli þess lögbundna hlutverks sem hún hefði við gerð og afgreiðslu aðalskipulags, ákveðið að una við ákvörðun ráðherra og gera breytingar á aðalskipulagi í samræmi við þær athugasemdir sem fram hefðu komið af hálfu Skipulagsstofnunar og innviðaráðherra. Var það mat umboðsmanns, í ljósi þess hvernig málið væri vaxið og þá sérstaklega í ljósi framvindu þess í kjölfar þess að ákvörðun ráðherra lá fyrir, svo og með tilliti til þess að fyrir lægi að breytingar á aðalskipulaginu vegna iðnaðarsvæða fyrir vindorkuver hefðu verið samþykktar af sveitarstjórn og staðfestar af Skipulagsstofnun, væri ekki nægjanlegt tilefni til að taka kvörtun yðar til meðferðar.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar sem er hér til umfjöllunar og þau gögn sem henni fylgdu fæ ég ekki séð að þær athugasemdir sem þar koma fram og lúta fyrst og fremst að lögmæti ákvörðunar ráðherra 5. apríl 2022, sem eins og fyrr segir fellur utan þess ársfrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, breyti afstöðu minni til kvörtunar yðar eins og hún birtist í bréfi umboðsmanns til yðar 22. september sl. Tel ég því ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.