Málefni fatlaðs fólks. Heilbrigðismál. Rafræn stjórnsýsla.

(Mál nr. 12222/2023)

Kvartað var yfir því að hafa ekki lengur aðgang að Heilsuveru sonar sem væri orðinn 16 ára gamall. Hann væri með fötlun og gæti ekki átt rafræn skilríki og hefði því ekki möguleika á að skoða ýmis skilaboð sem bærust með Heilsuveru. Foreldrið gæti ekki orðið persónulegur talsmaður piltsins fyrr en við 18 ára aldur hans og kæmi því að lokuðum dyrum á þeim fjölmörgu stöðum sem krefðust rafrænna skilríkja.  

Umboðsmaður benti á að með breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk væri ekki lengur gerð krafa um að fötluð manneskja væri lögráða til að eiga rétt á persónulegum talsmanni. Þar sem engin gögn fylgdu kvörtuninni varð hvorki ráðið hvort foreldrinu hefði verið synjað um slíkt né hvort athugasemdum hefði verið komið á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og fengin viðbrögð þeirra. Ekki voru því lagaskilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. júní 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar sem barst 2. júní sl. og lýtur að því að þér hafið ekki lengur aðgang að Heilsuveru sonar yðar sem sé orðinn 16 ára gamall. Fram kemur í kvörtuninni að sonur yðar sé fatlað ungmenni sem ekki geti átt rafræn skilríki og hafi hann því ekki færi á að skoða ýmis skilaboð sem berist í Heilsuveru. Þá takið þér fram að þér getið ekki orðið persónulegur talsmaður hans fyrr en við 18 ára aldur og komið þér því að lokuðum dyrum á þeim fjölmörgu stöðum sem krefjast rafrænna skilríkja.  

  

II

Af VI. kafla laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, leiðir að sjúklingar 16 ára og eldri eiga sjálfstæðan rétt til að fá upplýsingar frá heilbrigðisyfirvöldum, sbr. 25. gr. laganna. Hefur réttur foreldra til aðgengis að upplýsingum um börn þeirra eftir 16 ára aldur því verið takmarkaður á grundvelli laga.

Í kvörtun yðar segir að þér getið ekki orðið persónulegur talsmaður sonar yðar fyrr en við 18 ára aldur. Fjallað er um persónulega talsmenn í IV. kafla laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk sem og reglugerð nr. 972/2012, um persónulega talsmenn fatlaðs fólks. Í 7. gr. laganna er kveðið á um að fatlaður einstaklingur sem á vegna fötlunar sinnar erfitt með að gæta hagsmuna sinna skuli eiga rétt á persónulegum talsmanni. Við setningu laganna var skilyrði í 7. gr. um að einstaklingur skyldi vera lögráða til þess að eiga rétt á persónulegum talsmanni. Með lögum nr. 84/2015 var gerð breyting á téðu ákvæði á þann hátt að umrætt skilyrði var fellt á brott, sbr. 26. gr. laganna. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu kom meðal annars fram að fyrirkomulagið hefði sætt ákveðinni gagnrýni og í ljósi reynslunnar yrði ekki talið tilefni til að gera áfram kröfu um að fatlaður einstaklingur væri lögráða til þess að eiga rétt á persónulegum talsmanni (sjá þskj. 1161 á 144. löggj.þ. 2014-2015, bls. 25).

Af kvörtun yðar, en henni fylgdu engin gögn, verður ekki ráðið hvort yður hafi verið synjað um að vera persónulegur talsmaður sonar yðar og að öðru leyti verður ekki ráðið hvort að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og fengið viðbrögð við þeim, til að mynda við réttindagæslumenn fatlaðs fólks, sem samkvæmt 7. gr. laga nr. 88/2011 staðfestir val talsmanns. Þá bendi ég yður á að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fer með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks samkvæmt lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, og lögum nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Ástæða þess að ég nefni þetta er að af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir meðal annars að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Byggir ákvæðið á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Þar sem ekki liggur fyrir afstaða stjórnvalda til kvörtunarefnisins brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Í tilefni af kvörtun yðar vek ég þó athygli á að umboðsmaður hefur undanfarið haft til skoðunar að eigin frumkvæði ýmis atriði er tengjast rafrænni birtingu gagna af hálfu stjórnvalda. Á meðal þess sem athugunin hefur lotið að er hvort og þá með hvaða hætti fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem ber nú ábyrgð á starfrækslu miðlægs pósthólfs, hafi við innleiðingu laga nr. 105/2021, um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, hugað að stöðu þeirra sem af einhverjum ástæðum standa höllum fæti gagnvart rafrænum miðlum, svo sem fatlaðs fólks. Höfð verður hliðsjón af þeim atriðum er fram koma í kvörtun yðar við meðferð málsins. Niðurstaða slíkrar athugunar verður þó ekki tilkynnt yður sérstaklega en niðurstöður frumkvæðisathugana eru birtar á heimasíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is, þegar þær liggja fyrir.   

  

III

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar. Fari svo að þér leitið til réttindagæslumanns eða eftir atvikum til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og teljið yður, eða son yðar, enn beitta rangsleitni getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.