Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Hvalveiðar. Dýravelferð. Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit.

(Mál nr. 12204/2023)

Kvartað var yfir viðbrögðum matvælaráðuneytisins við kröfu um að ráðherra tæki ákvörðun um að stöðva hvalveiðar á grundvelli þess að þær væru ómannúðlegar. Einnig voru gerðar athugasemdir við stjórnsýslu og eftirlit Heilbrigðiseftirlits Vesturlands í tengslum við starfsemi Hvals hf. og starfsleyfi félagsins.  

Í ljós ákvörðunar ráðherra, tæpum mánuði eftir að kvörtunin barst, að stöðva tímabundið veiðarnar var ekki tilefni til frekari skoðunar umboðsmanns.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. júní 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 23. maí sl., f.h. A. Af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti að viðbrögðum matvælaráðuneytisins við kröfu yðar fyrir hönd samtakanna um að matvælaráðherra tæki ákvörðun um að stöðva hvalveiðar á grundvelli þess að veiðarnar væru ómannúðlegar. Nánar tiltekið gerið þér í kvörtuninni athugasemdir við að ekki hafi verið tekin formleg ákvörðun í málinu af hálfu ráðuneytisins. Þá verður ráðið að gerðar séu athugasemdir við stjórnsýslu og eftirlit Heilbrigðiseftirlits Vesturlands í tengslum við starfsemi Hvals hf. og starfsleyfi félagsins.

Eftir að kvörtun yðar barst hafið þér átt í reglulegum samskiptum við skrifstofu umboðsmanns, bæði með tölvubréfum og í símtölum. Meðal þeirra gagna sem þér hafið afhent umboðsmanni er svar matvælaráðuneytisins 30. maí sl. við erindi yðar f.h. A. Þar voruð þér upplýstar um að ráðuneytið gæti ekki orðið við erindi yðar þar sem krafist væri staðfestingar á að ekki yrðu leyfðar veiðar á langreyði á árinu 2023.

Í tilkynningu sem birt var á vefsíðu Stjórnarráðsins 20. júní sl. segir að matvælaráðherra hafi tekið ákvörðun um að stöðva tímabundið veiðar á langreyðum fram til 31. ágúst nk. Í ljósi þessarar ákvörðunar verður ekki séð að tilefni sé til að taka kvörtun yðar til frekari skoðunar enda lýtur hún að því að ráðuneytið hafi ekki tekið ákvörðun um framhald veiðanna. Í þessu samhengi skal einnig bent á að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir ákvæðið á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af þessu ákvæði leiðir jafnframt að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af málum á meðan þau eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að í niðurlagi tilkynningarinnar kemur fram að ráðuneytið muni á komandi mánuðum kanna mögulegar úrbætur og lagaleg skilyrði þess að setja frekari takmarkanir á veiðarnar á grundvelli laga. Þá er útgáfa nýs starfsleyfis Hvals hf. enn til meðferðar hjá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands en á fundi Heilbrigðisnefndar Vesturlands 16. júní sl. var tímabundið starfsleyfi félagsins framlengt til 12. júlí nk., sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, en þar segir að útgefanda starfsleyfis sé heimilt að framlengja gildistíma starfsleyfis á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, hafi fullnægjandi umsókn um nýtt starfsleyfi borist útgefanda.

Í erindum yðar hefur jafnframt verið óskað eftir því að umboðsmaður taki stjórnsýslu í tengslum við hvalveiðar til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 um heimild umboðsmanns til að hefja athugun á máli að eigin frumkvæði. Af þessu tilefni tek ég fram að þegar umboðsmanni berast ábendingar á borð við þær, sem þér færið fram í kvörtun yðar, eru þær yfirfarnar með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka þau atriði sem koma fram í þeim til sérstakrar athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns. Við mat á því er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna er tengjast umræddu málefni, svo og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefni tekið til athugunar er viðkomandi að jafnaði ekki upplýstur sérstaklega um það heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til alls framangreinds brestur lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og læt ég því máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.