Fjármála- og tryggingastarfsemi. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12231/2023)

Kvartað var yfir birtingu valkvæðra greiðsluseðla frá ýmsum samtökum í heimbanka fólks hjá Íslandsbanka, Arion banka, Landsbankanum og eftir atvikum fleiri bönkum.

Þar sem bankarnir teljast allir einkaréttarlegir aðilar féll það ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 21. júní 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 7. júní sl. þar sem gerðar eru athugasemdir við birtingu valkvæðra greiðsluseðla frá ýmsum samtökum í heimabanka fólks sem náð hefur 18 ára aldri. Í kvörtuninni segir að hún beinist að Íslandsbanka, Arion banka, Landsbankanum og eftir atvikum fleiri bönkum.

Í tilefni af erindi yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns Alþingis að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. sömu laga nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Starfssvið umboðs­manns tekur hins vegar almennt ekki til einkaaðila, nema við­komandi einka­aðila hafi að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er sú að Íslandsbanki hf.,  Arion banki hf. og Landsbankinn hf. eru fjár­málafyrirtæki sem starfa á grundvelli laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og teljast því einkaréttarlegir aðilar. Þar sem kvörtun yðar beinist að starfsemi einkaaðila, og í ljósi framangreindra lagareglna um starfssvið umboðsmanns Alþingis, brestur lagaskilyrði til að ég taki kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.