Sveitarfélög.

(Mál nr. 12205/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar að fækka tilteknum æfingum hjá íþróttafélagi.  

Þar sem erindið hafði ekki verið borið upp við bæjarstjórn voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. júní 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A-deildar [félagsins] B 23. maí sl. yfir þeirri ákvörðun íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar að fækka æfingadögum félagsins. Lýtur kvörtunin einnig að því að ráðið hafi í tvígang lokað fyrir aðgang félagsins að húsnæði þess án nokkurs fyrirvara. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni telur A-deildin að rekja megi framangreindar lokanir meðal annars til deilna milli stofnanda deildarinnar við fulltrúa ráðsins um eignarhald á dýnum. 

Af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Byggir ákvæðið á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að af kvörtuninni verður ekki ráðið að deildin hafi komið athugasemdum sínum á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og fengið viðbrögð við þeim. Samkvæmt 57. gr. A í samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 622/2019 kýs bæjarstjórn í nefndir og ráð bæjarins, þ. á m. íþrótta- og tómstundaráð, og fer að öðru leyti með æðstu stjórn sveitarfélagsins. Hef ég hér í huga að bæjarstjórn gefist kostur á að taka afstöðu til málsins og eftir atvikum bregðast við með þeim hætti sem hún telur tilefni til. Að því marki sem kvörtun yðar lýtur að samskiptum A-deildarinnar við starfsmann ráðsins skal jafnframt tekið fram að ef A-deildin, eða þér fyrir hennar hönd, teljið tilefni til er unnt að koma athugasemdum á framfæri við þann sem fer með aga- og boðvald gagnvart viðkomandi starfsmanni og tilgreina þá nánar hvað felst í þeim samskiptum sem A-deildin er ósátt við. Með þeim hætti fengi sá sem hefur umrætt vald tækifæri til að fjalla um málið og taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að bregðast við gagnvart starfsmanninum.

Í ljósi þessa og með vísan til þess sem rakið er hér að framan tel ég ekki rétt að taka kvörtunina til frekari athugunar. Ég tek hins vegar fram að freisti A-deildin þess að leita til bæjarstjórnar vegna málsins og telji sig enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar er unnt að leita til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi innan eins árs frá því er afstaða hennar liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Verður þá tekin ákvörðun um hvort og þá með hvaða hætti umrætt mál fellur undir starfssvið umboðsmanns.

Lýk ég því umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.