Dýr. Dýravelferð. Landbúnaður.

(Mál nr. 12229/2023)

Kvartað var yfir úrskurði matvælaráðuneytisins að vísa frá kæru sem og stjórnsýslu Matvælastofnunar.  

Umboðsmaður taldi ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að afskipti Matvælastofnunar hefur einungi falið í sér almenna umfjöllun um framkvæmd stjórnsýslu en ekki kæranlega stjórnvaldsákvörðun.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 21. júní 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar [samtakanna] A 6. júní sl., sem lýtur að úrskurði matvælaráðuneytisins 10. janúar sl. þar sem kæru samtakanna til ráðuneytisins var vísað frá. Laut hún að ákvörðun Matvælastofnunar að heimila starfsemi tiltekins fyrirtækis til blóðmeraiðnaðar og blóðtöku úr fylfullum hryssum án sérstaks leyfis, eins og það er tilgreint í stjórnsýslukæru samtakanna frá 23. maí 2022. Af kvörtuninni verður jafnframt ráðið að hún beinist að stjórnsýslu Matvælastofnunar í tengslum við framangreinda ráðstöfun stofnunarinnar.

Matvælastofnun er stjórnvald sem heyrir undir yfirstjórn matvælaráðherra, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 30/2018, um Matvælastofnun, og 5. tölulið 1. mgr. 8. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Af því leiðir að ráðuneytið fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir ráðherra gagnvart stofnuninni og hann setur almennt stjórnvaldsfyrirmæli á málefnasviðinu. Þá eru stjórnvaldsákvarðanir stofnunarinnar almennt kæranlegar til ráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í fyrrnefndum úrskurði matvælaráðuneytisins er rakið að ráðuneytinu hafi borist erindi frá A þar sem kærð hafi verið framangreind ákvörðun Matvælastofnunar. Kærunni fylgdi afrit af bréfi Matvælastofnunar 15. júní 2020 til tilgreinds fyrirtækis undir yfirskriftinni „Fyrirkomulag blóðtöku úr fylfullum hryssum og eftirlits með því“. Í bréfinu voru rakin þau lög og reglur sem gilda um blóðtöku úr fylfullum hryssum. Þá segir í bréfinu um leyfisveitingar til starfseminnar og eftirlit með henni: „Niðurstaðan er sú að blóðtaka úr hryssum til framleiðslu á efnum er ekki leyfisskyld starfsemi á grundvelli laga um velferð dýra.“

Í úrskurðinum segir að ráðuneytið hafi lagt þann skilning í bréf Matvælastofnunar í júní 2020  að það fæli einungis í sér almenna umfjöllun um framkvæmd stjórnsýslu á grundvelli laga nr. 55/2013, um velferð dýra, sem væri í höndum Matvælastofnunar, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í bréfinu hafi því ekki falist stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg væri til ráðuneytisins á grundvelli 26. gr. sömu laga. Eftir að hafa kynnt mér úrskurð ráðuneytisins og önnur gögn málsins og í ljósi þess hvernig mál þetta er að öðru leyti vaxið tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins. Breytir þar engu þótt ráðherra fari með stjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart Matvælastofnun. Tel ég því ekki tilefni til að taka úrskurð ráðuneytisins til frekari athugunar.

Að því marki sem kvörtunin beinist að stjórnsýslu Matvælastofnunar í tengslum við umrædda starfsemi skal tekið fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal bera kvörtun fram við umboðsmann innan árs frá því er stjórnsýslu­gerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Umrætt erindi Matvælastofnunar er frá árinu 2020 og því ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að ég fjalli frekar um þann þátt kvörtunarinnar. Ég vek þó jafnframt athygli á því að Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að hefja frumkvæðisúttekt á eftirliti Matvælastofnunar með velferð dýra samkvæmt lögum nr. 55/2013, s.s. tilkynnt var um á vefsíðu Ríkisendurskoðunar, www.rikisendurskodun.is, 1. september 2022.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.