Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Orku- og auðlindamál.

(Mál nr. 12220/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Orkustofnunar á kvörtun.  

Orkustofnun upplýsti að unnið hefði verið að málinu að undanförnu og að í kjölfar fundar með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun yrði félagið upplýst um næstu skref og hvenær niðurstöðu væri að vænta í málinu. Í ljósi þessara áforma taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. júní 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 1. júní sl., f.h. A ehf., yfir töfum á afgreiðslu Orkustofnunar á kvörtun félagsins til stofnunarinnar yfir fyrirkomulagi annars félags við uppsetningu hleðslustöðva við fjölbýlishús.

Í tilefni af kvörtun yðar var Orkustofnun ritað bréf 2. júní sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði afgreiðslu og meðferð ofangreindrar kvörtunar A ehf.

Svar Orkustofnunar barst 20. júní sl. en þar kemur meðal annars fram að unnið hafi verið í málinu að undanförnu. Stofnunin hafi óskað eftir fundi með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna meðferðar þess en að honum loknum verði kvartandi upplýstur um næstu skref og hvenær niðurstaðna sé að vænta. Að endingu harmar Orkustofnun að meðferð kvörtunar A ehf. hafi tekið lengri tíma en venjulegt sé hjá stofnuninni.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og í ljósi þess, sem fram kemur í svari Orkustofnunar til umboðsmanns um framvindu málsins, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til mín á nýjan leik teljið þér ástæðu til þess.