Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Orku- og auðlindamál.

(Mál nr. 12219/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Orkustofnunar á kvörtun yfir félagi.  

Orkustofnun upplýsti að unnið hefði verið af fullum þunga að málinu að undanförnu og mikið kapp lagt á að klára það. Í ljósi áformanna taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. júní 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 1. júní sl., f.h. A ehf., yfir töfum á afgreiðslu Orkustofnunar á kvörtun félagsins til stofnunarinnar yfir því að mælabúnaður í tilteknum hleðslustöðvum annars félags uppfyllti ekki kröfur sem gerðar væru í reglugerð.

Í tilefni af kvörtun yðar var Orkustofnun ritað bréf 2. júní sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði afgreiðslu og meðferð ofangreinds erindis A ehf.

Svar Orkustofnunar barst 19. júní sl. en þar kemur meðal annars fram að unnið hafi verið í málinu af fullum þunga að undanförnu og mikið kapp lagt á að klára afgreiðslu kvörtunarinnar. Þá kemur fram í svari stofnunarinnar til umboðsmanns að stjórnvaldsákvörðunar í málinu sé að vænta í síðasta lagi 23. júní nk. Að endingu harmar Orkustofnun að meðferð kvörtunar A ehf. hafi tekið lengri tíma en venjulegt sé hjá stofnuninni.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og í ljósi áforma Orkustofnunar um að taka stjórnvaldsákvörðun í málinu á allra næstu dögum, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Standist áform Orkustofnunar ekki eða ef frekari tafir verða á meðferð málsins, getið  þér leitað til mín á ný teljið þér ástæðu til þess.