Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12115/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á athugasemdum í kjölfar umferðarslyss sem viðkomandi lenti í.  

Í svari til umboðsmanns kom fram að misbrestur hefði orðið á því að svara, beðist velvirðingar á því og að gerðar hefðu verið ráðstafanir til að koma í veg fyrir að svona nokkuð gæti endurtekið sig. Jafnframt svaraði lögreglustjórinn erindinu og því ekki ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. júní 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 23. mars sl. yfir töfum á afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á athugasemdum sem þér senduð embættinu í kjölfar umferðarslyss sem þér urðuð fyrir. Þá gerðuð þér og athugasemdir við að erindum yðar til lögreglustjórans hefði ekki verið svarað.

Í tilefni af kvörtun yðar var lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu ritað bréf 17. apríl sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindin, sem kvörtun yðar til umboðsmanns laut að, hefðu borist og, ef svo væri, hvað liði afgreiðslu og meðferð þeirra.

Svar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu barst 16. júní sl. en þar kemur fram að misbrestur hafi orðið á því að erindum yðar hafi verið svarað og er beðist velvirðingar á því. Í bréfinu kemur einnig fram að gerðar hafi verið ráðstafanir til að koma í veg fyrir að nokkuð slíkt komi fyrir á nýjan leik. Svarbréfi lögreglustjóra til umboðsmanns fylgdi einnig afrit af bréfi hans til yðar, sem dagsett er 15. júní. sl., þar sem settar eru fram skýringar í tilefni athugasemda yðar.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og í ljósi þess að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur brugðist við erindum yðar með ofangreindu bréfi 15. júní sl., tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.